Mér hefur borist bréf sem ég fékk leyfi til að birta sem gestapistil
Komdu sæl Eva
Ég las pistil Maríu Lilju Þrastardóttur sem birtist á Smugunni 18/04/2012 um drottningarviðtal við þig í Silfri Egils og í framhaldinu pældi ég í gegnum spjallþræðina. Þar hnaut ég um röksemdarfærslu frá Guðrúnu Betu Mánadóttur sem fór fyrir brjóstið á mér. Ég er ekki á Smettinu og gat því ekki tekið þátt í spjallinu en mig grunar að þessi rök eigi eftir að heyrast aftur og langaði því að senda þér eftirfarandi hugleiðingu.
Smugan: Guðrún Beta Mánadóttir (20/04/2012 kl. 9:22):
Eva Hauksdottir Hvar var ég að gera lítið úr þrælahaldi? Það er bara einfaldlega staðreynd að þrælahald innan kaffigeirans er mikið til tilkomið vegna þess heimshluta sem kaffið er ræktað í en ekki vegna greinarinnar sjálfrar. Ef að kaffi væri t.d ræktað í Bretlandi að þá væri ekki þrælahald í þeim iðnaði. Mansal í vændisiðnaði er aftur á móti ekki tengt heimshluta heldur á það sé stað um allan heim. þannig að þetta er bara ekkert sambærilegt hjá
Í samanþjöppuðu formi mætti setja röksemdarfærsluna þannig upp:
1. Þrælahald tíðkast í ákveðnum heimshluta.
2. Kaffibaunir eru ræktaðar í þessum heimshluta.
3. Þess vegna er þrælahald í kaffibaunarækt.
Hér er staðsetning framleiðslunnar orðin skýringin á þrælahaldi eins og það mótist af „viðteknum venjum“ í kaffiræktunarlöndunum en ekki af uppbyggingu greinarinnar. GBM hnykkir á „staðsetningarrökunum“ með því að segja að ef kaffiræktin væri tekin úr sínu umhverfi og flutt til Vesturlanda yrði þrælahaldið afnumið vegna þess að löggjöf um aðbúnað og réttindi launafólks á Vesturlöndum heimili ekki þrælahald.
Við þetta er margt að athuga.
Valdahlutföllin innan kaffigeirans lýsa sér í því að verð á kaffibaunum er svo lágt að starfsfólkið í ræktunarlöndunum fær aðeins hungurlús til þess að framfleyta sér. Virðisaukinn í greininni verður til annars staðar og víðsfjarri ræktuninni. Seljendur kaffibauna eru smábændur, kaupendurnir eru risafyrirtæki. Bændurnir eiga ekki nokkurn möguleika á að fá sómasamlegt verð fyrir hráefnið. Uppbygging greinarinnar hefur í för með sér að kaffirækt mun aldrei verða arðbær á Bretlandi – nema með því að heimila þrælahald!
Þessi mynd er enn skýrari í kakóbaunarækt sem er einsleitari en ræktun kaffibauna. Það er engum vafa undirorpið að þrælahald á kakóekrunum stendur undir súkkulaðiáti Vesturlanda. Og aftur er valdastrúktúr greinarinnar um að kenna. Dreifing kakósmjörs og framleiðsla súkkulaðis á heimsvísu er einokuð af fáeinum risafyrirtækjum sem í krafti yfirburðastöðu sinnar hafa jafnt og þétt tekið meira til sín af virðisaukanum í greininni. Nú er svo komið að hráefnisframleiðendurnir fá svo lítið í sinn hlut að ræktunin er ekki rekin öðru vísi en með þvinguðu vinnuafli. T.d. er kakóbaunarækt á Fílabeinsströndinni rekin með barnaþrælkun. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Fyrir 60 árum fengu hráefnisframleiðendurnir miklu meira fyrir kakóbaunirnar en þeir gera í dag
Við þetta má bæta að þrælahald verður ekki hótinu skárra þótt það sé langt í burtu og bundið við ákveðna heimshluta. Fólki í fátækum löndum finnst þrælahald ekkert síður svívirðilegt en fólki í Reykjavík. Það er hungur sem neyðir það til þess að sætta sig við afarkosti og selja börnin sín í ánauð.
Með kveðju,
Guðmundur Guðmundsson