Níðstöngin stendur enn

Jón Sigurðsson hefur líklega frétt af því að til stæði að fara með særingar gegn stóriðjustefnunni, því þegar ég mætti á Austurvöll í gærkvöld, var hann búinn að ná sér í þessa líka fínu níðstöng. Ég er ekkert hissa, því það ógnar auðvitað sjálfstæði þjóðarinnar ef örfá risafyrirtæki yfirtaka allt atvinnulíf. Ég ók þarna fram hjá rétt áðan og hann heldur ennþá á stönginni og beinir henni að þinghúsinu.

nidstongAthöfnin heppnaðist ágæta vel. Ég fór með stuttan veðurgaldur í hádeginu í gær og veðrið varð frábært þótt liti svosem ekki út fyrir það um tvöleytið. Ekki svo að skilja að ég hefði neitt látið rigningu og rok stöðva mig, ef maður hefur ekki viljastyrk til að standa smástund úti í rigningu er ekki við því að búast að galdrar skili árangri en það er vissulega skemmtilegra að fá gott veður. Hljóðkerfið var líka svona stórfínt, mér er sagt að textinn hafi komist til skila um allan Austurvöll og ómurinn borist miklu lengra.

Allt mitt lið stóð sig vel. Amma alþýðunnar, klædd í frystihúsagalla, rassskellti þingmannsódámana sem gáfu samþykki sitt fyrir Kárahnjúkavirkjun af svo miklum myndarbrag að brúðan rifnaði. Ekki vildi ég hafa þá konu á móti mér.

704Dansararnir og trommararnir voru búnir að búa sér til verulega flotta búninga og stóðu sig líka með prýði. Óeinkennisklæddu löggurnar stóðu sig að vísu ekki betur en svo að það var alveg greinilegt að þeir voru ekki í fríi. Þeir voru samt ekkert fyrir okkur, gerðu enga tilraun til að handtaka neinn og þar með að sjálfsögðu jafn velkomnir og allir aðrir. Það er ekki eins og ég hafi gert eitthvað ólöglegt svo nærvera löggunnar fer ekkert í taugnarnar á mér. Mér fannst hinsvegar hallærislegt að senda þá óeinkennisklædda, einkum af því að embætti þeirra fór ekki fram hjá neinum.

Þetta var heilmikil stemning og þegar ég var búin að gala seiðinn, gekk ég upp að stjórnarráði, með nornavönd og mannabein og lagði rúnaristu á tröppurnar. Bölrúnir gegn hverri þeirri ríkisstjórn sem lætur gróðabrall og spillingu stjórna ákvörðunum sínum í umhverfis- og orkumálum. Fyrrum borgarstjórn Reykjavíkur er búin að fá smjörþefinn af því sem getur hent þá sem misnota vald sitt og meira verður fall þeirrar ríkisstjórnar sem hundsar umhverfisjónarmið. Það liðu ekki nema 6 vikur frá því að við mögnuðum Halldóri Ásgrímssyni sauðshöfuð til brottvikningar af þingi og þar til hann sjálfur tilkynnti að hann ætlaði að hætta. Ef við sjáum jafn skjótan árangur af þessum særingum verð ég hæst ánægð.

Markmiðið var að vekja náttúruvættirnar til meðvitundar um stóriðjustefnuna og eggja þær til að skerast í leikinn, gefa ríkisstjórninni og stjórnendum orku- og álfyrirtækja eitthvað persónulegra að hugsa um svo þeir hætti að beina orku sinni að áformum um að eyðileggja Ísland og hrista rækilega bæði ríkisstjórnina, auðvaldið og jörðina undir Kárahnjúkavirkjun. Það eina sem getur orðið til þess að stóriðjusinnar breyti viðhorfum sínum eru stór áföll. Kárahnjúkavirkjun þarf að vekja mikinn ugg og verða skelfilegur fjárhagsbaggi til þess að fallið verði frá hugmyndum um að virkja hverja einustu lækjarsprænu á landinu.

