Rifnaði upp í kviku

Ég braut nögl í dag og það er líklega merkasti atburður dagsins. Ég hef aldrei áður náð því að hafa fallegar neglur svona lengi. Í raun er samt langt síðan ég tók eftir hárfínni sprungu í annarri þumalfingursnöglinni þannig að ég átti svosem von á þessu. Sprungan lengdist smámsaman og gliðnaði en ég vildi ekki klippa nöglina því rifan var nálægt kvikunni og ég vonaði að nöglin yxi fram um hálfan millimetra áður en hún brotnaði alveg. Svo rifnaði hún í kvöld, laust eftir fréttir og það var óþægilegt en mér blæddi ekki.

Ég setti nöglina í ruslið og þar sem pokinn var fullur fór ég með hann út í tunnu. Tók þá eftir stórum sinugulum bletti á lóðinni, þar sem tjaldið hennar Spúnkhildar hefur verið síðan í júli. Í fyrstu stóð það, svo seig það niður og síðustu vikurnar hefur það legið flatt á lóðinni og svefnpokinn hennar og rúmteppið hafa hrakist fyrir vindum. Nú er tjaldið horfið og aðeins vannærð grasrótin er til marks um veru Spúnkhildar í húsinu. Hún fjarlægði það, án þess að gera vart við sig. Án þess að drekka með mér einn kaffibolla, án þess að koma inn til að sækja kápuna sína sem ennþá hangir í skápnum og kannski kasta á mig kveðju í leiðinni. Mér finnst það furðulegt, stórfurðulegt en þetta er svosem ekki annað en tilbrigði við stef sem ég kann orðið utanað. Fólk einfaldlega hverfur úr lífi mínu, hægt og hljótt, án skýringa og ég veit ekki hvers vegna. Hef ekki fokkings grænan grun um hvers vegna. Mér finnst þetta einkennileg framkoma en sjálfri mér til undrunar sakna ég hennar ekki. Ég er satt að segja farin að hafa áhyggjur af því hvað fólk sem mér þykir í fúlustu alvöru ósegjanlega vænt um, skiptir mig í rauninni litlu máli í daglegu lífi. Það er kannski dálítið írónískt í aðra röndina en naglamissirinn angrar mig meira en hvarf Spúnkhildar.

En það stendur til bóta, það stendur allt til bóta. Allt hefur jú sinn verðmiða og vilji maður hafa fallegar neglur þarf maður að vera tilbúinn til að taka ofurlitlum sársauka þegar þær brotna. Það er ekki hátt verð. Ekki óbærileg kvöl heldur aðeins ofurlítill sviði í naglkvikunni. Svo vex hún aftur. Þær vaxa nefnilega alltaf aftur. Og það er einmitt þessvegna sem maður klippir þær ekki allar niður í kviku, heldur reynir aftur, fjarlægir naglbönd og nærir rótina, nostrar við heilu neglurnar, hverja og eina á meðan maður bíður þess með þolinmæði að brotna nöglin vaxi aftur fram.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina