Maðurinn með svörin

Nú hef eg drukkid morgunkaffi hjá manninum á veröndinni þrjá daga í röð. Varla stoppað nema 15 minutur í hvert sinn, enda þarf fólk að fá blaðið sitt svo mér er ekki til seturinnar boðið.  En á þessum stutta tíma hefur honum teksit að leiða mig í allan sannleika um það hver sé tilgangur lífsins og hvernig best sé fyrir mig að hugsa og hegða mér svo ég verði hamingjusöm. Þetta er ákaflega hamingjusamur maður og mjög vitur.

Það besta var samt í morgun.

-Þú hefur bara svör við öllu, sagði ég.
-Ja maður hefur svona lesið hitt og þetta, svaraði hann
-Þú sem ert svo fróður um sálarfræði og heimspeki, hefur þú aldrei haft haft það að atvinnu að hjálpa fólki að koma reiðu á lif sitt?

-Nei ekki enn en eg er nú að fara í sálfræði í Háskólanum, sagði hann
-Það verður áreiðanlega gaman.
-Já, en veistu það ða þú ættir eiginlega að drífa þig á nám líka.
-Finnst þér það?
-Já, ég meina þú ert mjög klár kona
-Jæja, hvernig veist þú það?
-Ég heyri það bara á því sem þú segir.

Þetta fannst mér merkilegt þar sem ég hef nánast ekkert sagt í þessum samtölum okkar en ekki gat ég farið að mótmæla því að ég væri klár svo ég þakkaði bara fyrir hólið.

-Ég held í alvöru að þú myndir pluma þig vel í námi.
-Já heldurðu það virkilega?
-Ég meina, falleg og klár stelpa á ekki að vera í einhverju svona skitadjobbi.
-Nei það er satt, sagði ég, skítadjobb eru bara fyrir þá ljótu og heimsku.
-Ég meinti það nú ekki svona. Ertu með stúdentinn eða einhverjar einingar úr framhaldsskóla?
-Jájá, ég hef eitthvad lært, sagði ég.
-Þá er þetta ekkert mál, þú bara ferð í háskólann og lærir eitthvað, eitthvað ljóðadæmi eða eitthvað og ég hjálpa þér bara ef þú lendir i vandræðum.

-Ég hef það í huga. Takk fyrir kaffið, nú þarf ég að drífa mig, sagði ég.
-Jæja, sjáumst á morgun.
-Nei, ég er að flytja svo ég skipti um hverfi á morgun.
-Það var leitt. Fæ ég símanúmer?
-Nei, ég ætla ekki að hitta neinn strax.
-Ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir.
-Þú sagðist ætla að giska.
-Kristín, sagði hann en það var greinilega bara það fyrsta sem honum datt í hug.
-Ég heiti Birta, laug ég. Og svo bara fór ég.

Best er að deila með því að afrita slóðina