Lögmundur og Langholtsskóli

215a4d49b3dd8e32a338b3e66e466f9b

Í Silfrinu í dag kveinaði innanríkisráðherra um að almenningur í landinu væri að beita hann „þöggun“ í Klámstofumálinu. Þeir sem leggjast gegn ritskoðun eru að hans sögn í „hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn“. Lögmundur heldur væntanlega að þetta snúist um umhyggju okkar fyrir klámframleiðendum. Að sami hópur tæki því þegjandi ef ætti að banna efni sem sýnir óæskilegar stjórnmálaskoðanir eða niðurlægjandi húmor.

Ennfremur líkti ráðherrann frjálsum aðgangi að klámi við það að grunnskóli smalaði börnum saman og léti þau horfa á ofbeldisklám. Það þarf m.ö.o. að koma á fót Klámstofu til að hindra að fullorðnir geti nálgast klám af því að netfrelsi jafngildir klámsýningum í Langholtsskóla.

Hvað annað myndi Langholtsskóli ekki bjóða nemendum upp á?

Ætli Lögmundi þætti viðeigandi að Langholtsskóli sýndi litlu börnunum okkar hrollvekjur? Hversu gömlum börnum myndi Langholtsskóli sýna heimildamynd um hryllilegt ofbeldi gegn dýrum? Væri verjandi að sýna þættina um Dexter í skólastofu? Eða grófustu atriðin úr Fóstbræðraþáttunum? Hvað myndi Lögmundur segja ef skólastjóri smalaði börnum saman og léti þau hlusta á úrval úr ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins?

Ef Lögmundur kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert af þessu væri réttlætanlegt að sýna litlu börnunum okkar í skólanum, ætlar hann þá að líka að setja netsíur á ljótar kvikmyndir, ruddahúmor, ræður Bjarna Ben og allt annað sem ylli mikilli reiði ef það væri sýnt í skólastofu?

Hvar eru öll þessi sakamál sem spretta af klámneyslu?

Lögmundur hefur talað um að ekki standi til að sía út allt erótískt efni heldur einungis það sem hann kallar klám; gróft ofbeldi sem á meira skylt við pyntingar en kynlíf.  Rökin fyrir nauðsyn þess að hindra aðgengi að slíku efni eru þau að áhrifa ofbeldiskláms gæti í sakamálum.

Nú eru dæmi um að níðingar hafi pyntað fórnarlömb sín og ógnað lífi þeirra frá því löngu fyrir daga internetsins svo ráðherrann hlýtur að eiga við að áhrifanna verði vart í mikilli fjölgun slíkra mála. Kynferðisbrotamál sem bera keim af pyntingum eru ekki áberandi í þeim dómum sem aðgengilegir eru á netinu og mál þar sem gerendur eru fleiri en einn eru blessunarlega sjaldgæf. Engum fréttum hefur heldur farið af þessum málum í fjölmiðlum. Þetta hljóta því að vera mál sem dómstólar halda leyndum en dómar í sakamálum eru lögum samkvæmt opinber gögn. Gagnlegt væri því ef fréttamenn krefðu Lögmund svara við því hvaða mál hann eigi við og hvar hægt sé að afla upplýsinga um þau.

Hverjir munu skipa Klámstofu í framtíðinni?

Enn hefur ekki fundist skilgreining á klámi sem almenn sátt ríkir um en jafnvel þótt við gætum öll sameinast um þá skoðun að hindra þurfi aðgang að ofbeldisklámi, hvar á þá að draga mörkin? Lögmundur ætlar að setja það í hendur Klámstofu en hana skipa sem stendur meðlimir refsiréttarnefndar;

  • crop_500x-200x300Róbert R. Spanó, forseti lagadeildar HÍ, formaður
  • Egill Stephensen saksóknari
  • Símon Sigvaldason, héraðdómari
  • Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari
  • Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar

Spurningin er hvort Róbert Spanó og félagar muni sjálfir ákveða hvaða efni ég má skoða á netinu eða hvort „sérfræðingar“ verði ráðnir til starfa fyrir Klámstofu. E.t.v. kynjafræðingar? Hvort vil ég frekar að stjórni því hvað ég má sjá á netinu; Róbert Spanó eða Katrín Anna Guðmundsdóttir? Það skiptir svosem ekki máli því Lögmundur mun áreiðanlega ekki spyrja mig álits.