Það er hræðilegt að þurfa að óska þjóð sinni áfalla en því miður hefur allt annað brugðist, öll skynsamleg rök, allar bænir um að landinu verði þyrmt hafa verið hundsaðar.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Níðstöngin stendur enn

 1. ———————–

  ég dáist að fólki eins og þér sem hefur kjark, þor og nennu til að gera eitthvað í málunum í staðinn fyrir að sitja bara heima og tuða.

  Posted by: inga hanna | 10.11.2007 | 10:13:52

  —   —   —

  Eva þú hefur gríðarlega mikla nærveru og kraft sem jafnast á við galdrana.
  Þetta var magnþrungin upplifun og heiður að verða vitni að. Ég hefði viljað ná betri myndum en tja…

  Posted by: Gillimann | 10.11.2007 | 16:50:06

  —   —   —

  Ég er svo hjartanlega ósammála þessu. Þó að ég trúi ekki á galdra, þá er ég nokkuð vel lesinn um þá, sérstaklega þjóðlega galdra, en ekki wiccasamsullumbull.

  Manstu þegar nokkrir meðlimir innan Ásatrúarfélagsins mótmæltu virkjuninni með því að reysa blöndu af níðstöng og vindgapa? (ég sem meðlimur félagsins mótmælti því eins harðlega og Íraksstríðinu, ekki í mínu nafni, takk)

  Hvað hafa margið dáið síðan þá við byggingu þessa mannvirkis?

  Þegar þú reisir níðstöng ertu, samkvæmt þjóðtrúnni, að vísa landvættum á móti einstaklingnum sem þú reisir hana, svo sá einstaklingur hafi enga væru hérlendis.

  Þú reistir ALÞINGI ÍSLENSKA LÝÐVELDISINS sem er ELSTA LÝÐRÆÐISSAMKOMA Í HEIMI, níðstöng!?!?!

  Ertu gjörsamlega glórulaus? Þú reysir ekki óhlutbundinni stefnu stjórnvalda níðstöng, þú reysir fólki níðstöng.
  Ég veit að þetta á að vera táknrænt, en ímyndaðu þér í smástund ef þetta kukl ykkar virkaði.
  Hvað myndiru gera þegar hver alþingismaðurinn og konan á fætur öðrum hryndi niður?
  Væriru sátt við að deyða hann Steingrím þinn?

  Er ekki wicca trúin að svona karmísk skuld gjaldist þrefalt?
  Þá hefur þú 189 dauðsföll til þess að hlakka til.

  Ég er búinn að svara þínu svari á blog.is blogginu mínu.

  Posted by: J. Einar Valur Bjarnason Maack. | 12.11.2007 | 20:24:06

  —   —   —

  BTW:

  Við eigum til orð yfir fólk sem steypir lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins uppá eins síns dæmi.

  Valdaræningjar, uppivöðsluseggir og fasistar eru orðin sem koma fyrst í hugann.

  Posted by: J. Einar Valur Bjarnason Maack. | 12.11.2007 | 20:28:16

  —   —   —

  Hvað kemur þér til að halda að ég sé wiccatrúar? Ég er reyndar yfirlýstur trúleysingi og hef ekki nokkra trú á því að galdrar komi í bakið á manni af sjálfu sér.

  Annars þætti mér fróðlegt að vita, þótt ég sé trúlaus, hvaða gvuð segir eiginlega að það sé bannað eða ekki hægt að reisa níðstöng gegn stefnum og viðhorfum?

  Heldur þú virkilega að aldagamlar hefðir komi í veg fyrir möguleikann á nýsköpun í göldrum eða að ekki sé hægt að nota gamlar aðferðir á nýjan hátt? Í dag borða Íslendingar kartöflumús með þorramatnum og hann er síður en svo verri fyrir það.

  Hvað ég myndi gera ef alþingismenn hryndu niður? Af hverju ætti ég að gera eitthvað í því? Ekki ætla ég að stofna stjórnmálaflokk svo mikið er víst enda hef ég ekkert álit á flokkapólitík. Ég óska stóriðjusinnum á þingi ekki dauða en ég óska þeim valdleysis. Það gleddi mig líka afskaplega mikið að frétta af því að eitthvað af þessu pakki hefði fengið njálg eða eitthvað álíka hvimleitt ógeð.

Lokað er á athugasemdir.