Maðurinn sem drekkur morgunkaffið á veröndinni

Maðurinn sem drekkur morgunkaffið á veröndinni var ekki kominn út þegar ég fór hjá húsinu hans í morgun. Ég hugsaði ekki sérstaklega út í það, strauk bara gula kettinum í nr. 15 og hélt svo áfram. Ég var ekki komin nema rétt yfir götuna þegar hann kallaði á mig:

-Góðan daginn!
Ég sneri mér við. Hann var ber að ofan og úfinn eins og hann væri nývaknaður. Ég endurómaði kveðjuna og ætlaði að halda áfram en stoppaði þegar hann kom arkandi yfir götuna eins og hann vildi ná tali af mér.
-Þú ert snemma á ferðinni í dag, sagði hann og hljómaði eins og hann vildi fá skýringu.
-Já, sagði ég bara brosandi.
-Ég var næstum búinn að missa af þér, sagði hann.
-Missa af mér?
-Já. Mér finnst svo gaman að sjá þig. Það er eitthvað svo sætt við það hvað þú gengur hratt og hvernig bandið á kjólnum dettur fram af öxlinni á þér og svo sé ég að guli kötturinn eltir þig en honum er yfirleitt illa við fólk.
-Ekki hef ég gert neitt til að hæna hann að mér, sagði ég.
-Máttu vera að því að þiggja kaffibolla hjá mér fyrst þú ert svona snemma í því?

-Ókey, sagði ég því maður sem stekkur út ber að ofan til að ná tali af manni hlýtur að eiga það skilið að maður láti svo lítið að drekka með honum kaffibolla á veröndinni.
-Þú veist hvað ég heiti, sagði hann.
-Já, ég heit…
-Ekki segja mér það, mig langar að giska, sagði hann en giskaði samt ekki á neitt nafn. Svo hvarf hann inn í húsið og ég stóð á tröppunum og vissi ekki almennilega hvernig ég ætti að vera. Ég settist annan tréstólinn á veröndinni og hann kom út með rósóttar könnur og Neskaffibauk.
-Vona að þér sé sama, ég á ekkert annað kaffi, drekk alltaf instant.
-Ég líka, sagði ég, mér finnst það bara best.
-Mér finnst sniðugt hjá þér að bera út, sagði hann þegar hann kom út með ketilinn. Mér hefur oft dottið í hug að gera það því ég vakna alltaf um 6 leytið hvort sem er og maður ætti náttúrulega að hreyfa sig meira.
-Það var nú einnitt þessvegna sem ég byrjaði á þessu, sagði ég. Ég var alltaf að lofa sjálfri mér því að drífa mig í sund eða út að ganga en stóð aldrei við það nema tvo eða þrjá daga í röð. Svo er ég morgunhani þannig að þetta hentar mér vel.
-Ég er líka morgunmaður. Get bara ekki sofið á morgnana og er alveg ónýtur á kvöldin, sagði hann.
-Ég líka.

-Gift?
-Nei, ég var í sambúð en hann sparkaði mér fyrir nokkrum vikum. Það er reyndar líka þessvegna sem ég ákvað að bera út, mótvægisaðgerðir gegn sjálfsvorkunnarviðbrögðum.
-Það er alltaf ömurlegt að skilja, sagði hann. Eigið þið börn?
-Ekki saman. Þetta var heldur ekki mjög löng sambúð svo þetta er svosem engin tragedía.
-Missir er alltaf tragedía, mótmælti hann. Og fyrst þú fílar ekki sjálfvorkunnarleiðina ertu líklega búin að taka þá afstöðu að þú eigir að læra eitthvað af þessu?
-Ekki veit ég hvað það ætti að vera? Kannski bara það að treysta aldrei neinum.
-Nei, það er nú frekar vondur lærdómur.
-Jamm, enda efast ég um að meður eigi að læra neitt. Það er ekki eins og sé eitthvert plan í gangi.
-Það er víst plan í gangi, kannski enginn Guð á bak við það er það er samt einhver merking í öllu sem hendir mann.

Við sátum þegjandi smástund svo leit hann á mig íbygginn á svip; ég veit reyndar hvað þú átt að læra.
-Nú?
-Þú átt að læra að fyrirgefa.
-Ég hef ekkert að fyrirgefa. Hann er góður strákur. Getur bara ekki unnt sjálfum sér þess að vera elskaður. Maður þarf ekki að fyrirgefa fólki fyrir að vera tilfinningafatlað.
-Það tók mig 2 ár að fyrirgefa minni.
-Var hún tilfinningafötluð?
-Nei. Hún bara dó.
Ég starði undrandi á hann.

-Ég veit hvað þú ert að hugsa. Hvað þurftirðu þá að fyrirgefa henni?
-Eitthvað í þá veruna, viðurkenndi ég.
-Það er málið, sagði hann, maður verður alltaf reiður og sár þegar maður verður einmana. Alveg sama hvort sá sem fór frá manni réði eitthvað við það eða ekki. Ég viðurkenndi það hinsvegar ekki fyrir nokkrum manni að ég væri reiður og varð þessvegna ennþá reiðari.
-Þú ert óvenju hreinskilinn, sagði ég af því mér datt ekkert annað í hug.
-Þú ert óvenju falleg, sagði hann.
-Takk, sagði ég, en nú þarf ég að drífa mig.
-Kemurðu líka snemma á morgun?
-Ég veit það ekki.
-Ef þú kemur nógu snemma til að drekka kaffið með mér færðu súkkulaði með því, sagði hann.
-Ókey, þá kem ég snemma.

Ég stóð upp og dró blaðavagninn af stað.
-Ég veit dálítið um þig! hrópaði hann þegar ég var komin út á stéttina.
-Hvað þá?
-Þú ert að austan. Ég talaði við þig á balli á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum.

Gott og vel. Ég fór á nokkur böll fyrir austan. En ekki kem ég honum fyrir mig. Geri ráð fyrir að vakna snemma á morgun. Og ég sem var eiginlega hætt að borða súkkulaði.

Best er að deila með því að afrita slóðina