Þegar Spúnkhildur flutti út gerði ég alvöru úr þeirri ákvörðun að hætta að einangra mig. Síðan hef ég fengið það staðfest að næstum allir sem ég þekki reykja. Það angraði mig ekki áður fyrr en síðustu árin hef ég þolað reykingar verr og verr og nú er svo komið að ég verð einfaldlega fárveik af reyk frá 4-5 sígarettum.
Tóbaksvarnarnefnd heldur því fram að það séu ekki nema 30% fullorðinna Íslendinga sem reykja en því á ég bágt með að trúa. Varla eru allir sem tilheyra þessum stóra meirihluta í einangrun? Þeir eru allavega lítið að þvælast fyrir mér. Ég sé fram á að þurfa annaðhvort að endurnýja kunningjahópinn eða hætta algerlega að umgangast fólk. Og þar sem síðari kosturinn er lítt fýsilegur, hlýtur maður að velta því fyrir sér hvar reyklaust fólk haldi sig. Varla á skemmtistöðum. Ekki í leikfélögum, kannski í stjórnmálaflokkum en ég þrífst ekki sérlega vel í umhverfi þar sem beinlínis er til þess ætlast að maður sé sammála meirihluta minnihlutans.
Menntafólk á víst að vera heilbrigðara en aðrir en þeir sem ég hef spjallað við í Árnagarði eru – undarleg tilviljun – allir reykingamenn. Það eru víst örlög mín að vera jaðarmanneskja. Ég virðist helst hrífast af þeim sem mér er lífsins ómögulegt að eiga náin samskipti við og þeir örfáu sem mig langar að þekkja, sem flokkast nokkurnveginn normal, virðast alltaf hálftortryggnir gagnvart mér.
Sennilega er þetta fólk sem ekki reykir, allt saman á kafi í útivistarfélögum og líkamsrækt. Það hlýtur að vera ýkt kúlt að tilheyra heilbrigða liðinu. Mörkögglafrí megabeib hoppandi saman við einhverja gelgjutónlist, hvíandi, vííííí!!! og jeyyyyy!!! rétt eins og ekkert í veröldinni geti verið skemmtilegra en of hraður hjartsláttur og svitataumar lekandi milli brjóstanna niður í klof. Ofstopagaman að upplifa sameiginlegt oföndunarkast og fara svo í hópsturtu á eftir. Kannski það gæti svosem boðið upp á skemmtilega möguleika á áður ókönnuðum pervasjónum? T.d. gæti maður komið sér upp kikki út úr því að láta annað kvenfólk horfa á þegar maður rakar á sér handakrikana. Það mætti kalla það krikarakstursblæti og svo gæti maður auglýst á einkamal.is og stofnað reyklausan krikarakstursblætisklúbb.
Það lítur í alvöru út fyrir að fólk skiptist í tvo hópa. Annaðhvort tilheyrir maður heilbrigða liðinu og er stöðugt að hoppa og á kafi í einhverju fjandans markmiða og staðfestingadæmi eða maður heldur sig við eiturstönglasugurnar. Ég sé ekki alveg fyrir mér að ég eigi efir að fíla það í ræmur að bjóða íþróttaálfinum og Þorgrími Þráinssyni heim. Ég fæ gæsahúð á bakið við tilhugsunina um samkvæmisleiki sem byggjast á hollri hreyfingu og stóra bakka með grænkáli, gulrótastrimlum og vatnsglösum. Hvað þá að eiga að halda uppi samræðum við ofvirka ævintýrapersónu sem endasendist um allt á meðan á samræðum stendur og getur ekki komið út úr sér einni málsgrein án þess að nota niðurdrepandi orð eins og „hollt“, „hress“ og „hraustur“. Eða Þorgrím, úff ég segi nú bara ekki meira, Gunnar í Krossinum er beinlínis víðsýnn og umburðarlyndur í samanburði við hann. Held í rauninni að ég gæti alveg eins boðið Krossinum og Vottum Jehóva, öllum söfnuðinum í partý eins og þessum tveimur. Vottar Jehóva éta þó allavega kartöfluflögur og Krossararnir falla í trans í tíma og ótíma, það gæti orðið áhugavert skemmtiatriði útaf fyrir sig.
Eitt er þó gott við að velja sér eiturstönglasugur að vinum. Þegar maður kemur heim er maður svo illa lyktandi að maður verður að byrja á því að fara í bað og setja allan fatnað í loftþéttan poka. Þessar einföldu athafnir ræður maður varla við sökum andþrengsla og í slíku ástandi er næsta lítil hætta á því að maður fari að hugsa um kynlíf.