Og af því að þú ert nú sennilega með það á hreinu að ég ætla ekki að fara að vanda um fyrir þér eða ljúga því að þér að þú verðir nauðgari af því að skoða klám, langar mig að biðja þig að hlusta aðeins á mig. Þú mátt gjarnan svara líka.
Ég held að klám sé stórlega ofmetið. Bæði af þeim sem nota það og þeim sem óttast það. Það góða við klámið er að það vinnur gegn tepruskap og sannfærir fólk um að það sem gerist í innstu hugarfylgsum þess er sjaldan svo afbrigðilegt að það þurfi að fara með það eins og mannsmorð. Klám normaliserar kynferðislegar langanir sem áður voru tabú, það eykur frjálsræði og umburðarlyndi í kynferðismálum en það hefur ekkert upplýsingagildi og ekkert bendir til að það geri einhvern að ofbeldismanni.
Bleika klámið
En bíddu samt aðeins – þú veist hvernig bleika klámið, þ.e. stjörnudýrkunin og fegrunariðnaðurinn hefur konur að fíflum. Auðvitað vilja flestar konur vera sætar. Ég fæ kikk út úr því að ganga í augun á karlmanni. Það gefur konu ákveðna tilfinningu um persónulegt vald að vita að hún geti náð athygli karlmanns bara með því að fara í stutt pils. Og já, það er hégómlegt – só? Káfar það eitthvað upp á annað fólk þótt ég máli mig, fjarlægi kynhár eða fari í brjóstastækkun? Auðvitað á maður bara að fá að hafa sína útlitsdýrkun í friði. Ef varan eða þjónustan stendur til boða og ég get greitt fyrir hana, þá er það bara mitt mál. En samt – þegar fólk er farið að skaða sjálft sig, gangast undir hverja aðgerðina á fætur annarri, þegar lífið snýst upp í stöðugan kvíða fyrir hinu óhjákvæmilega og hver einasta hrukka, hvert einasta grátt hár verður tilefni þunglyndiskasts, þá er manneskjan farinn að lúta kröfum markaðarins en ekki öfugt. Og þessvegna er ástæða til að staldra stöku sinnum við og velta því fyrir sér hvað maður vill raunverulega og hvort maður er nokkuð að undirgangast þrældóm sem gerir líf manns erfiðara, skaðar mann jafnvel. Það merkir ekki að kona (eða karl ef því er að skipta) gangist þegar í stað inn á þá hugmynd að hún sé sérstakt handbendi feðraveldisins ef hún fjarlægir líkamshár, það merkir bara að sæmilega hugsandi mannvera dregur mörkin sjálf í stað þess að láta annaðhvort kapítalismann eða feminstafélagið setja sér reglur.
Bláa klámið
Bláa klámið er ekkert öðruvísi en það bleika. Það er jafngamalt tegundinni hómó sapiens og höfðar til svo djúpstæðra hvata að það er útilokað að uppræta það. (Og reyndar óþarft.) En markmið þess sem framleiðir það og markaðssetur er ekki bara að mæta þörfum þínum, heldur að búa til nýjar, svo hægt sé að selja þér meira. Kynlífsiðnaðurinn spilar á sömu kenndir og útlitsiðnaðurinn; þrá okkar eftir persónulegu valdi, getunni til að hafa áhrif á aðra og fá þá til að þóknast okkur (sem er ekki það sama og kúgun og ofbeldi) og svo þetta sérkenni mannsins, þá tilfinningu að meira sé aldrei nóg. Og nei, það gerir þig ekki að nauðgara en bíddu aðeins – hvað er þetta (ath NSFW)? „Real Rape Porn“. Er það eitthvað sem þig vantar? Eitthvað sem þú vilt? Ég giska á að svarið sé nei en einhver markaður virðist nú samt vera fyrir svona efni og það er bara allt í lagi að spyrja hversvegna.
Og hvað er þetta? Þetta er nú bara teikning en þú veist hvað ég á við, ég birti ekki allra mesta viðbjóðinn á opinni vefsíðu.
Og nei, ég er ekki að mælast til þess að þú hafnir allri synd og saurlífi og skellir þér í kynjafræði eða eitthvað í þá veruna. En ég sting upp á því að þú hugsir aðeins. Skoðir klámið þitt með gagnrýnum augum. Ekki kynjagleraugum bara svona kommon sens gleraugum. Veltir því aðeins fyrir þér hver er að tala til þín og í hvaða tilgangi. Já og til hvaða hvata er verið að höfða. Við erum svoddan skepnur og skrímslið sem blundar í djúpinu kannski verra en svo að við kærum okkur um að stugga við því. Ég meina Kökubók Hagkaupa lætur mig ekki brjótast inn í bakarí og troða rjómastykkjum í andlitið á mér en ef ég ætla ekki að verða feitabolla þá kannski geymi ég hana ekki á náttborðinu hjá mér. Bara smá kommon sens þú´st, fyrir þá sem hafa gaman af mat.
Dólgafeminstar sjá engan eðlismun á barnanauðgun og því að kaupa þjónustu escortdömu. Þau sjá heldur ekki eðlismun á djörfum kynlífsmyndböndum og grófu ofbeldisklámi eða barnaklámi. Sum þeirra sjá heldur engan sérstakan mun á ömurlegu kynlífi og nauðgun. En þú ert nú fjandinn hafi það ekki svo galinn.