And I still haven’t found …

Eldhúsið fullt af undarlegasta fólki. Kertagerðarmaðurinn búinn að bræða upp kertastubba mánaðarins á gashellu, fer út með vaxið og Vínveitan stendur yfir honum og dregur stórlega í efa að nokkuð umfram bras og subbuskap komi út úr tilraunum hans til framþróunar á sviði kertagerðar.

Ættfræðingurinn rekur nefið fram í eldhús.
-Sæl frænka, segir hann að vanda. Ætli ég eigi að vera stolt af því að vera skyld honum eða hefur hann raunverulegan áhuga á ættfræði? Ég kann vel við hann en veit ekki hvers vegna það fer svona í taugarnar á mér þegar fólk sem ég tel vera mér óviðkomandi grefur upp ættartengsl. Hann finnur það og nýtur þess að ergja mig með því að kalla mig frænku.

Arabiski kokkurinn Abdullah Ahkbar í stuði og hótar hverri einustu konu sem verður á vegi hans flengingu með aðskiljanlegustu áhöldum ef þær ekki láti að stjórn og uppsker tilsvör sem ekki væri sæmandi að birta á opinni vefsíðu.

-Dúlla, er nokkurt áhald í þessu eldhúsi sem þú hefur ekki notað til þess að flengja einhvern með? segi ég.
-Já eitt áhald en ég ætla ekki að segja þér hvaða, svarar hann og slær sleifinni í rassinn á mér um leið og hann gengur fram hjá. Ég skræki og tek viðbragð, snýst á hæli, beint í flasið á honum og tek þá fyrst eftir því að hann heldur á flugbeittum hníf. Hefði getað farið illa.
-Lætin í þér, ertu að reyna að drepa mig? segir hann.
-Þú gast reiknað með viðbrögðum, ég er ekki vön því að vera rassskellt í eldhúsinu svara ég. Bruggarinn stendur glottandi og horfir á okkur, hefur svo upp flauelsrödd sína,
-En hefurðu þá nokkurntíma lent í því að vera stungin í eldhúsinu? Setur lostafullan tón í „stungin“ og horfir kankvíslega á mig.
-Nei, ekki í þessu eldhúsi a.m.k. segi ég, allavega ekki ennþá, bæti ég við ísmeygilega og Bruggarinn kímir.

Skemmtikrafturinn kemur inn.
-Sæl Borgfirska snót, segir hann og ég veit ekki hvort það á að vera fyndið eða hvort hann er bara hallærislegur að eðlisfari.
-Borgfirsk er ég nú reyndar ekki þótt ég eigi ættir að rekja austur, segi ég af því að maður á að vera almennilegur, jafnvel við fólk sem spyr dónalegra spurninga á borð við; „hversu háa greiðslubyrði hefur þú?“ „Hvaðan ertu svo ættuð?“ eða „finnst þér gott að hafa endaþarmsmök?“ Skemmtikrafturinn sest hjá mér með kvöldmatinn sinn.

-Ég hitti Borgfirðing í dag en ég man ekki hvað hann heitir, segir hann og ég held áfram að leggja mig fram um að vera almennileg því þegar allt kemur til alls er maðurinn bara að reyna að hefja samræður: Ég hjálpa honum því að finna nafn þessa manns sem er svo lukkulegur að rekja ættir sínar til Borgarfjarðar þaðan sem mér skilst að hamingjan sjálf sé upprunnin. Eða eins og pabbi orðaði það einhverntíma; hvaðan ætti hún annarsstaðar að koma?

Svo hefst törnin. Matur hrópar arabiski kokkurinn Abdullah Ahkbar og þjónninn geðþekki hendist með diska fram í sal. Þjónustumeyjar hrúga diskum á borðið hjá mér og ein þeirra biður mig fyrirgefningar á því hversu margir séu í mat í kvöld. Átta mig ekki alveg á því hvort ég er svona truntuleg í fasi eða hvort hún er kannski vön að biðja fólk fyrirgefningar á veðurfarinu, skattakerfinu og ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Brosi til öryggis, gæti verið komin í truntugírinn án þess að taka eftir því sjálf.