Og þegar Klámstofa er búin að skilgreina klám, hvernig á að tryggja að netsíur ráði við skilgreininguna og geri greinarmun á t.d. ofbeldisklámi og fræðsluefni um kynferðisofbeldi?

photo-Female-Friendly-352723637-300x199 spank1-300x300


Ekkert ofbeldi hér = ekki klám?                       Er þetta ofbeldisklám?

Hvernig verður eftirliti með fjölmiðlum og listamönnum háttað?

Vafasamt er að almenn sátt muni nást um hina nýju skilgreiningu innanríkisráðherra á klámi.

Flest okkar skilgreina ýmislegt sem klám sem á ekkert skylt við ofbeldi. Hvað ætlar Lögmundur að gera við það efni? Hvað ætlar hann að gera við gróf tímarit á borð við Penthouse og Hustler? Hvað ætlar hann að gera við klámbókmenntir á borð við Fimmtíu Litbrigði Grámans? Verður þetta efni bannað á internetinu og ef svo er þarf þá ekki að moka því út úr bókabúðum líka? Á Klámstofa að sjá um það?

images7

 

photo-Female-Friendly-Erotic-3978823101-300x213

 

 

 

 

 

Hvor myndin er nær því að vera klám?

Trúir því einhver í alvöru að það sé gerlegt að koma upp netsíum sem síar réttu myndirnar út?

Og ef hin nýja skilgreining Lögmundar verður ofan á, verður þá í lagi að sýna það sem ég myndi kalla klámmynd í Langholtsskóla? Eða þarf að loka á það efni líka af því að við viljum ekki sýna það litlu börnunum í Langholtsskóla?

Vandinn afhjúpast þó fyrst fyrir alvöru þegar við horfumst í augu við að klapplið Lögmundar talar um vinsæl tónlistarmyndbönd sem klám. Verður þá líka lokað á tónlistarmyndbönd? Eða má sýna þau í Langholtsskóla?

Þjónusta við varnarlausa netverja sem vilja vernda börnin?

Þeir sem ekki vilja sjá klám eða vilja koma í veg fyrir að börnin rekist á klám, geta að sjálfsögðu sett upp netsíur heima hjá sér. Það er stór munur á því hvort ég ákveð sjálf að setja upp síu eða hvor Róbert Spanó eða klámpostular ákveða það fyrir mig.

Þau rök að takmarka þurfi aðgengi almennings að efni á netinu af því að ofbeldisklám poppi óvart upp á skjáinn eru afleit. Sjálfsagt gefa ungir netnotendur þá skýringu þegar þeir eru staðnir að verki við að skoða klám, en allir sem nota internetið daglega vita að þetta er jafn ótrúverðugt og þegar unglingur gefur þá skýringu á sígarettu í úlpuvasanum sínum að einhver hljóti að hafa misst hana ofan í vasann.

Ég efast um að innanríkisráðherra trúi því í alvöru að unglingur sem sér myndband með pyntingum, hópnaugunum og dýraníði, haldi að slíkt myndband endurspegli það sem fer fram í svefnherbergi foreldra hans. Ég efast líka um að hann telji í alvöru að hann sé að gera foreldrum greiða með því að setja upp netsíur, í stað þess að treysta almenningi í landinu sjálfu fyrir uppeldi barna sinna. Líklegra er að tilgangurinn með njósnafrumvarpinu, Happdrættisstofu og Klámstofu sé sá að höfða til þeirra kjósenda sem eru veikir fyrir fasískum hugmyndum. Það er út af fyrir sig skynsamlegt hjá Lögmundi því flestir þeirra sem fögnuðu því að fá meintan mannréttindasinna í Dóms- og mannréttindaráðuneytið sáluga, eru löngu búnir að sjá í gegnum hann.

Deildu færslunni

Share to Facebook