Ætli sé til ein manneskja í veröldinni sem hefur náð tvítugu án þess að þjást af völdum annarra? Ætli sé til ein manneskja í veröldinni sem hefur náð tvítugu án þess að valda öðrum þjáningum?
Jón Baldvin Hannibalsson olli stúlku þjáningum. Hann skrifaði henni dónabréf, barnungri, og eyðilagði þar með líf hennar. Áfallaþol fólks er mismunandi; sumir standa af sér styrjaldir með tilheyrandi blóðbaði, sumir missa heimili sín og fjölskyldur í náttúruhamförum, sumir ganga gegnum pólitískar ofsóknir, morðtilræði, pyntingar, hrottalegar nauðganir, krabbamein, eldsvoða … Sumir fá dónabréf. Það hljómar kannski ekki alvarlega í eyrum þess sem aldrei hefur fengið dónabréf en það er náttúrulega upplifun fórnarlambsins sem skiptir máli.
Á einhvern dularfullan hátt hefur svo dónaskapurinn í karlinum fært Hildi Lilliendahl vald til þess að stjórna því hverjir fá að halda gestafyrirlestra við Háskóla Íslands. Rök Hildar og félaga fyrir því að JBH megi ekki kenna við háskóla eru þau að það geti valdið fórnarlömbum kynferðisofbeldis sársauka að sitja í tímum hjá honum. Með þeim rökum ætti auðvitað að reka alla háskólakennara sem og alla stúdenta sem líklegt er að einhver nemandi við skólann gæti átt erfitt með að umgangast. Í alvöru; ef þetta eru rökin, þá mætti ekki hleypa Agli Einarssyni í háskólanám. Snorri í Betel mætti ekki vinna við afgreiðslu í Þjóðarbókhlöðunni og Ólafur F. Magnússon mætti ekki vinna í Hámu.
Hlutverk háskóla er að afla þekkingar og koma henni á framfæri. Háskólar eru ekki uppeldisstofnanir. Hlutverk þeirra er ekki að vernda nemendur gegn sásaukanum af því að vera samvistum við ódáma. Mér finnst afar ótrúlegt að stefna HÍ sé sú að skapa stúdentum svo sterílt umhverfi að þeir eigi aldrei á hættu að þurfa að umgangast fólk sem vekur þeim vondar tilfinningar og því spurði ég Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs út í rökin fyrir því að vísa manninum frá verkefni sem þegar var ákveðið að hann tæki við. Ég fékk þau svör að ósætti um kennara gæti „skaðað hagsmuni nemenda“. M.ö.o. það skaðar hagsmuni stúdenta við HÍ ef feministar tuða á netinu. Ég hef óskað eftir nánari skýringum.
Í alvöru talað, hverskonar eiginlega þvæla er þetta? Er dómstóll götunnar ekki bara einfær um að ofsækja dónakalla? Þarf Háskóli Íslands virkilega að beygja sig undir kennivald kvenhyggjunnar? Finnst forsvarsmönnum HÍ virkilega við hæfi að skólinn taki þátt í því að útskúfa manni, sem er fullkomlega hæfur til að sinna kennslu á sínu sviði, vegna gamals hneykslis sem kemur faglegri hæfni hans ekkert við? Ef svo er þá er akademískt frelsi háskólafólks í stórkostlegri hættu.