Frammi í salnum syngja víkingarnir „Í Skólavörðuholtið hátt“ og diskarnir streyma inn í tugatali. Þú ert hörku uppvaskari Eva, segir sá geðþekki og truntan vaknar fyrir alvöru. Ó þakka þér, við skulum vera vinir. Ef ég fer á undan þér yfir í sælustraffið skaltu skrifa um mig eftirmæli: Hún var hörkuuppvaskari og með gólfþvegil var hún flestum konum færari. Eða; Eva var uppvaskari af Guðs náð og engan hef ég séð beita klósettbursta af hvílíkri röggsemi. Hvaða trunta er eiginlega í þér, maðurinn er bara að reyna að vera almennilegur, segir Evan í mér og ég brosi stirðlega og hnussa einhverjar hálfgildings þakkir fyrir hólið. Bæti því við að ég hafi ekki áður kynnst þjóni sem afþakki boð mitt um að hreinsa fyrir hann af diskunum og það er satt, hann ER einkar geðþekkur.

Æði með þveglinn inn í sal eftir uppvaskið, Hlusta á U2, „And I Still Haven’t Found what I’m Looking For“ og þjónninn geðþekki spyr hvort ég hafi alltaf verið svona dugleg. Ætlastu til að ég svari þessu? Við hverju býstu; nei ég hef nú ekki alltaf verið svona dugleg, það var hérna árið 1993 að skyndilegur dugnaður greip mig, ég fékk hugljómun og áttaði mig á því að lífshamingja mín væri undir því komin hversu marga fermetra mér tækist að skúra á næstu 50 árum. Upphátt segi ég hinsvegar:
-já ég hef alltaf verið svona dugleg, og tel mig vera að þagga niður í honum.

En þjónninn geðþekki er aldeilis ekki af baki dottinn, virðist staðráðinn í því að halda uppi samræðum og spyr mig næst hvað ég hafi fengist við í gegnum tíðina. Þetta hefurðu líklega lært af Dale Carnegie eða Brian Tracy, hugsa ég. Og heldur að ég sé svo grunn að falla fyrir þessu. Mér á semsé að líka vel við þig af því að þú sýnir atvinnusögu minni, sem ég ætti samkvæmt kenningunni að telja sérlega athyglisverða, tilhlýðilegan áhuga. En þegar allt kemur til alls er manngarmurinn bara að reyna að vera almennilegur svo ég leik með. Belgi mig út og þyl upp hin ýmsu störf sem ég hef unnið og reyni að hljóma eins og það sé mér mikils virði að fá tækifæri til að segja frá afrekum mínum í atvinnulífinu. Veit að hann fer sæll heim eftir góðverk dagsins, sannfærður um að hæfni hans á sviði mannlegra samskipta sé með fádæmum.

-… og svo hef ég verið kokkur og kennari, spákona, ánamaðkaræktandi, prófarkalesari, ræstitæknir, fréttamaður og fangavörður, segi ég. Velti því fyrir mér hvort ég eigi að bæta við strippari og kókaínsali, bara til að tékka á því hvort hann sé raunverulega að hlusta á mig en sleppi því, hann væri vís með að gangast svo upp í hlutverki samskiptasnillingsins að leggja almennilega við eyru. En hann kemur mér á óvart. Í stað þess að koma strax með næstu klassisku spurningu sem kennd er með þessari tækni; og hvernig vildi það svo til að þú ákvaðst að gerast uppvaskari? lítur hann á mig með svip sem lýsir innilegri hluttekningu;
-Ég vona að þú eigir eftir að finna starf sem þér líkar.

Úff, hljómaði það þá svona? Eins og ég væri hreint ekki ánægð með það hversu gífurlega áhugaverð atvinnusaga mín er, heldur eins og ég hafi aldrei haft ánægju af neinu? Það er slæmt því þannig er það ekki. Mér finnst næstum allt sem ég hef gert skemmtilegt og þótt ræstingar séu ekki beinlínis skemmtilegar hef ég aldrei velt því sérstaklega fyrir mér, bara gert það og verið mun sárari út af skítalaununum sem eru greidd fyrir það en tilgagnsleysi starfsins. Mér fannst gaman að kenna, kokka og taka útvarpsviðtöl á meðan það varði, fékk nóg af því en leiddist ekki á meðan. Það er það að mig bara langar svo miklu, miklu, miklu meira að skrifa.

En þjónninn geðþekki er allavega í náðinni hjá mér. Má vel vera að hann hafi notað mig til að æfa klisjukennda samskiptatækni en það þarf að æfa Carnegie eins og allt annað. Svo er vingjarnlegt fólk ekki endilega varhugavert og honum tókst að slá mig út af laginu, sennilega alveg án þess að ætla sér það. Prik fyrir það.

Best er að deila með því að afrita slóðina