Mikilvægasta máltíð dagsins

Fyrir mig er kvöldverðurinn mikilvægasta máltíð dagsins. Morgunmaturinn minn, sem er einn kaffibolli, er líka mikilvægur en ég myndi frekar sleppa honum en kvöldmatnum.

Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að morgunverðurinn sé mikilvægari en aðrar máltíðir. Það má vel vera að hann sé mikilvægastur fyrir íþróttamenn og fólk í erfiðisvinnu en margir finna ekki fyrir neinni þörf til að borða á morgnana. Og það er bara allt í lagi því það er ekkert sem bendir til þess að fólk hafi gott af því að borða ef það er ekki svangt.

Íslenska aðferðin

Byggja sem flest hótel til að taka vel á móti ferðamönnum og gera allt sem hægt er til að laða sem flesta til landsins. Rukka þá svo (og einnig Íslendinga því ekki getum við mismunað fólki) fyrir aðgang að náttúrunni til að sporna gegn eyðilegginunni sem álagið hefur í för með sér.

Væri ekki einfaldara að vernda landið gegn ágangi ferðamanna með því að byggja bara ekkert fleiri hótel?

Væri það ekki líka afbragðs forvarnaraðgerð gegn gjaldþrotum þegar krónan styrkist og dregur úr ferðamannastraumnum?

Af hverju í ósköpunum er þessi bóluhagfræði svona vinsæl?

Þrjúþúsund sjöhundruð níutíu og sex

Þegar ég kom til Íslands í sumar líkti ég sölu á grænmeti og ávöxtum á Íslandi við skipulagða glæpastarfsemi. Ég er nefnilega vön að kaupa gulrætur á 181 kr/kg í Glasgow og tvær melónur saman á sem svarar 544 kr. (tilboð sem hefur verið í gildi í matvörubúinni næst okkur þessa 18 mánuði sem ég hef búið þar.) Ég fann þessar vörur ekki á svipuðu verði í Reykjavík. Stuttu síðar birtust fréttir af því að á Íslandi væri  innkaupakarfan ódýrust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Halda áfram að lesa

Íslenska velferðarkerfið?

Vinkona mín veiktist alvarlega á síðasta ári. Kostnaður hennar við læknisþjónustu og lyf á árinu nam 330.000 krónum.

Ég á tvær vinkonur sem hafa leitað á slysadeild á síðustu vikum. Önnur beið í 6 klukkustundir áður en læknirinn rétt leit á hana og sagði henni að ekkert væri hægt að gera fyrir hana. Hún borgaði 5600 kr fyrir það. Hin beið í 7 klukkustundir og var sagt að fara til heimilislæknis. Halda áfram að lesa

Pyntingaklefar

Eitt af því sem við skoðuðum í Úganda var dýflissan þar sem Idi Amin lét þá sem hann taldi til fjandmanna sinna rotna í hel í bókstaflegri merkingu.  Forsetahöllin, Mengo-höllin eins og hún er kölluð eftir hæðinni þar sem hún stendur, er frekar nútímaleg bygging. Höllin sjálf er lokuð ferðamönnum en hægt er að skoða dýflissuna sem er þar í bakgarðinum. Halda áfram að lesa

Auto diss

Þann 29. janúar sendi ég fyrirspurn til Menntamálaráðuneytisins. Ég fékk svar strax daginn eftir. Ekki svar við fyrirspurninni enda átti ég alls ekki von á henni yrði svarað alveg strax heldur bara staðfestingu á því að póstur hefði verið móttekinn. Það er kurteisi sem allar opinberar stofnanir ættu að viðhafa en tíðkast því miður ekki allsstaðar. Halda áfram að lesa

Varðandi hetju ársins

Mikið hefur verið rætt um kosningu Hildar Lilliendahl sem hetju ársins og halda margir því fram að svívirðingum hafi rignt yfir hana.

