Ætli hann sé frátekinn?

Ég sé að vísu ekki hring en það er náttúrulega langt frá því að vera neitt garantí á okkar dögum. Ég gæti auðvitað spurt Spengilfríði.

-Jú elskan mín góða hann er alveg roslega frátekinn, segði hún líklega. Og þá myndi ég ypta öxlum og segja kæruleysislega; það var náttúrulega viðbúið – enda svosem ekkert meira við því að segja. Og þá myndi hún segja mér að Bruggarinn væri að líkindum á lausu, hefði allavega verið það í fyrradag og ég myndi segja að þrátt fyrir fádæma fegurð hans og líkurnar á því að hann sé yfrið vænlegur til mikilfenglegra afreka á sviði bólfara, væri hann, sökum óhóflegs drykkjuskapar, ekki á listanum yfir væntanleg kynlífsviðföng, unnusta eða eiginmenn.

Það gæti hins vegar orðið svolítið flóknara ef Kynþokkaknippið væri svo eftir allt saman á lausu. Þá segði Spengilfríður líklega;
-Nei, hann er ekki með neinni, líst þér vel á hann? og svo myndi hún horfa á mig með svip sem væri á milli þess að vera rannsakandi og hissa. Og hvern fjandann ætti ég þá að segja?

-Mér líst eiginlega ekki á hann, þannig séð, þekki hann ekki baun en var svona að velta því fyrir mér hvort væri viðeigandi að ég léti honum bregða fyrir í einhverri af mínum villtustu fantasíum.

Eða:

-Jájá, hann virðist geðþekkasti náungi og ég að velta fyrir mér möguleikanum á því að giftast honum og eignast með honum börn. Geturðu gefið mér upplýsingar um drykkjuvenjur hans, fjárhagsstöðu, fortíðarpakka og afstöðu til stjórnmála og barnauppeldis?

Eða kannski:

-Ég var svona að íhuga möguleikann á því að fá hann sem bólfélaga. Heldurðu að það komi honum til ef ég mæti í hjúkkubúningi og býðst til að setja hann í spennitreyju?

Nei, einhvernveginn líst mér ekkert á að setja Spengilfríði inn í pælingar mínar um Kynþokkaknippið. Þess í stað sný ég mér að Útlendingnum til að kreista fram nauðsynlegar upplýsingar.
-I like him, segi ég og hún grípur andann á lofti og starir á mig stóreyg. Ljómar samt sem áður eins og hún hafi eignast trúnaðarvinkonu.
-Yes but he´s got að wife, með sambland af hneykslun, ótta og aðdáun í rómnum.
-Of course he´s got að wife, but I like him, he´s a really nice person segi ég og hún jánkar því af ákafa; -yes, he´s very friendly, I like him too, I like everyone here, segir hún og dauðskammast sín fyrir það sem hún heldur að hafi verið misskilningur.

Og þá höfum við það, hann er sumsé frátekinn. Það kemur mér hreint ekki á óvart.

Best er að deila með því að afrita slóðina