Útgáfuteiti

Ég er í skýjunum.

Útgáfuteitið fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hafði ekki reiknað með nema í hæsta lagi 30 manns en um 130 manns mættu, m.a.s. fullt af fólki sem ég hafði ekki séð í mörg ár og átti alls ekki von á að kæmi. Ég vissi að Jón Hallur hefði samið flott lög við kvæðin mín en ég vissi ekki að hann kæmi með heila hljómsveit. Ég hafði ekki heyrt Sólveigu Öldu syngja fyrr og hún er með virkilega flotta rödd sem passar svo vel við þessi lög. Ég fékk gæsahúð þegar ég heyrði hana syngja hefndarseiðinn. Mér finnst ekkert annað koma til greina en að gefa þessi lög út og vona bara að Teinar komist í það sem fyrst. Halda áfram að lesa

Útgáfudagur nálgast

Jæja, þá fer nú loksins að hylla undir að þessi bók okkar Ingólfs komi út. Upp úr 20. mars segja þeir hjá Skruddu. Mér finnst þetta hafa tekið óratíma en það var nú ekki fyrr en síðustu vikuna í janúar sem þeir fengu handritið í hendurnar og flestir útgefendur taka sér meira en hálfan dag til umhugsunar, svo ég get víst vel við unað.

Næsta verkefni er að undirbúa útgáfuteiti. Ég er ekki mikið samkvæmisljón, held ekki einu sinni upp á afmælið mitt nema á 12-15 ára fresti, en ég ætla allavega að fagna í þetta sinn.

Loksins

Jæja, nú ætti mesta uppsetningarveseninu að vera lokið og þessi síða orðin nothæf aftur.

Mér skilst á Skruddu að þurfi að fresta útgáfu bókarinnar okkar Ingólfs um 2 vikur í viðbót, hún komi semsagt um mánaðamótin mars-apríl. Það breytir í sjálfu sér engu og þar sem ég er búin að fá fyrirframgreiðsluna ætti ég bara að anda með nefinu en ég er samt hálfpirruð og finnst erfitt að einbeita mér að næsta verki á meðan ég hef enga hugmynd um hvernig viðtökur þessi bók fær.

Bloggvænlegri dagar eru framundan en einhvernveginn grunar mig að fólk sé steinhætt að lesa blogg. Gott ef flestir eru ekki líka að vera dálítið afslappaðir gagnvart facebook. Ég hef heyrt þess dæmi að fólk láti garðana sína, gæludýrin og fiskabúrin drabbast niður og sjálf fæ ég blessunarlega miklu færri engla, bleik hjörtu og glimmerálfa með blessunaróskum fá ókunnugu fólki.

Í hvelli

Ingólfur er snillingur. Hann kláraði umbrotið á 2 dögum og síðan erum við búin að púsla, breyta og bæta á methraða. Ég reikna með að handritið verði orðið útgáfuhæft ekki seinna en um mánaðamótin og sennilega miklu fyrr en það er eitt vandamál óleyst sem gæti tafið okkur.


Ég set myndir og annað efni sem tengist bókinni inn á Launkofann og það verður nú opnað fyrir stærri hóp en það eru ekki nema um 20 manns sem hafa haft aðgang að því hingað til. Ég er reyndar búin að skipta um lykilorð á Launkofanum svo þeir sem hafa haft aðgang þurfa að hafa samband til að fá nýjan lykil ef þeir hafa áhuga á að skoða þetta. Ég er búin að loka eldri færslum þar, allavega í bili en ég hef ekki eytt neinu, svo aðdáendum Launkofans er óhætt að anda með nefinu.

Þeir sem hafa áhuga á að fá aðgang geta sent mér póst á eva.evahauksdottir@gmail.com eða haft samband á facebook. Ég er ekki tilbúin til að láta bláókunnuga fá aðgang á þessu stigi en vona að fólk sýni því skilning, það er ekki ætlunin að móðga neinn.

Góðir hlutir gerast hægt.
Frábærir hlutir gerast hinsvegar í hvelli.

Myndskeið nr. 2

https://www.youtube.com/watch?v=PKtBolx_Y9c

Þegar við settum fyrsta myndskeiðið í loftið, reiknuðum við alveg með heimskulegum viðbrögðum. Við höfum aðeins fengið örfáar athugasemdir opinberlega en feministar hafa hnýtt í Ingó fyrir að vera klámhundur og mikill sægur fávita hefur sent mér einkaskilaboð á facebook eða með tölvupósti. Halda áfram að lesa

Bara eitt vandamál óleyst

 Jæja, allt tekur þrisvar sinnum lengri tíma en maður reiknar með í upphafi en loksins sé ég fram á að bókin okkar verði útgáfuhæf, ekki seinna en um næstu mánaðamót.

Stóra vandamálið í augnablikinu er að snillingurinn og dugnaðarforkurinn hann Ingólfur er ósammála mér um úgáfuformið. Mér hefur þótt einstaklega gaman að vinna með Ingó. Hann skilur mig nógu vel til að velja svipbrigði og sjónarhorn sem ríma algerlega við andblæinn í textanum og það hefur engan skugga borið á okkar samstarf. Vandamálið er hinsvegar að honum finnst það ’öfgakennd’ hugmynd að  pappírsnotkun sé í eðli sínu ofbeldi gegn trjám, og heldur fast við þá hugmynd að gefa hana út á pappír, þótt rafbók sé augljóslega hagkvæmari og umhverfisvænni kostur. Halda áfram að lesa

Allt komið á flug

Góðir hlutir gerast hægt. Frábærir hlutir gerast hinsvegar í hvelli. Þegar ég kom til Íslands þann 7. janúar var textinn nokkurn veginn klár, teikningarnar af Birtu og líklega 8-10 myndir. Hinsvegar var öll uppsetning eftir. Við kláruðum hana á 4 dögum og nú eigum við bara eftir að ganga frá nokkrum endum, setja inn barnæskumyndir og lesa próförk.

Ef okkur gengur jafn vel með kynningarmyndskeiðin, þá ætti bókin að vera orðin útgáfuhæf um mánaðamótin.