Fötin skapa manninn

-Það er bara svo slæmt að byrja í ræstingum af því að það vill enginn taka þær að sér og þá er svo erfitt að vinna sig upp, sagði Blíða og botnaði hreint ekkert í því hvers vegna ég vildi ekki taka þessu gullna tilboði um að gerast gengilbeina.

-Maður vinnur sig ekki upp á veitingahúsi hvort sem er, sagði ég, þar eru öll störf jafn hallærisleg, nema auðvitað ef maður fær yfirmannsstöðu, það er einhver smá launahækkun fyrir það.
-Já en þjónn ætti t.d. meiri möguleika á að vera settur lobbýið.
-Það finnst mér ótrúlegt. Ég tala þó allavega góða dönsku og hrafl í þýsku auk þess að vera vön skrifstofuvinnu. Annars er það nú ekki draumastarf að vera lobbýdama.
-Skárra en uppvask og þú ættir meiri möguleika á því ef þú værir þjónn. Það er kannski ekkert gaman að þjóna en þjónar njóta þó aðeins meiri virðingar en uppvaskarar.
-Nú? Og hvernig getur það verið virðulegra að bera brennivín í fyllibyttur en að þvo glösin sem þær drekka úr? Maður losnar þó allavega við það að hafa samskipti við misdónalegt fólk ef maður er í eldhúsinu, sagði ég.

-Fínt að einhver skuli hugsa svona en ég er hrædd um að þú sért ein um það, sagði Blíða. Þú getur allavega verið viss um að þjónunum sjálfum finnst þeir vera í fínna starfi en þú og þ.a.l. fínni persónur, og gestunum finnst það líka.
-Grey þeir að vera svona vitlausir, sagði ég. En í alvöru talað, hvernig kemst fólk eiginlega að svona foráttuheimskulegum niðurstöðum?

Það var augljóst af svip hennar að henni fannst mín niðurstaða mun heimskulegri en sú skoðun fjöldans að það sé meiri heppni og mannvirðing í því fólgin að brosa falskt framan í drukkna gesti en að fá að halda eðlilegum svipbrigðun yfir uppvaskinu.
-Þeir eru svona í snyrtilegri fötum og svoleiðis, útskýrði hún rólega.

Ok. Svo það er svuntan og hanskarnir sem draga mig niður í svo óvirðulega stöðu að ég á hreinlega enga möguleika á því að „vinna mig upp“. Ég er að hugsa um að mæta í Karen Millen draktinni minni í uppvaskið og athuga hvort mér verði ekki boðin launahækkun út á það hversu fínt starfið mitt sé orðið. Því ekki verður það metið til launa þótt maður afkasti á við þrjá Pólverja, svo mikið er víst.

Best er að deila með því að afrita slóðina