Ekkert bloggnæmt

Ég lifi lítt bloggverðu lífi. Veit ekki alveg hvort það er gott eða vont.

Norna, tæpra 4 mánaða kettlingur, (sem fékk nafn sitt af því systur minni fannst hún lík mer, svona ofvirk og alltaf með klærnar úti) er flutt inn en Bjartur er fluttur í Sumarhús með lífsblómið. Mér skilst að nokkrir lesendur hafi beðið með öndina í hálsinum eftir að lesa um átakþrungið ástarsamband okkar, en satt að segja hefur enginn karlmaður sýnt mér minni áhuga, nema þá helst þessir sem ég hef búið með, svo aumt getur ástandið orðið.

Nixen fluttur til Austurríkis svo í augnablikinu eru einu karlmennirnir í lífi mínu Bjartur, Eiki mágur minn og Lars nágranni þeirra Hullu en hann er um sextugt og gengur með kúrekahatt. Einni maðurinn sem ég á persónuleg samskipti við á netinu, fyrir utan pabba minn og syni, er riddari tíðahringsins sem af einhverjum orsökum sem mér dettur helst í hug að séu af guðfræðilegum toga, hefur alltaf samband við mig á öðrum degi blæðinga. Þar sem minn tíðahringur er álíka stapill og áætlaðar skuldir þjóðarbúsins, er varla neitt í hans rútínu sem skýrir þessa tilviljun.

Samkvæmt öllum lögmálum ætti mér að leiðast ógurlega en ég finn ekki fyrir því, ekki ennþá. Það er langt síðan ég hef verið ein og ég kann ágætlega við að eyða kvöldunum í að smyrja á mig miskapítalískum töfrakremum og hanga á sjáldrinu. Auk þess er ótrúlega mikill félagsskapur af kisurófunni. Mig langar náttúrulega í kærasta en það er nú svosem ekkert nýtt. Heldur ekkert nýtt við að hafa ekki kandídat í það hlutverk í sjónmáli. Maður hefði nú kannski haldið að jafn örvæntingarfull kona og ég væri til í að slá af kröfunum en þvert á móti þá verð ég ákveðnari í því með hverjum manni sem ég kynnist að nenna ekki að eiga mann sem talar þvert um hug sér. Undarlegt helvíti hvað menn eiga erfitt með að koma hreint fram.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ekkert bloggnæmt

 1. ——————————————–

  Sæl Eva

  kanski manstu eftir nafninu , en ertu alveg flutt til útlanda?
  og eða kemur þú í heimsókn
  einhverntíma?

  Kær kveðja
  Hörður

  ——————————————–

  Posted by: Hörður | 28.10.2009 | 16:41:16

  Ég er flutt og er ekkert væntanleg á næstu mánuðum.

  Posted by: Eva | 28.10.2009 | 23:29:36

Lokað er á athugasemdir.