Þessvegna þarf kynjakvóta í Gettu betur

15810555-cartoon-red-hairy-monster-300x300Af hverju þarf að jafna kynjahlutföllin í spurningakeppni framhaldsskólanna?

Að sögn Stefáns Pálssonar þarf kynjakvóta af því að Gettu betur er ekki nógu gott sjónvarpsefni eins og er. Af pistli hans á Knúzinu í gær má einnig ráða að hann þjáist af samviskubiti yfir því að hafa skapað strákamenningu. Eins og hann orðar það; „ég skapaði skrímsli“. Strákamenning er „skrímsli“.

Stefáni gengur gott eitt til en þessar forsendur hans eru ekki trúverðugar. Keppnin hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda og það getur varla talist aðkallandi að auka áhorfið á þáttinn. Þar fyrir utan eru jafnari kynjahlutföll engin trygging fyrir auknum gæðum. Það er líka mótsagnakennt að Stefán vilji endilega innvígja stúlkur í menningu sem hann sjálfur kallar „skrímsli“. Ætli það séu ekki, þegar upp er staðið, fyrst og fremst jafnréttissjónarmið, sem vaka fyrir Stefáni? Honum fannst gaman að vera með í þessari keppni og vill ekki að stelpur fari þess á mis.

Jafnrétti er gott og fagurt en ástæðan fyrir kynjahallanum er bara ekkert sú að stelpum sé meinaður aðgangur að keppninni, heldur sú að fáar stelpur sýna áhuga á þátttöku. Það þykir mikið vandamál og kynjakvótaumræða síðustu daga endurómar sjónarmið þeirrar hreyfingar sem stal kvenfrelsishugtakinu. Feminismi merkir ekki lengur jöfn tækifæri fyrir bæði kynin heldur að karla- og kvennamenningu skuli útrýmt.

Strákamenning er merkilegri en stelpnamenning

Helsta ástæðan fyrir því að kvenhyggjufólki finnst nauðsynlegt að fleiri stelpur taki þátt í Gettu betur er sú að strákamenning er í eðli sínu svo miklu eftirsóknarverðari en hugðarefni stúlkna. Ég verð allavega ekki vör við neinar áhyggjur af því að fáir strákar taki þátt í söngkeppni framhaldsskólanna eða Skrekk.

Þetta viðhorf er líka áberandi í umræðum um vinnumarkaðinn. Í stað þess að hefja kvennastörf til vegs og virðingar, er stefnt að því að auka hlut kvenna í hefðbundnum karlagreinum og efla  þátttöku þeirra í valdakerfinu. Valdakerfi sem viðheldur misrétti. Mikilvægi þess að stelpur tileinki sér strákamenningu er angi af þessu viðhorfi og athyglisvert er að það hefur ekki gert keppnina neitt kvenvænni þótt konur hafi samið spurningarnar og verið dómarar og spyrlar. Konur hafa þannig gengið inn í skrímslamenningu Stefáns en ekki breytt henni.

 

Ef stelpur taka ekki þátt í strákamenningu þá er eitthvað að þeim

Skýringin á áhugaleysi stelpna er ekki sú að þær hafi eitthvað þarfara við tíma sinn að gera. Stelpurnar hljóta að vera svona kúgaðar. Þær skortir sjálfstraust og hugrekki til að láta ljós sitt skína.

Spyrja má hvort unglingur sem þorir ekki að taka þátt í keppni, af ótta við kynjafordóma, hefur burði til að takast á við ósigur en auk þess er þessi hugmynd niðrandi fyrir stúlkur. Ekki er að sjá að óframfærni og ragmennska hái þeim stelpum sem taka þátt í Skrekk, söngkeppni framhaldsskólanna, fimleikamótum eða free style danskeppnum.

Lágt sjálfsmat kvenna er einnig vinsæl skýring á slakri þáttöku kvenna í stjórnmálum, raunvísindum o.fl. Mér finnst þessi hugmynd kvenfjandsamleg. Það er ekki galli á tegundinni að hafa minna keppnisskap eða önnur áhugasvið en karlar og mér finnst það ekki boðleg umræða að stelpur séu svo litlar í sér að þær þori ekki inn í þessa keppni.

 

Stelpur eru vanhæfar til að taka sjálfstæðar ákvarðanir

Stelpur vita ekki hvað þær vilja. Þessvegna þurfa þær sérstaka hvatningu til að skrá sig í þessa keppni. Já, einmitt! Hversvegna ætti klár stelpa frekar að vilja mæta á kóræfingar á kvöldin, verja helgunum með vinum sínum eða lesa undir próf? Hver trúir því í alvöru að hún sjái meiri tilgang í því að lesa eitthvað í samhengi, sjálfri sér til ánægju, en að læra smásmugulegar staðreyndir utan að og þjálfa sig í að ryðja þeim út úr sér á ógnarhraða?

