Með fullri virðingu – eða ekki

Drinng!
Nornin: Eva.
Rödd í símanum: Sæl Eva ég heiti Halldór (eða kannski hét hann Kristján eða Helgi eða Sigurjón, ég man það bara ekki) og hringi frá lögreglunni. Við þurfum að birta þér fyrirkall. Hvar ertu stödd?

(hmmm… gæti verið skemmtilegt að plata þá í bíltúr. Kannski er ég austur á Selfossi. Nei annars, það gæti komið að því að ég þyrfti á því að halda að blöffa.)

Nornin: Ég er uppi í Heiðmörk.
Löggi (glaðlega): Ertu í labbitúr?
(í labbitúr í 100 stiga frosti, nei það er nú ekki alveg minn stíll)
Nornin: Nei ég er í vinnunni.
Löggi: Við þurfum að koma til þín, hvar ertu nákvæmlega?
Nornin: Ég er við Maríuhella en það væri mjög óhentugt ef þið kæmuð núna því ég á von á 80 manns hingað eftir nokkrar mínútur og get ekki talað við ykkur á meðan hópurinn er hér.
Löggi (hughreystandi): Þetta verður allt í lagi, við erum óeinkennisklæddir og á ómerktum bíl.
Nornin: Það er ekki það sem ég er að hugsa um, ég bara er að fara í verkefni sem er mjög óþægilegt að vera truflaður við. Ég skal hinsvegar koma og sækja þetta til ykkar þegar ég er búin.
Löggi: Nei, við verðum að koma núna. Hvar í Heiðmörk eru Maríuhellar? Geturðu lýst leiðinni?

(Dettur þér í alvöru í hug að ég ætli að taka að mér ólaunað leiðsöguverkefni fyrir mann sem vill ekki sýna mér þá tillitssemi að hitta mig á ofurlítið hentugri tíma eða þiggja boð um að koma sjálf til hans? Eða heldurðu að ég sé svo mikill hálfviti að gefa þér upp nákvæma staðsetningu og bíða hér róleg ef ég ætlaði ekki að láta ná í mig?)

Nornin (þurrlega): Skoðaðu kort væni minn. Þetta er einn af þekktustu stöðunum í Heiðmörk.
Löggi: Fínt, ég geri það. Er einhver bíll þarna eða hvernig finn ég þig? Eða nei, ég náttúrulega hringi bara í þig ef við finnum þetta ekki.
Nornin (nett gröm): Það eru líkur á að verði fullt af bílum hérna og ég get ekki svarað síma þegar fólkið er komið. Ég er í hvítum kufli en ef hópurinn verður kominn verðið þið að bíða þar til ég kemst frá.
Löggi: Við komum strax. Við erum á grárri Toyotu, þú fylgist með okkur.
(Þegar hér var komið sögu var satt að segja farið að fjúka í nornina.)
Nornin (hvöss): Ef ég verð upptekin við að sinna 80 manns þá get ég ómögulega verið að skima eftir bílferðum. Ég er búin að bjóðast til að koma og sækja þetta á eftir.
Löggi: Heyrðu, við bara drífum okkur.

Þegar þeir komu sagði hann mér með barnslegri gleði að þeir hefðu bara ekki lent í neinum erfiðleikum með að finna staðinn. Líklega hélt hann í alvöru að það gleddi mig.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Með fullri virðingu – eða ekki

 1. ——————–

  uuu… hvað er fyrirkall, please segðu mér að það sé einhverskonar kall.

  Afsakið fávisku mína – en hvað ertu að gera í hvítum kufli í Maríuhellum með 80 manns og af hverju var mér ekki boðið?

  Elska lögregluna heitt.

  Posted by: lindablinda | 1.02.2008 | 19:40:06

  —   —   —

  Það er bara löggan sem notar orðið fyrirkall, við hin segjum stefna.

  Til að halda sem flestum túlkunarmöguleikum opnum (ég gæti t.d. trúað Guðjóni Viðari til að álykta að þetta hafi verið flokksþing hjá skápasjöllum) ætla ég ekki segja þér hvað ég var að gera í Maríuhellum nema undir fjögur augu.

  Posted by: Eva | 1.02.2008 | 19:58:23

  —   —   —

  Ég get ekki valið hvort er meira spennandi, hvíti kuflinn við Maríuhella eða fyrirkallinn.

  Posted by: Kristín | 1.02.2008 | 20:10:32

  —   —   —

  Helsta norn þjóðarinnar er við áttugasta mann og í fullum skrúða á afskekktum stað við ónefnda iðju og þeir mæta með stefnu!?

  Virðing mín fyrir hugprýði löggunnar í sögulegu hámarki.

  Kannski er „FÍFLdirfska“ betra orð.

  Posted by: Varríus | 1.02.2008 | 20:50:37

  —   —   —

  ég hélt að stefnuvottar birtu stefnur. Eða er það bara þegar fólk er að fara á hausinn?

  Posted by: hildigunnur | 1.02.2008 | 22:50:05

  —   —   —

  Stefnuvottar, lögregluþjónar og fangaverðir geta birt stefnur.

  Posted by: Eva | 2.02.2008 | 0:10:25

  —   —   —

  Stefna, merkir að fólki er stefnt fyrir rétt vegna ákæru sem hefur verið gefin út á hendur því. Fyrirkall (stefnunnar)er það þegar fólk er kallað fyrir réttinn, vegna stefnunnar til að gefa skýrslur. Það geta bæði verið þeir sem verið er að stefna og einnig aðrir, t.d. vitni, lögregluþjónar, læknar og aðrir sem hafa komið að málinu eða teljast hafa vita á því, þótt þeir séu ekki ákærðir.

  Posted by: Eva | 2.02.2008 | 0:21:58

  —   —   —

  Skápasjalli !! Allt er nú til 🙂

  Posted by: Guðjón Viðar | 2.02.2008 | 14:38:46

  —   —   —

  Hehehe, ég hringdi einmitt í ónefndan mann sem býr við ónefnda ‘slóð á ónefndri ‘ey en var sagt að hann væri ekki á svæðinu — það er að segja, þangað til ég kynnti mig…

  Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 3.02.2008 | 6:03:35

Lokað er á athugasemdir.