Engin þörf fyrir kynjakvóta

pírataprófkjörÉg held að kynjakvótar séu almennt afleit aðferð til þess að jafna kynjahlutföll, einkum í stjórnmálum og sú hugmynd að taka upp kynjakvóta á Alþingi stríðir beinlínis gegn lýðræðinu.

Þar fyrir utan er bara engin þörf fyrir kynjakvóta í pólitík. Stjórnmálaþátttaka kvenna er orðin sjálfsögð og þar með jafnast hlutföllin án afskipta ríkisvaldsins. Þar sem nóg framboð er af hæfu fólki af báðum kynjum og góð þátttaka í kosningum verður útkoman í takt við framboðið.

Þetta sýndi sig t.d. rækilega í kosningunum til stjórnlagaþings. Mikið hafði verið rætt um nauðsyn kynjakvóta fyrir þær kosningar en þar sem um 40% þeirra sem náðu kjöri voru konur,  kom ekki til þess að kynjakvóta væri beitt.

Píratar hafa ekki tekið hugmyndina um fléttulista upp á arma sína, en hvað gerðist í prófkjörinu í gær? Jú, listinn var nánast fléttaður upp í 12. sæti. Í fjórum efstu sætum voru tvær konur og tveir karlar og í 5.-12. sæti voru fjórar konur og fjórir karlar. Þetta eru sannarlega gleðilegar fréttir en koma þó ekki á óvart. Þetta hefur verið svipað í öðrum kjördæmum og kynjahlutföll í efstu sætum á listum Pírata voru einnig nokkuð jöfn  fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Og nei, skýringin er ekki sú að Píratar séu afbragð annarra kjósenda. Þar er álíka hátt hlufall af ösnum og í öðrum stjórnmálaflokkum. Málið er að virk þátttaka kvenna er einfaldlega besta leiðin til að uppræta kynjafordóma, hvort  heldur er á vettvangi stjórnmálanna eða annarsstaðar. Þegar nógu margar konur eru virkar og gefa kost á sér, er kjósendum bara alveg treystandi til að nýta atkvæðisrétt sinn í þágu kynjajafnræðis, án afskipta ríkisvaldsins.

Deildu færslunni

Share to Facebook