Það viðhorf að gildismat kvenna sé gallað, og þessvegna þurfi að stýra þeim inn á réttar brautir, er ekki bundið við unglinga. Það þykir t.d. merki um kynjamisrétti hve fáar menntakonur sækjast eftir frama innan vísindasamfélagsins. Það er ekki snjöll ákvörðun að ráða sig í vel launað starf í einkageiranum heldur hljóta konur að eiga erfitt uppdráttar í háskólasamfélaginu. Það hlýtur að vera svo ógurlega merkilegt að geta sér nafn innan akademíunnar að það er útilokað að menntaðar konur sjái hagsmunum sínum betur borgið annarsstaðar.

Ég sé ekkert dapurlegt við það að vilja ekki fórna öllum frítíma sínum í marga mánuði fyrir  fimmtán mínútna frægð og vert væri að spyrja hvaðan sú hugmynd er sprottin að stúlkur séu ekki einfærar um að ákveða hvað þeim finnist eftirsóknarvert. Af hverju halda feministar slíkri tryggð við það sem þeir kalla [ranglega] „feðraveldi“. Af hverju vilja þeir yfirtaka „feðraveldið“; taka sjálfir að sér að stjórna stelpum? Af hverju ekki bara láta stelpur í friði eða jafnvel stuðla að því að þeirra eigin menning fái meira vægi í fjölmiðlum?

Strákamenning og valdakerfið

Enn ein rök fyrir nauðsyn þess að taka upp kynjakvóta í unglingakeppnum eru þau að Gettu betur og Morfís, séu áfangar á leið að pólitískum frama.

Já, stúlka sem stefnir á valdabrölt  ætti endilega að taka þátt í Gettu betur. Þá fær hún völd. Kannski verður hún jafn voldug og Stefán Pálsson sem oft hefur, í krafti valdastöðu sinnar innan Samtaka hernaðarandstæðinga, sent út frétttilkynningar og allt. Hugsið ykkur bara hver örlög Stefáns hefðu orðið ef hann hefði verið stelpa. Þá hefði hann sennilega aldrei tekið þátt í Gettu betur og hefði aldrei öðlast þau völd sem hann  hefur í dag.

 

En skaðar það einhvern að taka upp kynjakvóta?

Nei, ég held ekki að það sé í sjálfu sér slæmt að taka upp kynjakvóta í þessum spurningaþætti og það væri m.a.s. áhugavert. Kannski myndi Gettu betur breytast í stelpnakeppni á nokkrum árum. Strákaklíkur og stelpnaklíkur hafa alltaf verið til og ekkert ólíklegt að klárar stelpur hefðu meiri áhuga á að rotta sig saman með stelpum en strákum.
feminism1-300x181Svo nei, kynjakvótar í ómerkilegum sjónvarpsþætti eru ekki skaðlegir (þótt þeir geti verið það í öðru samhengi) en viðhorfin sem búa að baki þeirri hugmynd að þeirra sé þörf; þau viðhorf að stelpur eigi ekki að skilgreina hvað sé eftirsóknarvert, heldur hasla sér völl á sviðum þar sem strákar eru ríkjandi; þau eru skaðleg. Ég hef viðrað þá hugmynd að kannski væri ráð að spyrja stelpur í hverskonar sjónvarpsefni þær vildu vera í aðalhlutverki en sú hugmynd hefur ekki fengið neinar undirtektir. Rétta formið er til, stelpur skulu vessgú ganga inn í það og ef þær vilja það ekki þá þarf að „laga viðhorfin hjá þeim“ og „sækja þær inn í bekkina“.

Þið sem standið að spurningakeppni framhaldsskólanna, endilega takið upp kynjakvóta. Gettu betur er ágætur vettvangur fyrir slíka tilraun. En gerið það heiðarlega. Viðurkennið að sú ráðstöfun hafi sáralítið með kynjajafnrétti að gera en snúist öllu fremur um pólitískt ímyndarrunk. Viðurkennið að markmiðið sé ekki að stelpur fái að blómstra á sínum eigin forsendum heldur að sveigja þáttinn að kröfum systraveldisins. Systraveldisins sem þvert á allar hugmyndir um valdeflingu kvenna, hangir vælandi í buxnaskálmum þeirra öðlinga sem enn í dag skilgreina hið eftirsóknarverða, bæði hvað varðar inntak og form.

Deildu færslunni

Share to Facebook