Þegar frétt fær meira en 4000 ummæli er ekkert undarlegt þótt meðal þeirra sé eitthvert ógeð. Það er verðið sem við greiðum fyrir frjálsan aðgang allra að umræðunni, óháð greind, innræti, geðheilbrigði og stafsetningarkunnáttu. Ég nennti ekki að lesa nema 134 innlegg. Ef er eitthvað að marka það úrtak voru fáir úr hópi hinna 7800 stuðningsmanna Hildar Lilliendahl sem tjáðu sig á kommentakerfinu en stór meirihluti þeirra kommentara sem ég las lýsti óánægju með að Hildur hefði orðið fyrir valinu. Flestir gerðu það án þess að nota fúkyrði. Halda áfram að lesa

Trúboð í skólum er ekkert skaðlegt

Hvernig getur það skaðað börn þótt prestar heimsæki skólann, tali um kærleika og miskunnsemi og kenni börnunum að spenna greipar? Hafa þau eitthvað illt af því að læra að syngja Jesús er besti vinur barnanna? Ef þetta flokkast sem trúboð, hvernig stendur þá á því að mörg þessara barna verða samt trúleysingjar? Halda áfram að lesa

Sveltandi Íslendingar?

Myndin sem fylgdi frétt DV sýnir svanga Íslendinga í matarleit

Það er ömurlegt að samfélagsumræðan skuli vera á því plani að ef maður ætlar að gagnrýna vafasama meðferð gagna og túlkanir á þeim, skuli maður alltaf þurfa að taka fram að maður sé ekki að lýsa yfir hatri á einhverjum minnihlutahóp eða halda því fram að allt sé í himnalagi og allir búi við réttlæti. Ég tek því strax fram að ég efast ekki um að fátækt sé vandamál á Íslandi.

Engu að síður er þessi fréttaflutningur dæmi um arfavonda blaðamennsku. Þessi alþjóðlega könnun leiðir í ljós að 16000 Íslendingar telja sig ekki hafa nógu gott atlæti. Hún leiðir ekki í ljós að 16000 Íslendingar séu vannærðir. Sýnið mér nokkur hundruð Íslendinga sem eru undir kjörþyngd án þess að það skýrist af einbeittum megrunarvilja áður en þið segið mér að 5% þjóðarinnar búi við hungur.

Ég er ekki að segja að það hafi aldrei gerst á Íslandi á síðustu áratugum að einhver hafi dáið úr hungri en ég leyfi mér að fullyrða í þeim tilvikum eru fleiri breytur sem spila inn í, svosem óregla, heilabilun eða átröskun.

Uppfært: Efasemdir mínar um að hungursneyð ríki á Íslandi hafa vakið hörð viðbrögð.

Bent hefur verið á að margir nái ekki framfleyta sér án aðstoðar hjálparstofnana. En fréttin snerist bara ekkert um það hvort fólk þyrfti eða fengi aðstoð, heldur hvort það fengi nóg að borða. Fólk sem fær úthlutanir frá hjálparstofnunum er ekki sveltandi.  Ég er auðvitað ekki að segja að það sé viðunandi ástand, heldur er ég að efast um að 5% Íslendinga lifi undir hungurmörkum.

Aðrir hafa bent á rýrun kaupmáttar en það var heldur ekki umfjöllunarefnið heldur það hvort fólk fengi nóg að borða. Sá sem fær ekki nóg að borða grennist. Ef 5% þjóðarinnar væru að horfalla þá hlyti heilbrigðisþjónustan að hafa orðið þess vör. Mér finnst þessvegna líklegt að margir þeirra sem segjast ekki fá nóg að borða, eigi við að þeir fái ekki þann mat sem þeir vildu borða, frekar en að þeir séu sveltandi.

Hér má sjá hlutfall vannærðra í ýmsum löndum. Ekki er getið um neina vannæringu á Ísland á listanum en sem dæmi um lönd þar sem 5% þjóðarinnar eru vannærð má nefna Chile, Azerbaijan, Ghana, Egyðpaland o.fl.

Væri ekki nær að skoða þau fjölmörgu vandamál sem eru raunveruleg afleiðing fátæktar á Íslandi og sleppa þessu hungurklámi? Eða halda menn að það bæti eitthvað að ýkja vandann?