Lögum beint gegn sjálfstæði kvenna

staðganga9

 

Ég fann alvarlega brotalöm í nýju barnalögunum. Feðrunarreglurnar ganga þvert gegn hagsmunum kvenna. Ég skil ekkert í því að femínistar hafi ekki tjáð sig neitt um þetta ennþá.

Reyndar held ég að tilgangur laganna hafi verið sá að auka rétt barna og feðra en ekki endilega að skerða rétt konunnar og að menn hafi hreinlega ekki áttað sig á villunni. Gallinn er hinsvegar sá að lögin auka ekki aðeins rétt barna og karla, heldur skerða þau sjálfstæði kvenna og gera þær háðari körlum en þær voru áður. Í raun gefa þessi nýju lög körlum vald sem konur höfðu einar áður.

Með lögunum frá 2003 er konum gert skylt að feðra börn sín en áður var þeim í sjálfsvald sett hvort þær gerðu það eður ei. Konur gátu þannig nýtt karlmenn til undaneldis án þess að greiða fyrir sæðið og faðirinn átti ekkert tilkall til barnsins eða barnið til hans nema móðurinni þóknaðist að feðra það.

Með nýju lögunum er réttur barnsins til að eiga föður tryggður en lögin gera þó ekki ráð fyrir að sá faðir þurfi endilega að vera barninu blóðskyldur. Réttur faðir getur að vísu gert tilkall til barnsins ef það er ófeðrað en hann á engan rétt til barnsins ef einhver óskyldur maður er skráður faðir þess. Ef móðirin er í skráðri sambúð við annan mann þegar barnið fæðist, telst sambýlismaðurinn sjálfkrafa faðir og þá getur annar maður sem telur sig föður barnins ekki höfðað véfengingarmál. Og ef kona kennir manni barn og hann gengst við því, jafnvel þótt þau séu ekki í sambúð, getur annar karl sem telur sig föður barnsins ekkert gert í málinu. Eins og segir í 21. grein:

Dómsmál til vefengingar á faðerni barns geta höfðað barnið sjálft og móðir þess, einnig sá sem skráður er faðir barns skv. 2. gr. og að honum látnum sá erfingi hans er gengur jafnhliða eða næst barninu að erfðum.
Mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu getur barn höfðað, sá sem viðurkennt hefur faðerni barns og móðir þess.

Það er því deginum ljósara að þessar reglur bitna fyrst og fremst á sjálfstæði kvenna. Konur geta ekki lengur nýtt karlmenn til undaneldis, nema með aðstoð og samþykki annars karls. Finnst ykkur þetta í lagi?

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Lögum beint gegn sjálfstæði kvenna

 1. ——————————————

  Pétur Björgvin @ 14/06 13.01

  Bíddu Eva, mér finnst að fyrst eigi að spyrja um rétt barnsins og gott væri ef að barna,,verndar”lögum tækist að standa vörð um rétt barnsins. Þetta eru hvorki samkeppnislög né jafnréttislög.

  Hitt er að hvorki þessi lög né önnur koma til með að breyta þeirri staðreynd að þegar upp er staðið þá er mikilvægast hvernig þeir fullorðnu koma fram við börnin (sín og annarra).

  Ég tel mig heppinn því að ég veit hverjir mínir foreldrar eru, ég fékk að alast upp hjá þeim báðum. Því er ég ekki dómbær á það sem þú skrifar hér að ofan því ég hef ekki upplifað það að vita ekki / fá ekki að vita hver faðir minn eða móðir er. En getur það ekki verið að hér sé verið að taka tillit til tilfinninga þeirra sem hafa búið við þá staðreynd að vita ekki hver faðir (jafnvel móðir) þeirra er?

  Varðandi síðustu spurninguna þína sem þú setur nú varla fram í mikilli alvöru vil ég segja þér að mér finnst ekki í lagi að yfirleitt einhver kona eða karlmaður sé ,,nýtt(ur) til undaneldis”.

  ——————————————

  Þorkell @ 14/06 13.22

  Ég held að ekkert í þessari færslu sé sett fram í mikilli alvöru Pétur Björgvin, nema þá með öfugum formerkjum. Hér er bullaldi kaldhæðni á ferðinni 🙂

  Annars legg ég til að þú bendir femínistum á þetta Eva. Þetta er hið alvarlegasta mál 😉

  Pétur Björgvin @ 14/06 13.46

  Hjá mér er það alltaf og eingöngu alvara lífsins nr. 1, 2 og 3!!! (-:

  Eva @ 14/06 13.52

  Það skiptir kannski litlu máli í sjálfu sér en lögum sem varða börn er skipt í barnalög og barnaverndarlög. Hin fyrri varða rétt barna en hin síðari snúast um það til hvaða ráðstafana skuli grípa ef barn býr við óviðunandi aðstæður.

