Pólitískt uppeldi á leikskólum

Þeir eru sennilega fáir sem átta sig á því hvað það er merkilegt að leikskólabörn taki virkan þátt í því að búa til umferðarmerki.

Þetta er nefnilega alls ekki bara krúttlegt uppátæki heldur hápólitísk aðgerð. Sú stefna að virkja börn til þátttöku í svona verkefnum er nefnilega liður í því að skapa þátttökusamfélag. Raunverulegt lýðræði þar sem hver einasti borgari hefur raunverulegt tækifæri til að setja mark á umhverfi sitt og hafa áhrif á umræðuna. Halda áfram að lesa

Að svíkja málstaðinn með því að stíga upp í jeppa

Einu sinni hélt ég því staðfastlega fram að ég væri kapítalisti. Ég trúi nefnilega alveg á frjáls viðskipti og að markmið viðskipta eigi að vera það að fá meira út úr þeim en maður leggur í þau. Ég vil ekki sjá stéttlaust samfélag þótt mér ofbjóði þær öfgar að sumir búi við örbirgð en öðrum gæti ekki enst ævin til að njóta eigna sinna. Ég álít fullkomlega rétt og eðlilegt að fólk njóti góðs af því að þroska hæfileika sína og vinna af metnaði og ósérhlífni. Mér finnst allt í lagi þótt sumir leyfi sér meiri lúxus en aðrir. Mér finnst m.a.s. í lagi að fólk njóti góðs af eignum foreldra sinna.

Af kvenhatri Salmanns Tamimi

Salmann Tamimi opnar á sér þverrifuna, verður það á að nefna son sinn sérstaklega en ekki dætur, sem miðað við hans uppruna ætti svosem ekki að koma neinum á óvart.

Á snjáldrinu verður allt vitlaust. Einhverja rámar í viðtal þar sem Salmann mælir með duglegri eiginkvennabarsmíð, helst með priki. Aðra minnir að þetta hafi nú kannski ekki alveg verið svona gróft. Ég sá þetta viðtal ekki sjálf en á endanum sendi ágætur maður mér útprent af því og kann ég honum bestu þakkir. Halda áfram að lesa

Tepruskapurinn í kringum Chomsky

Egill Helgason ympraði á því svona í framhjáhlaupi.

Annars hafa fjölmiðlar kallað Noam Chomsky mesta hugsuð samtímans, áhrifamesta þjóðfélagsrýninn, einn vinsælasta álitsgjafann, þeir hafa jafnvel kallað hann aktivista þótt hann hafi nú lengst af verið meiri hugmyndfræðingur en aktivisti.

Af einhverjum dularfullum ástæðum virðist það vera einhverskonar feimnismál að Noam Chomsky, vinsælasti spekingur samtímans er anarkisti. Hefur m.a.s. lýst sjálfum sér sem anarco syndicalista. Af einhverjum undarlegum ástæðum er eins og megi alls ekki minnast á að samfélagsrýni hans ber öll meiri eða minni (aðallega meiri) keim af þeirri skoðun að yfirvald sé almennt til óþurftar og að hann telur yfirvald eingöngu eiga rétt á sér í þeim tilgangi að vernda og hjálpa, t.d. vald til að bjarga lífi manns sem er ekki í ástandi til að gefa samþykki.

Af einhverjum ástæðum nefnir enginn að andúð Chomskys á hernaði, áhugi hans á mannréttindum og tjáningarfrelsi, gagnrýni hans á stóriðju, þjóðernishyggju og jafnvel þjóðríkið og sú skoðun hans að kapítalismi og lýðræði fari illa saman, eru hugmyndir sem flestir anarkistar eiga sameiginlegar (enda þótt vitanlega deili fleiri einhverjum þessara hugmynda eða öllum.)

Nú er Chomsky sjálfur ekkert sérlega gefinn fyrir merkimiða og þótt öll hans orðræða beri þess merki að hann er anarkisti þá er hann ekkert að stagast á því sjáfur. Engu að síður eru íslenskir fjölmiðlar almennt frekar áhugasamir um stjórnmálaskoðanir mikilla áhrifamanna og því hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna Íslendingar virðast forðast að nefna þá mikilvægu staðreynd að Noam Chomsky er anarkisti.

Líklega er það vegna þess að hann er hvorki með hanakamb né groddalokka og klæðist ekki fötum sem frænka hans keypi á nytjamarkaði og henti svo þegar hún úrskurðaði þau ónýt 6 árum síðar. Það er nokkuð ljóst að virðulegur, eldri prófessor í kaðlaprjónspeysu getur varla verið anarkisti. Ekki fremur en íslenskir góðborgarar geta verið nazistar nema bera hakakross. Eða ef hann er nú samt anarkisti, þá er allavega eins gott að nefna það ekki, því ekki viljum við nú koma óorði á fordóma Íslendinga gagnvart anarkisma.

Sjúkdómsvæðingin

Fjórir af hverjum 10 þjást af geðsjúkdómum segja þeir. Samkvæmt þessu getum við reiknað með að 25 þingmenn séu geðveikir.

Ég hef löngum haldið því fram að ég sé sú eina í minni fjölskyldu sem nálgast það að vera normal og rennir þessi viðamikla könnun stoðum undir þá tilgátu að ef einhver er ekki eins og ég, þá bendi það til þess að eitthvað mikið sé að þeim sama. Halda áfram að lesa