Getur stelpa borið strákanafn?

Djöfull finnst mér gott mál að til sé fólk sem lætur ekki yfirvaldið vaða yfir sig. Hvað í fjáranum eru yfirvöld annars að skipta sér af því hvort fólk gefur börnum sínum nöfn sem hefð er fyrir að hæfi öðru kyninu frekar en hinu? Ríkir ekki kyngervisfrelsi í landinu? Þarf ekki bara líka að skipa nefnd sem fylgist með því að hárgreiðsla og klæðaburður hæfi kyni?

Og hvaða rök eru svosem fyrir því að tiltekið nafn sé drengjanafn fremur en stúlkunafn eða öfugt? Siegfried er karlmannsnafn í öðrum málum, en í íslensku er Sigfríður kvenmannsnafn. Guðmar er strákanafn en bæði Guðný og Dagmar eru stelpunöfn. Á að vera eitthvert vit í þessu eða hvað?

Annars þætti mér gaman að vita hvort yfirvaldið ætlar að halda því fram að kona að nafni Blær, heiti karlmannsnafni. Og ef svo er, heitir þá drengur sem nefndur var Kolur hundsnafni? Hversu margar konur þurftu að ganga í buxum til að gera buxur að kvenmannsfílk? Ætlum við að halda okkur við 19. aldar hugsunarhátt eða sleppa tökunum á fordómunum og líta svo á að Kolur verði mannsnafn þegar það er gefið mannsbarni og Blær stúlkunafn um leið og telpa er nefnd Blær?

Ég gæti skrifað um andstyggð mína á mannanafnalögum í alla nótt en þarf víst að sofa eitthvað líka. En hér eru nokkrir gamlir pistlar um þá undarlegu rökvísi sem þau byggja á.

 

Einkalíf í rusli

Ég var umhverfisvæn. Og græn. Hafði skolað fernur og krukkur,  safnað umbúðum  saman í eldhússkápunum og gert mér sérstaka ferð með ruslið á eldurvinnslustöð í tvö ár. Í einni ferðinni reyndist svo einn gámurinn vera fullur og ég sneri mér til starfsmanns og bað um leiðbeiningar. Hann sagði mér að ég gæti bara sett kassann þar sem mér hentaði því þessu væri öllu blandað saman og urðað. Halda áfram að lesa

Lágstemmdi lögmaðurinn

Ríkissaksóknari vísaði máli Egils Einarssonar frá og þar sem almenningur veit ekki rassgat um málið þjónar kannski litlum tilgangi að velta fyrir sér réttmæti þessarar frávísunar. Í morgun sá ég umræður á DV (ég sé þær ekki lengur svo DV hefur væntanlega afmáð ummælin) þar sem m.a. kom fram að þótt málið væri ekki metið ákæruhæft bæri ekki að skilja það svo að ekkert refsivert hefði komið fram, það væri bara ekki nóg til sakfellingar. Mér finnst þetta einkennileg hugmynd. Ef sönnun um eitthvað refsivert finnst, þá dugar hún væntanlega til sakfellingar eða hvað? Halda áfram að lesa

Eru sex máltíðir á dag töfratrix?

Önnur kenning sem ég hef margrekist á síðustu daga er sú að til þess að grennast sé best að borða oft og lítið í einu. Sex litlar máltíðir á dag, frekar en þrjár stórar. Sjálf borða ég 10 -12 sinnum á dag svona venjulega, (ég borða t.d. ávexti yfirleitt í þremur áföngum) en ef mér finnst ég orðin of feit borða ég ekki nema 3-4 sinnum. Sleppi semsagt kexi, nammi og ávöxtum nema þeir séu hluti af máltíð. Ég lofa því ekki að það virki til þess að léttast mikið en 1-2 kíló fjúka nokkuð auðveldlega með því að borða sjaldnar og sleppa sósum. Halda áfram að lesa

Heilbrigðisbull

Voðalega leiðist mér þessi þvæla.

1. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að fólk hafi gott af því að borða ef það er ekki svangt. Ef þú finnur ekki hjá þér þörf fyrir morgunmat, slepptu honum þá bara. Taktu með þér nesti ef þú þekkir sjálfan þig að því að troða kleinuhring eða hverju sem tönn á festir í andlitið á þér um leið og þú finnur til hungurs. Halda áfram að lesa

Flottur pabbi! Svona á að gera þetta!

Í gær birti DV frétt (að sjálfsögðu án þess að geta heimilda) af manni í Texas sem barði barnaníðing til bana.

Og þá varð kátt í höllinni. Hvílíkur fögnuður yfir manndrápi. Svona á að gera þetta! það er tónninn hjá mörgum, sennilega flestum þeirra sem tjá sig um málið á umræðukerfi DV. Halda áfram að lesa

Til hvers að aðlagast menningunni?

Ég ólst upp á Íslandi, er kennd við föður minn og þekki Hallgrímskirkju og Geysi á myndum. Ég er ljós yfirlitum, hef prjónað lopapeysur og mér finnst saltkjöt gott. Tala íslensku betur en önnur mál. Það eru þessi atriði ásamt langfeðgatali og íslensku vegabréfi sem ég hef í huga þegar ég segist vera Íslendingur. Hvort ég hef nokkurntíma verið vel aðlögðuð íslensku samfélagi er hinsvegar umdeilanlegt og hvað merkir það í raun? Hvernig hegðar vel „aðlagaður“ Íslendingur sér? Hver er munurinn á þeim sem er almennt frekar  andfélagslegur og þeim sem er ekki Íslendingslegur í hátterni og hugsun? Halda áfram að lesa

Ríkisreknar hófsemdarbúðir?

Þetta er alveg ágætt framtak hjá Krónunni en því miður er það nú svo að nánast allar tilraunir til að stjórna neyslu almennings fara út um þúfur. Þeir sem innleiddu „nammidaga“ ætluðust til að fólk sleppti sælgætisáti hina dagana. Í staðinn varð laugardagsnammið að viðbót. Fínt að hafa þessi viðmið en ég efast um að þeir sem hingað til hafa rétt börnum sínum 400 gramma nammipoka með morgunsjónvarpinu séu neitt líklegir til að segja þeim að núna fái litla systir sem er fimm ára bara átta mola en stóri bróðir sem er átta ára fái þrjá til viðbótar. Halda áfram að lesa