Söngur Freðýsunnar 3. þáttur

Allt hefur sinn tíma minn kæri. Þú rífur hvorki né rýfur freðýsu úr roðinu og þíðir hvorki né þýðir þér við hjarta, án þessað eiga á hættu kalskemmdir. En ef þú bara tekur hana úr frystinum, þá þiðnar hún sjálf. Og það eina sem þú þarft að gera er að bíða. Þér þarf samt ekki að leiðast því meðan þú bíður skal ég segja þér sögur, eina á hverri nóttu, þessa nótt og næstu 1000 ef þú kærir þig um. Hér er sú fyrsta:

Einu sinni var maður sem elskaði mig. Ég held m.a.s. í alvöru. Hann skildi mig betur en flestir og án skilnings er engin ást, ekkert nema kannski kærleikurinn sem fyrirgefur án þess að skilja. Ég veit ekki alveg hversu mikið álit ég hef á þessháttar kærleika.

Mér þótti afskaplega vænt um þann mann, kannski mest vegna þess að enginn hafði elskað mig áður. Ég elskaði hann samt ekki alveg, allavega ekki eins mikið og hann þurfti og sennilega var ég ekki sérlega góð við hann. Ég hefði átt að elska hann en ég var heimsk. Svo hann fann sér aðra konu sem sagði honum það sem hann vildi heyra og klappaði saman lófunum af hrifingu í hvert sinn sem hann fór út með ruslið af sjálfsdáðum. Hann eignaðist með henni börn og það voru góð börn og hún var góð kona. Og sjálfsagt hefur hann líka verið afbragðs faðir og eiginmaður og eflaust elskar hann konuna sína meira en mig.

Ég varð ekki fyrir vonbrigðum þegar hann náði sér í aðra konu en ég var dálítið hissa á því hvað honum reyndist létt að elska hverja konuna á fætur annarri, kannski bara vegna þess að sjálf elska ég engan án fyrirhafnar og eiginlega þykir mér ekkert sérstaklega vænt um fólk. Ekki nema í skilningi kærleikans, sem fyrirgefur án þess að kæra sig endilega um nánari samskipti.

Seinna sagði þessi maður að hann saknaði mín pínulítið, stundum. Mér þótti vænt um það og ef aðstæður hefðu verið öðruvísi hefði ég sagt að ég saknaði hans líka. En það gerði ég ekki því það hefði kannski hljómað eins og ég vildi verða hjákonan hans og það vildi ég ekki. Ekki vegna þess að mér þætti það rangt eða ljótt, heldur af því að mér fannst það ekki æskilegt hlutskipti að vera hjákona. Reyndar finnst mér annað sætið ekki verulega spennandi kostur í neinum aðstæðum, kannski af því að mér virðist yfirleitt standa það til boða. Ég ræddi það ekkert hvort ég saknaði hans eða ekki, spurði bara hvort hann saknaði mín nógu mikið til að setja mig í fyrsta sætið.

Þá fór maðurinn sem elskaði mig heim og gat konu sinni eitt barn til viðbótar.

Best er að deila með því að afrita slóðina