Ljóðakvöld dauðans

Klettaskáldið er í bænum. Hann (hér væri málfræðilega rétt að skrifa það, þar sem fornafnið vísar til hvorugkynsorðsins skáld, en mér finnst hálf dónalegt að tala um manneskjur í hvorugkyni) vildi fá mig með sér á ljóðakvöld á Bláa barnum, sagðist eiga að lesa þar sjálfur kl. 9:30.
Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að reka Pysjuna á skólaball, ákvað ég að taka hann (já ég sagði hann, hann yrði ekki sáttur við að vera kvenkenndur og ef Sturla er karlmannsnafn er Pysja það líka) með mér. Við mættum ekki fyrr en réttum 5 mínútum áður en Klettaskáldið átti að lesa, því ég gerði ekki ráð fyrir að staðurinn væri reyklaus. Það reyndist hárétt ályktun hjá mér og ég dauðsá eftir að hafa farið í Karen Millen jakkanum mínum sem ekki þolir þvott.

Skáldið var ekki byrjað að lesa, reyndar ekki einu sinni mætt og ef ekki hefði verið kunnuglegt andlit Pardusar af huga.is (ég býst ekki við að allir séu mér sammála en ég beygi vefföng, af því að maður á að beygja þau) og stúlkur með skrifbækur í fallegum kápum, hefði ég haldið að þetta með ljóðakvöldið væri misskilningur því það var ekkert að gerast þarna. Skáldið sendi mér sms, sagðist vera rétt ókominn, svo við Pysja biðum róleg.

Við komumst ekki hjá því að heyra samtal tveggja háværra skáldmæringa á næsta borði, enda var þeim greinilega mjög í mun að sem flestir tækju eftir því að þeir væru
a) á staðnum,
b) skáld,
c) skáld sem hafa gefið út ljóðabækur,
d) skáld með gífurlega mikið vit á skáldskap.
Ræddu þeir af djúpsæi sínu kosti þess og galla að nota endarím en voru sammála um að stuðlasetning væri hin mesta þarfleysa, dragbítur á frjálsa hugsun og frumleika og í raun ekki annað en úreltur varnarleikur gamalmenna sem hefðu hvort sem er ekkert merkilegt að segja. Enda vita allir nútildags að það er í raun miklu erfiðara að yrkja óbundin ljóð en að styðjast við hefðbundna bragarhætti. Þeir höfðu nú svosem báðir lent í því í ungæðishætti sínum að missa sig í óhóflegt rím og taktfestu en höfðu með reynslu og þroska komist að þeirri niðurstöðu að innihaldið skipti megin máli.

Klukkan 10 var ennþá ekkert farið að gerast, Klettaskáldið ókomið og reykurinn um það bil að ýta mér fram á ystu brún geðillskukasts. Ég sendi Klettaskáldinu sms boð um að ég væri á förum en um leið og ég stóð upp, reis ofurlítill Ítali úr sæti sínu og byrjaði að tala. Mér fannst ókurteisi að æða út rétt á meðan og ákvað því að hinkra aðeins. Ítalinn kynnti sig á nýbúaíslensku, (hann vinna Kárahnjúkar, Impreglio og mikið ánæggð ad kynna tessum ungu skáldunum hérna í kvoldum) gleymdi alveg að taka fram hverjir stæðu fyrir þessari uppákomu en var svo elskulegur að lesa fyrir okkur frumort ljóð -á ítölsku.

Ég hélt ég slyppi út áður en fyrsti orðsnillingurinn hæfi upp raust sína en því var ekki að heilsa því ofurlitli Ítalinn var rétt búinn að kynna viðkomandi og tilkynna; og nú má þið klappa honum, þegar lesturinn hófst.

Skáldið var óttalegur rumur og ekki hefði ég fyrir mitt litla líf þorað að klappa honum að eigin frumkvæði. Hann var aukinheldur hinn mesti hávaðabelgur og var greinilega mjög í mun að allir á staðnum væru með það á hreinu að hann
hefði setið í fangelsi. Hann tók það fram á undan hverju ljóði í hvaða fangelsi hann hefði setið þegar ljóðið var ort, eða hvaða fangavist hefði blásið honum í brjóst andagift til hinna bókmenntalegu stórvirkja.

Þú ert mannanna mestur
yfir heiðarlegan almúga hafinn
drottnari undirheima
hrikalega kvalinn

Þrumaði skáldjöfurinn og eitt af mínum satanísku skuggasjálfum hvíslaði því í eyra mér að kannski væri það fyrir neðan virðingu okkar að sitja undir öðrum eins hroða. Ég sagði sjálfinu að þegja, snobb og yfirlæti af þessu tagi yrði ekki liðið í mínum líkama.

En þú neyðist til að umgangast oss
snauðan almúga mann
ég vil þig ekki dæma hart
Guð það einn getur hann

hélt snillingurinn áfram og ef Klettaskáldið hefði ekki birst einmitt á þessu augnabliki, hefði skuggasjálfið sennilega haft vinninginn.

Næstur á svið var skelfing leiðinlegur maður á aldur við mig. Hann glamraði einhverja lagleysu á gítar á milli ljóðlína auk þess að beita rödd sinni tilviljanakennt, af mismiklum krafti svo áheyrendur hrukku við í hvert sinn sem augnlok þeirra fóru að síga. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort gítarinn og orgin áttu að gefa þessu einhvern listrænan effekt en allavega dugði þetta til að ýta við þeim sem voru að gera tilraunir til að hvíslast á undir lestinum. Ég held að yrkisefnið hafi verið iðjuþjálfi og öryrki sem vildi frekar hella upp á kaffi en hlíta ráðum iðjuþjálfans. Annars er ég ekki viss því athyglisspan mitt náði aðeins yfir fyrstu 15 línurnar.

Þegar hér var komið var klukkan að nálgast hálfellefu og ég var byrjuð að anda með sogum. Þótt ég hefði gjarnan viljað vera lengur og hlusta á Klettaskáldið, sá ég fram á að stela senunni ef ég fengi almennilegt asmakast. Ég notaði því tækifærið og smokraði mér út milli skálda, hóstandi og stynjandi. Pysjan sofnaði á leiðinni heim. Ég vona að kvöldið hafi þó skilað þeim árangri að framvegis telji hann vænlegra til skemmtunar að umgangast jafnaldra sína en að hengja sig á mig.

Best er að deila með því að afrita slóðina