Þegar ég var lítil stelpa var draumahlutverkið mitt litla húsamúsin í Hálsaskógi. Enn í dag finnst mér að það hlutverk henti mér ágætlega þótt ég eigi að heita fullorðin. Þ.e.a.s. að því tilskildu að refurinn sé rauðhærður. Við nánari umhugsun er ég heldur ekki alveg frá því að Rauðhettugervið bjóði upp á áhugaverða möguleika. Reyndar myndi ég aldrei bera sætar kökur og rauðvín í fársjúkt gamalmenni svo líklega myndi ég skipta kökunni út fyrir langt snittubrauð. Drykkurinn er stærra vandamál. Kaffi á hitabrúsa eða trópíferna með sogröri yrði hálfgert stílbrot. Sjálfsagt má leysa það en mig vantar samt ennþá úlf til að gangast upp íhlutverkinu.
Eiginlega man ég ekki eftir neinum sem mér finnst passa virkilega vel í hlutverk úlfsins en þótt ég sjái hann ekki fyrir mér rauðhærðan, getum við auðvitað prófað Manninn sem átti ekki tíkall. Það yrði einhvernveginn svona:
Úlfurinn (glaðhlakkalega): Góðan daginn Rauðhetta litla, hvaða ferðalag er á þér?
Rauðhetta: Ég á að heimsækja ömmu og datt í hug að fara út fyrir veginn og athuga hvort ég sæi eitthvert áhugavert villidýr.
Úlfurinn: Og hvað ertu með í körfunni? Rauðhetta: Trópí og snittubrauð.
Úlfurinn (furðu lostinn): Ekkert vín?
Rauðhetta (skömmustuleg): Nei, ég fíla það ekkert sérstaklega.
Úlfurinn: Ferenoff, eigum við að prófa að éta þessa sveppi sem vaxa hér og gá hvað gerist?
Rauðhetta: Æ, ég er hrædd um að ég verði bara veik af þeim.
Úlfurinn: Oj, þú ert ekkert skemmtileg, ég held ég kíki bara á hana ömmu þína í staðinn. (Æðir af stað)
Rauðhetta: bíddu eftir mér, ég er villt.(Úlfurinn skeytir því engu og heldur áfram.)
Rauðhetta (æpir í örvæntingu): Ég er ekki í neinum nærbuxum!
Úlfurinn (skransar á punktinum og snýr sér við, lyftir brúnum og lítur glaðbeittur á Rauðhettu): Hei beib, teik a vok on ðe væld sæd.
Eða tollheimtumanninn prúða:
Úlfurinn (hikandi): Afsakaðu fröken, ég held ég sé svolítið villtur í þessum stóra, hræðilega skógi. Vildirðu nokkuð vera svo elskuleg að segja mér hvaða leið ég á að fara til að komast heim til hennar ömmu þinnar?
Rauðhetta: Ég var á leiðinni þangað sjálf en er orðin villt líka, förum bara saman að leita að húsinu.
Úlfurinn (óttasleginn): Hér í þessum dimma og hræðilega skógi? Ein og yfirgefin með engan okkur til verndar?
Rauðhetta: Vertu nú ekki svona huglaus, ég skal passa þig.(Hún slengist af stað og snittubrauðið langa rekst utan í skottið á úlfinum. Úlfurinn snarsnýst í hringi af hræðslu og dettur á Rauðhettu með þeim afleiðingum að hún fellur kylliflöt, snittubrauðið rekst upp undir pils hennar og sviptir því upp um hana.)
Rauðhetta (spennt): Úúúú, þú kemur á óvart. Ætlarðu að flengja mig?
Úlfurinn (felur andlitið í höndum sér og grætur): Fyrirgefðu að ég skyldi detta á þig. Ég sá ekki neitt, ég sver það. Ég er sannfærður um að þú sért klædd góðri lopabrók undir pilsinu, ég held það í alvöru, alveg satt.
Rauðhetta stendur vonsvikin upp: Voðaleg gufa geturðu verið. Það er greinilegt að ég þarf að hafa stjórnina hér.
(Tekur hundaól og taum upp úr körfunni, setur á úlfinn og teymir hann
að húsi ömmunnar.)
Sennilega yrði það skammvinn skemmtun en áhugaverð, að prófa viðfang giftingaróra minna í þetta hlutverk:
Úlfurinn (kurteislega en án innileika): Sæl.
Rauðhetta: Hæ, viltu snittubrauð?
Úlfurinn: Ég held ég afþakki það í þetta sinn. Ég á nefnilega erindi við hana ömmu þína og er heldur að flýta mér.
Rauðhetta: Nú, ætlarðu að éta hana?
Úlfurinn: Nei, hjálpi mér. Ég ætlaði nú bara að leita til hennar vegna nýjasta stórvirkis mín á sviði íslenskra fræða. Ég er nefnilega að rannsaka sögur í munnlegri geymd og hélt að hún gæti kannski leiðrétt þessa vitleysu um að úlfurinn sé alltaf vondi karlinn.
Rauðhetta: Ég er rammvillt sjálf, má ég ekki bara verða þér samferða?
Úlfurinn (treglega): Ég er of vel uppalinn til þess að neita þér en ef þú ert að eitthvað hugsa um að draga mig bak við tré og sýna mér nærbuxurnar þínar, þá kysi ég nú frekar að þú leitaðir eitthvert annað.
Rauðhetta (sakleysislega): Hver segir að ég gangi í nærbuxum?
Úlfurinn (fölnar upp og orgar í örvæntingu): Getur einhver hjálpað mér úr þessum fjandans skrípabúningi. Ég vil ekki vera hérna lengur!
Jájájá og svei mér þá, ef Rauðhetta færi mér ekki bara ágætlega. Þegar allt kemur til alls held ég að hún hafi alls ekki verið neinn engill með húfu.
[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]