Athyglissýki

attention

Í umræðunni um mál Edwards Snowden hef ég nokkrum sinnum séð því fleygt að hvati Snowdens að uppljóstrunum sé ekki einskær mannréttindaást heldur kannski bara „athyglissýki“.  Ég hef einnig séð nokkra netverja tala um þingmenn Pírata sem athyglissjúka, fyrir það að nota aðstöðu sína í þinginu til að tala fyrir mannréttindum Edwards Snowden. Við erum að tala um þessa sem voru kosnir á þing einmitt til þess að vekja athygli á upplýsingafrelsi, persónuvernd og borgaralegum réttindum.

Þetta er hvoki í fyrsta sinn né það hundraðasta sem ég sé baráttu fyrir réttlætismálum afgreidda sem „athyglissýki“. Reyndar hefur reglan lengst af verið sú að þegar stjórnmálamaður tjáir sig af ástríðu er hann mælskur, skeleggur eða mikill baráttumaður en þegar sá sem gagnrýnir stjórnvöld gerir það er hann sagður athyglissjúkur.

Geðsjúkdómur eða löstur?

Hið sjúka er óeðlilegt. Ástand sem hefur í för með sér vanlíðan og/eða skaða. Ég veit ekki hvort athyglissýki er til sem læknisfræðilegt hugtak en ef svo er þá hlýtur það að eiga við um hegðun sem víkur nokkuð langt frá norminu. Í daglegu tali er orðið notað í sömu merkingu og „attention seeking“ í ensku, kannski aðallega vegna þess að „athyglssýki“ hljómar líkar enska orðinu en „athyglissækni“ sem nær merkingunni betur. Enska  orðið felur ekki beinlínis í sér hugmynd um geðsjúkdóm heldur frekar hégómleika. Mér finnst hvorug merkningin þó eiga við um það að vilja koma baráttumálum sínum á framfæri.

Athyglissýki

Ef athyglissýki er á annað borð til sem geðrænn kvilli, þá hlýtur hún bæði að koma fram í óvenjumikilli eftirsókn eftir persónulegri athygli og óþægilegum eða jafnvel skaðlegum aðferðum til þess að fullnægja þeirri þörf. Þá erum við að tala um hegðun sem veldur fleira fólki en pólitískum andstæðingum ama og grefur undan velferð þess athyglissjúka.

Allt fólk hefur þörf fyrir viðurkenningu en sá sem er athyglissjúkur í þessari merkingu þjáist af vanmetakennd og virðist ekki trúa á verðleika sína sjálfur. Hann reynir því að öðlast viðurkenningu með allt öðrum aðferðum en þeim að þroska hæfileika sína, standa sig vel og eiga góð samskipti við aðra. Sá athyglissjúki tekur ekki þátt í gleði og sorg annarra heldur finnur hann til öfundar og reynir að stela senunni.

Mér finnst kannski réttlætanlegt að tala um athyglisþrá sem sjúkleika ef fólk notar eftirfarandi aðferðir til að svala þörf sinni fyrir viðurkenningu;

  • að taka orðið af þeim sem hefur athygli hópsins, ekki til að leggja eitthvað til málanna heldur með einhverju óviðeigandi, sem beinir athyglinni frá umræðuefninu og að honum sem persónu,
  • að hegða sér á óviðeigandi hátt, sýna dónaskap eða valda truflun,
  • gera sér upp veikindi eða ýkja vanlíðan sína,
  • stæra sig af afrekum sem lítil eða engin innistæða er fyrir
  • stæra sig af tengslum við þekkt fólk og ýkja þau stórlega
  • eigna sér verk annarra
  • sækjast eftir samúð með ósönnum fullyrðingum um að aðrir hafi komið illa fram við sig
  • skaða sjálfan sig

Athyglissækni

Eflaust er hægt að nefna margar fleiri vondar og skaðlegar aðferðir til að  verða sér úti um samúð, aðdáun eða aðra persónulega athygli en fólk sem kann vel við sig í sviðsljósinu er oft sagt athyglissjúkt enda þótt enginn skaði hljótist af hegðun þess. Enska orðið „attention seeking“ (eða athyglissækinn) er svosem ágætlega lýsandi fyrir þá hegðun en mér ofbýður stundum fyrirlitningin sem skín í gegn þegar orðið athyglissjúkur er notað í þeirri merkingu. Nauðsynlegt þykir að lýsa vanþóknun á þeim sem skreyta sig á óvenjulegan hátt og hnýta aðeins í stuðboltann sem stelur senunni í samkvæminu, í það minnsta  ef hann nýtur sín í hlutverkinu hrókur alls fagnaðar. Hégómi er höfuðsynd og nauðsynlegt að berja niður þá sem sækjast eftir aðdáun með skemmtilegheitum, útliti sínu eða öðrum hégóma.

Það eru ekki alltaf skýr mörk á milli persónunnar og þess sem hún gerir og jafnvel þeir sem eiga afkomu sína undir persónulegri athygli fá á sig stimpilinn „athyglissjúkur“.  Íþróttamaðurinn sleppur oft fyrir horn (því hann er að minnsta kosti vel að athyglinni kominn) en listamaður sem sýnir áberandi vilja til að vekja athygli á verkum sín er hættulega nálægt gráa svæðinu.

Er gagnrýni á valdhafa merki um geðveiki?

Og lengra gegnur það. Orðið athyglissýki er einnig notað til að lýsa fyrirlitningu á þeim sem vekur athygli á málstað enda þótt hann haldi persónu sinni algerlega utan við. Hörður Torfason, sem hefði vel getað nýtt sér Búsáhaldabyltinguna til þess að pota sér í einhverja valdastöðu en hefur aldrei sýnt neina tilhneigingu í þá átt, hefur sannarlega verið stimplaður athyglissjúkur. Að maður tali nú ekki um þá aðgerðasinna sem hylja andlit sín. Djös athyglissýki í þeim alltaf.

Og djös athyglissýki í þessum Snowden maaaar. Alveg til í að upplýsa alheiminn um stórfelldar persónunjósnir bara til að komast í blöðin eða eitthvað…

Síríjösslí?  Er það sjúkdómur eða neikvæð eftirsókn eftir viðurkenningu að finnast eitthvað athugavert við það að bandarísk stjórnvöld fylgist með tölvupóstsamskiptum almennra borgara? Er það persónuleikabrestur að hafa pólitískar skoðanir sem falla valdhöfum ekki í geð? Er við hæfi að nota sama orð um pilt sem sér fjöldamorð sem heppilega leið til að koma skólasystkinum sínum í skilning um að einelti sé ekki í lagi, stúlku sem tekur þátt í fegurðarsamkeppni, konu sem býður sig fram til formennsku hjá KSÍ og mann sem upplýsir alheiminn um mannréttindabrot?

Að sjálfsögðu vill fólk sem vinnur að mannréttindamálum að áhyggjuefni þess fái athygli en er  ekki lágmark að sú athygli sem „hinn sjúki“ sækist eftir sé persónuleg og gerðir hans skaðlegar til þess að rétt sé að líkja ástandi hans við geðsjúkdóm? Eða er það kannski ennþá, árið 2013, talið jaðra við  geðveiki að gagnrýna stjórnvöld?