Hvísl

Og suma daga er ég bara svo skotin í þér að hugur minn verður hávær.
Heyri sjálfa mig hækka róminn til að yfirgnæfa hann.
Ekki til að blekkja þig,
því það sem varir þínar vita er löngu smogið undir augnlokin,
heldur bara vegna þess að sumum hugsunum hæfa engin orð.

Fabla fyrir Elías

Beið uns veðrinu slotaði.

Og beið.

Á fertugasta degi kom hann fljúgandi yfir hafið.
og benti á glottköttinn
standandi á haus
út við sjóndeildarhringinn.

Þó hafði hann blaðgrænu í augum
og færði mér ólívuviðargrein.

 

Ljóð handa Hlina

Konungsson hvert ertu að fara?
hvers viltu leita?
Hvert mun nú rekkja þín renna?
rökkvar í skógi.
Blíðlega sungu þér svanir
svefnhöfgi þunga.

Skar ég þér línur í lófa
ljáði þér tauminn.
Blóð þitt á böndunum þornað
blárra en augun þín græn.

Tengsl

Hún átti það til að standa óþægilega nálægt honum í strætóskýlinu jafnvel þótt þau væru þar bara tvö. Hann hafði á tilfinningunni að hún biði hans á hverjum morgni og þegar hann nálgaðist horfði hún beint í augu hans og brosti. Hún gekk aldrei neitt lengra en það en hann kveið því samt að hitta hana. Lengi vel lét hann sem hann sæi hana ekki.

Dag nokkurn kom þó að því að hann brosti hann á móti. Það var ekki stórt og geislandi fagnaðarbros, ekki beinlínis hlýlegt heldur. Hann gaf sig ekki á tal við hana, heldur kinkaði bara kolli og brosti sem snöggvast út í annað.

En þótt það væri bara örstutt bros náði það samt til augnanna og það gladdi hana ákaflega mikið.