  Vissulega á að spyrja fyrst um rétt barnsins en ég sé samt enga ástæðu til að nota klisjuna um “rétt barnsins” til að skjóta sér undan því að hugleiða rétt foreldranna líka. Réttur foreldra og þá einkum feðra til barna sinna er feimnismál og það er sjúkt og rangt.

  Ég er ekki viss um hvað Pétur á við með því “að taka tillit til tilfinninga þeirra sem vita ekki hverjir foreldrar þeirra eru”. Áttu við að það myndi særa t.d. mig (sem er rangfeðruð) ef minn rétti faðir gæti fengið skráninguna leiðrétta? Ef það er málið, ættum við þá ekki með sömu rökum að banna foreldrum að sækja rétt sinn ef barni hefur verið rænt og það hefur tengst barnaræningjanum tilfinningaböndum?

  Binni @ 14/06 20.48

  Nú hef ég ekki kynnt mér þessi lög, en ef marka má „kaldhæðnislega“ túlkun Evu á þeim, þá auka þau ekki rétt feðra, heldur mæðra.

  Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál: Með lögunum er konum gert skylt að feðra börn sín. Þær þurftu ekki að gera það áður (voru eins konar Maríur meyjar!). En þær mega alveg ráða því hver það er svo framarlega sem karlinn gengst við því; hann þarf ekki einu sinni að vera blóðtengdur barninu. Ég sé ekki hvernig það tryggir rétt barns til að eiga föður; lögin tryggja í mesta lagi rétt þess til að eiga karlkyns-uppalanda! En ef svo ólíklega vill til að blóðfaðirinn kemst að hinu sanna (hvernig ætti hann reyndar að gera það?) getur hann gert tilkall til barnsins svo framarlega sem einhver annar karlmaður var ekki á undan í röðinni til að taka að sér uppeldishlutverkið með móðurinni!

  Hamingjan hjálpi mér!

  Binni @ 14/06 20.49

  Ef þetta er rétt skilið svona, þá sýnist mér að ekki sé gerður greinarmunur á feðrum og stjúp- og/eða fósturfeðrum. Þessi lög ættu hinsvegar að skikka mæður til að tryggja börnum réttinn til að vita hverjir kynforeldrar þeirra eru. Þeir sem gegna uppeldishlutverkinu eiga ekkert tilkall til þess.

  Ekki segja mér að Óli Gríms hafi skrifað undir þetta! Hér dugir ekkert nema þjóðaratkvæðagreiðsla!

  Pétur Björgvin @ 14/06 21.07

  Ég á nákvæmlega við það gagnstæða með ,,tilfinninga”-setningunni minni: Mér finnst það vera réttur þess sem er rangt feðraður að mega fá upplýsingar um það hver er faðir viðkomandi, a.m.k. þegar og ef viðkomandi barn óskar þess. Þetta finnst mér vera mál númer eitt, svo þarf að huga að jafnrétti kynjanna. Fyrirgefðu ef þetta var klisjukennt hjá mér! (Já og næst skal ég reyna að vera duglegur og sleppa því að skrifa barnaverndarlög og barnalög í einu orði (-: ))

  Eva @ 15/06 00.02

  Reyndar getur barn (eða uppkomið barn) sem telur sig vera rangfeðrað, höfðað véfengingarmál. Faðirinn getur það hins vegar ekki. Lögin auka reyndar rétt feðra, bara ekki nógu mikið. Núna getur faðirinn a.m.k. gert tilkall til barnsins ef enginn annar gengst við því á undan honum og ég býst svosem ekki við að það sé algengt að pör taki sig saman um að nota annan karl til undaneldis. Sá möguleiki er þó opinn og það er náttúrulega fáránlegt. Því miður er þetta bara ekkert það eina sem er ffáránlegt í barnalögunum.

  Pétur Björgvin @ 15/06 08.21

  Hvernig er það, fengu hagsmunahópar lögin til umsagnar áður en þau voru tekin fyrir í þinginu?

  Siggalára @ 22/06 08.13

  En. ef maður var kannski fullur og man ekkert með hverjum maður bjó til barnið? Hvað gerir maður þá? Auglýsir eftir vitnum? Sennilega best að fara að athuga sinn gang 😉

Lokað er á athugasemdir.