Hjartaþemba

Ég man sjaldan drauma og þeir sem ég man eru oftar en ekki samhengislaust rugl. En í nótt dreymdi mig að ég væri að tala við Ómar Ragnarsson. Ég tek fram að ég ber mikla virðingu fyrir Ómari. Enginn hefur kynnt íslenska náttúru jafn vel fyrir þjóðinni og ég efast um að náttúruverndarsinnar ættu marga fylgjendur ef ekki væri fyrir hans tilstilli.

Mig dreymdi semsagt að Ómar væri afskaplega kátur yfir því að Illvirkjun hefði ákveðið að ræða frekar við netþjónafyrirtæki en álframleiðendur. Ég sagðist alveg vera sammála honum um að það væri skömminni skárri kostur en að ég vildi nú samt ekki fórna Urriðafossi. Við ræddum þetta eitthvað áfram, allt á góðum nótum.

Svo er ég allt í einu komin inn í herbergi, þar sem Ómar liggur í rúmi, greinilega mjög veikur. Einhver maður situr hjá honum og segir að hann sé með hjartaþembu (er það eitthvað sem er til í alvöru?) og að ég verði að stinga hann í hjartað til að hleypa loftinu út. Ómar getur lítið tjáð sig en stynur samt „já“ og horfir á mig bænaraugum. Ég átta mig á því að ég verð að gera þetta af því að hinn maðurinn þorir það ekki. Ég tek hníf sem liggur á hillu og geng til Ómars. Mér til léttis sé ég að hann er stokkbólginn en bólgan er fyrir ofan hjartað. Ég veit þannig að ég þarf ekki að stinga í hjartað sjálft en hef áhyggjur af því að ég stingi í bein. Maðurinn segir mér að hafa engar áhyggjur af því, nú þurfi að bjarga lífi en það megi vel meðhöndla bein sem hefur orðið fyrir skaða. Ég rek hnífinn á kaf í bólguna og losa svo hnífinn. Loft streymir út um skurðinn. Ég hugsa sem svo að það sé mikil heppni að ekki skuli blæða en eftir smástund renna nokkrir blóðdropar úr sárinu. Þeir eru þó fáir og Ómar sem er nú orðinn hinn hressasti segir að þetta sé bara smá skeina og aftekur með öllu að ég fari að leita að sárabindi.

Þetta er einhver táknrænasti draumur sem mig hefur dreymt í mörg á og nú þætti mér gaman að vita hvort aðrir vilji túlka hann á sama hátt og ég sjálf.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hjartaþemba

 1. ————————————–

  þú þorir að gera eitthvað í málunum, meðan aðrir sjá þörfina, vita betur, en gera ekkert?

  Posted by: baun | 12.11.2007 | 17:21:04

  —   —   —

  Já en afhverju Ómar og afhverju er loft við hjartað?

  Posted by: Eva | 12.11.2007 | 18:24:01

  —   —   —

  Merkilegur draumur. Mig langar að heyra hvernig þú túlkar drauminn!

  Posted by: Þorkell | 12.11.2007 | 22:24:38

  —   —   —

  Hjarta Ómars er að springa af harmi. Saving Iceland/þú getur gert hluti sem aðrir þora ekki, jafnvel munu renna nokkrir blóðdropar. Það mun bjarga hjarta Ómars frá því að springa endanlega.

  Posted by: Kristín | 13.11.2007 | 8:39:06

  —   —   —

  Ómar er tákngervingur þeirra baráttuaðferða sem snúast mest að upplýsingaflæði til almennings. Hjartað táknar tilfinningar. Í þessu tilviki líklega það sem hefur verið kallað „tilfinningarök“ með nokkurri lítilsvirðingu. Ómari hefur oft verið eignuð tilfinningasemi í náttúruverndarmálum.

  Ég túlka drauminn sem ábendingu um að ég ætti að hætta að leggja áherslu á kalda skynsemina í því að hægja á virkjanaframkvæmdum og taka fremur upp svokölluð tilfinningarök sem ég hef lítt hampað hingað til.

  Landsvirkjunaróbermin hafa slegið ákveðin rök út af borðinu með því að hætta við sölu til allra ógeðslegustu umhverfissóðanna svo mér finnst líklegt að til að halda umræðunni vakandi þurfi að leggja áherslu á fegurð náttúrunnar og allan þann þjóðsöng á næstunni. Mig verkjar í hjartað við tilhugsunina um meira væl um fjöll og fossa og svartan sand en kannski er tímabært að ég setjist niður og yrki hæfilega væminn ættjarðarsöng.

  Posted by: Eva | 13.11.2007 | 13:38:38

  —   —   —

  Ég held að draumar séu skilaboð frá undirmeðvitund okkar og því er þín túlkun sú rétta fyrir þig. Ég hefði túlkað drauminn öðruvísi en það hefði ekki verið sá boðskapur sem þú átt að heyra.

  Posted by: Þorkell | 13.11.2007 | 22:00:09

  —   —   —

  Mig langar að heyra þína túlkun samt.

  Posted by: Eva | 13.11.2007 | 23:07:45

  —   —   —

  Ok, en ég vona að takir hana ekki fram yfir þína.

  Ég sé Ómar eins og þú. Hins vegar held ég að draumurinn tákni að hans baráttuaðferðir dugi ekki. Hún er að drepa hann (eða þá aðferð sem hann stendur fyrir). Landinu verður drekkt, þrátt fyrir þessa samninga. Það er eins og hjarta Ómars. Það eina sem getur bjargað málum eru róttækar aðgerðir, jafnvel þótt það kosti smá blóð og jafnvel líkamlegan skaða.

  Posted by: Þorkell | 14.11.2007 | 2:00:23

  —   —   —

  Rökrétt túlkun og það fyrssta sem mér datt í hug en þar sem ég vissi það fyrir, held ég að draumurinn hljóti að fela í sér í ögn flóknari merkingu.

  Posted by: Eva | 14.11.2007 | 8:08:55

Lokað er á athugasemdir.