Held ég sé ástfangin…

… af Ragnari Aðalsteinssyni. Ég var að lesa yfir kröfu hans um leyfi til áfrýjunar dómnum í stóra vegatálmunarmálinu. Maðurinn er hvílíkur snillingur í því að koma fyrir sig orði að þessi lesning er á mörkum þess að vera ljóðræn. Ef hann væri bloggari myndi mig áreiðanlega langa að sofa hjá honum. Mig langar iðulega að sofa hjá góðum pennum, alveg þar til ég hitti þá í eigin persónu. Mín innri kynvera lifir í allt öðrum raunveruleika en ég sjálf. Sýndarveruleika netheima.

Skrýtið annars hvað það snertir djúpan streng í hjarta mínu að vita til þess að einhver verji mig. Þótt málið sé ómerkilegt og hafi ekki valdið mér umtalsverðum kvíða og jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það, finnst mér samt eitthvað svo notalegt við það að einhver annar tali máli mínu. Kannski bara af því að það gerirst ekki oft. Venjulega er það ég sem stend í því að verja aðra.

Rapport

Ef allt gengur eftir fer ég til Tel Aviv þann 28. ágúst.

Kappa Fling Fling hringdi í mig og bauð mér betri kjör. Aftur! Ég skulda þessum banka helling af peningum og það hefði verið miklu rökréttara að skerða kjörin mín en bæta þau. Ég efast samt um að bankanum mínum þyki vænt um mig. Tek þessu frekar sem merki um að fýlan sé rokin úr Mammoni.

Ég er ekki frá því að hjartveikin í mér sé að skána. Ég á yfirleitt auðvelt með að taka ákvarðanir en er búin að vera í krísu út af búðinni alveg voðalega lengi. Mér þykir vænt um hana og vil ekki sleppa henni en hef svo sterka þörf fyrir að takast á við eitthvað nýtt að ég er lengi búin að vera að hugsa um að loka. Ég sé fram á að með því að fara í skólann geti ég bæði haldið í búðina og líka gert eitthvað fyrir heilann í mér.

Saving Iceland stendur fyrir dagskrá í Reyjavíkurakademíunni (JL húsinu) kl 19:30 í kvöld. Samarandra Des, indverskur sérfræðingur um áliðnaðinn heldur fyrirlestur um goðsögnina um hreina orku og Andri Snær Magnason mun einnig taka til máls. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og það er enginn aðgangseyrir. Ég hvet alla sem hafa áhuga á umhverfismálum eða vilja kynna sér rök stóriðjuandstæðinga til að mæta.

 

Mylla

Ilmur af jörð.
Ligg í grasinu hjá Gullinmuru og Gleymmérei og hlusta á Urriðafoss.
Handan Þjórsár eru nokkrir ísbirnir á beit.

Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn. Trúi bara á ákveðið réttlæti. Rétt fólks til að ákveða hvort það ætlar að selja jarðirnar sínar án þess að hafa áróðursmeistara inni á gafli hjá sér nánast vikulega (svo er fólk að hneykslast á ágengni votta Jehóva). Rétt almennings til að fá réttar upplýsingar. Rétt náttúrunnar sjálfrar.

Fullkomið veður til gönguferðar. Mömmurnar mættar líka. 10 félagar úr Sól á Suðurlandi komu og þeir sem ég talaði við taka bara mjög vel í að vinna með okkur.

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu segja þeir. Við eigum mikinn fíl óétinn.
Við gætum kannski kryddað hann með blóðbergi

Aðstaðan er ekki ironisk. Hún er aluminumísk.

Ekkert stress

Ég sé fram á að facebook geti orðið stórþjófur á tíma minn. Allavega þetta social dæmi. Hálftími farinn í netdaður við einhverja útlendinga. Hvar eru Íslendingarnir?

Aðalmeðferð í stóra vegatálmunarmálinu hefst í fyrramálið. Ég er ekki baun stressuð. Við fengum Ragnar Aðalsteinsson sem verjanda og hann er búinn að vinna heimavinnuna sína, ólíkt þeim sem varði Hauk og félaga á sínum tíma. Ekki það að ég hefði nokkurntíma farið á límingunum yfir jafn ómerkilegu máli en það er ekki verra að hafa hæfan lögmann.

Öryggistilfinning er góð.

Níðstöngin stendur enn

Jón Sigurðsson hefur líklega frétt af því að til stæði að fara með særingar gegn stóriðjustefnunni, því þegar ég mætti á Austurvöll í gærkvöld, var hann búinn að ná sér í þessa líka fínu níðstöng. Ég er ekkert hissa, því það ógnar auðvitað sjálfstæði þjóðarinnar ef örfá risafyrirtæki yfirtaka allt atvinnulíf. Ég ók þarna fram hjá rétt áðan og hann heldur ennþá á stönginni og beinir henni að þinghúsinu. Halda áfram að lesa