Húsráð

MFÍK og félagið Auður þurftu auðvitað endilega að halda aðalfundi sína á sama tíma. Enda útilokað að hægt sé að vera friðarsinni og frumkvöðull í senn. Ég setti Friðarhúsið ofar þar sem er enginn skortur á frumkvöðlum á Íslandi en hinsvegar fáir sem telja að undirokun og manndráp komi þeim við. Að vísu skal viðurkennast að dásamlegt lasanja, rauðvín og Svavar Knútur vógu alveg til hálfs á við málstaðinn, enda lét ég mig hverfa fljótlega eftir matinn. Þykist reyndar hafa góða afsökun en auk þess hef ég síðustu 10 árin þróað með mér andstyggð á hverjum þeim fundi þar sem þáttakendur eru fleiri en þrír.

Svavar segir að það sé auðveldara að semja sorgleg lög en glaðleg því sorgin sé svo þrálát. Hún sé eins og erfiður gestur sem setjist upp hjá manni. Það sé ekkert erfitt að mála landslag sem maður hefur alltaf fyrir augunum en gleðin sé líkari fiðrildi sem flögri hjá. Ef maður nái ekki að grípa augnablikið þá sé það bara farið. Mér þykir vænt um Svavar en eins og hann orðar þetta nú fallega þá finnst mér þetta alveg skelfileg afstaða. Betri þykir mér hugmyndafræðin sem birtist í kvæðinu „Nú geng ég með á gleðifund“ dulbúin sem drykkjuvísa. Þýðing Jóns Helgasonar er reyndar betri bæði hvað varðar skáldskaparsnilld og nákvæmni en hugmyndafræðin kemur betur fram í þessari þýðingu sem ég veit ekki hver á heiðurinn af. Miðerindið er einhvernveginn svona:

Er drepur sorg á dyr hjá mér
til dyranna ég glaður fer,
en segi: Ég í önnum er
og ekkert sinni þér.

Fyrir mörgum árum varð mér það á bókstaflega að bjóða erfiða gesti velkomna en átta mig svo á því að þeir ætluðu sér að hafa vetursetu. Ég hefði líklega látið það viðgangast ef ekki hefði verið fyrir þær sakir að þau reyktu og á þeim tíma þótti það hinn argasti dónaskapur að biðja heilsufari sínu vægðar gegn þeim viðbjóði. Það voru aðeins fasistar sem báðu fólk að svæla tóbakið sitt úti. Eftir 3 vikur var ég orðin örvæntingarfull. Vissi bara ekki hvernig maður losar sig við sníkjudýr án þess að vera dónalegur. Þá var það Ármann Jakobsson (sem blessunarlega vildi ekki giftast mér, hvorki þá né síðar, vitur maður Ármann) sem sagði blátt áfram; hvað með gamla góða húsráðið að henda þeim út? Hann sá semsagt enga ástæðu til að sýna þeim sérstaka kurteisi. Ég fór að ráðum hans og get alveg mælt með því til langs tíma þótt sá dagur væri ekki sérlega skemmtilegur.

Ég vildi að ég hefði haft vit á að yfirfæra þessa taktík þegar ég fékk annan og síst geðþekkari gest nokkrum árum síðar. Ég hleypti henni inn. Ekki bara inn í forstofu heldur sá ég líka um að næra hana og tók hana m.a.s. með mér upp í rúm. Grenjaði í mig eymd og volæði þar til ég sá fram á að sorgin myndi eyðileggja líf mitt. Þá bað ég um aðstoð við að koma henni út en það var því miður ekki í boði þar sem ég var ennþá ekki farin að hegða mér eins og fáviti. Það er nefnilega heilög skoðun heilbrigðiskerfisins að fólk sem mætir í vinnuna, tekur ábyrgð á börnunum sínum, þrífur sig áður en það fer að lykta langar leiðir og stillir drykkjuskap sínum í hóf, geti alls ekki átt sérstaklega bágt. Enda stóð það heima að um leið og fór að hegða mér eins og fáviti fékk ég alla þá þjónustu sem var í boði. Bingó!

Í dag lít ég á sorg, reiði og aðrar tilfinningar sem gera líf mitt erfiðara sem óvelkomna gesti sem reykja innandyra. Ég hendi þeim út. Strax. Nú skilst mér að listsköpun, allavega ljóðagerð, þrífist ekki án ógurlegrar eymdar en ég er eiginlega bara sátt við að vera frekar hamingjusamur leirhnoðari en harmþrungið stórskáld. Annars get ég alveg ort sæmilegt harmaklám þótt ég hlakki til að vakna á morgnana.

Sannarlega segi ég þér; ef þú ræður ekki við að koma sorginni og álíka vágestum út hjálparlaust, spilaðu þig þá aumingja, áður en þú verður að aumingja. Berðu nokkra þokkalega kæsta hákarlsbita innan klæða og mættu fullur upp á heilugæslustöð. Og ekki viðurkenna að þú hafir gefið börnunum morgunmat. En áður en til þess kemur er gott að hafa í huga að þótt maður ráði því ekki hver bankar upp á hjá manni, þá ræður maður alveg hverjum maður býður í mat.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Húsráð

Lokað er á athugasemdir.