Meira ofbeldi af hálfu ríkisins en kúnnanna – Pye Jakobsson um afglæpavæðingu kynlífsþjónustu o.fl.

pye-jakobsson-2014-688x451

Viðtal sem ég tók fyrir Kvennablaðið

Kvennablaðið hefur síðustu daga birt umfjöllun um opið bréf sænsku samtakanna Rose Alliance til utanríkisráðuneytisins þar sem skorað er á íslensk yfirvöld að endurskoða þá afstöðu sína að leggjast gegn því að hugtakið sex worker verði notað í áliti sem unnið er að fyrir UNAIDS. 250 samtök og hreyfingar hafa lýst yfir stuðningi við þessa áskorun. Pye Jakobsson, talsmaður Rose Alliance, heimsótti á Ísland á dögunum, Kvennablaðið tók hana tali.

Baráttumál og árangur

Alþjóðleg samtök starfsfólks í kynlífsiðnaði hafa haldið uppi markvissri réttindabaráttu frá árinu 2000 og fjölmargar hreyfingar komið að því starfi. Sérð þú árangur af þessari baráttu?
Það má segja að nokkuð hafi áunnist. Við erum í viðvarandi samstarfi við ýmis samtök og stofnanir á borð við UNAIDS, WHO og UNDP og þannig hefur okkur tekist að leggja nokkuð til þeirrar umræðu sem fer fram á alþjóðavettvangi. Árangurinn birtist m.a. í því að samtök á borð við ILO og Amnesty hvetja til þess að litið verði á kynlífsþjónustu sem atvinnu. En vandinn er að á sama tíma eru landslög byggð á pólitískri hugmyndafræði og ákveðnum siðgæðishugmyndum, ekki síst á Norðurlöndum.

Um hvað snýst barátta ykkar fyrir utan að fá þetta hugtak kynlífsþjónusta („sex work“) viðurkennt?
Baráttan snýst ekki um að fá nein hugtök viðurkennd, hún snýst um afglæpavæðingu kynlífsþjónustu og það að afla okkur réttinda sem fela í sér mikilvæga vernd gegn slæmum vinnuaðstæðum og misneytingu af hálfu atvinnurekenda, sem annars er erfitt að eiga við. Orðalag skiptir máli vegna þess að til þess að fáum þessi réttindi þurfa yfirvöld að viðurkenna þjónustu okkar sem vinnu.

Þeir sem eru mótfallnir því að skilgreina kynlífsþjónustu sem atvinnu telja að normalísering vændis ýti undir kynlífsþrælkun og mansal, hver er þín afstaða til þess?
Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að afglæpavæðing kynlífsþjónustu felur alls ekki í sér að lögum gegn kynlífsþrælkun, mansali og misneytingu verði varpað fyrir róða, slík háttsemi yrði auðvitað eftir sem áður ólögleg. Við erum einfaldlega að krefjast sömu réttinda og annað fólk hefur. Almennt þarf fólk ekki að velta því fyrir sér, þegar það velur sér vinnu, hvort það muni njóta almennra réttinda og fæstir hafa valið sér störf með tilliti til þess hvort vinnulöggjöfin veiti því vernd eða ekki, það á bara að vera sjálfsagt.

Eru einhver önnur áherslumál í baráttunni á Norðurlöndunum en í þriðja heiminum?
Áherslurnar eru allstaðar svipaðar. Margir virðast ganga út frá því að réttindi kynlífsþjóna séu bara gæluverkefni forréttindahópa í þeim löndum þar sem tekjur eru hvað hæstar. En eru það ekki venjulega þeir sem sæta mestri kúgun sem hafa mestan áhuga á rétti sínum? Þannig er það um okkar hreyfingu. Samtök á norðurhveli jarðar eru mun smærri og fámennari en á suðurhvelinu en við vinnum öll að því sama; afglæpavæðingu kynlífsþjónustu.

Telurðu að afglæpavæðing kynlífsþjónustu hafi þegar skilað einhverjum árangri?  
Kynlífsþjónusta hefur verið afglæpavædd á Nýja Sjálandi og Nýja Suður Wales í Ástralíu. Það er komin nokkur reynsla á lögin í Nýja Sjálandi, þau hafa ekki aukið framboð á kynlífsþjónustu en hinsvegar hefur traust kynlífsstarfsfólks til lögreglunnar aukist. Niðustaða nýlegrar rannsóknar í Suður Wales er sú að engin ástæða sé til að breyta lögunum þar sem þau veiti kynlífsþjónum bestu vernd sem þekkist.

Hamingjusama hóran

Nú eru ein algengustu rökin gegn afglæpavæðingu þau að frjálsleg löggjöf ýti undir mansal. Hefur þú einhverja hugmynd um hvort löggjöfin hefur áhrif á umfang nauðungarvændis?
Veit nokkur það? Við vitum allavega að það er mun fleira farandverkafólk sem vinnur við ávaxtauppskeru en kynlífsþjónustu og þó hef ég ekki orðið vör við neinar herferðir þar sem markmiðið er að banna sultugerð eða að pönnukökuætur séu gagnrýndar fyrir að hagnast á flutningi vinnuafls milli landa. Nauðungarvinna er óásættanleg sama um hverskonar störf er að ræða enda hefur hún verið ólögleg í meira en 100 ár. Því er oft haldið fram að kynlífsþjónusta sé kúgun í eðli sínu af því að við þurfum mat og húsaskjól en það er ekkert meiri þvingun fyrir okkur en hvern annan, það er þessvegna sem fólk vinnur.

Svo lengi sem kynlífsþjónusta sem slík er skilgreind sem nauðungarvinna mun viðleitni samfélagsins til að bæta stöðu okkar ekki koma að notum vegna þess að sýn þess á vandamál okkar er ekki byggð á þeim raunveruleika sem blasir við okkur. Þegar ég bjó í Portúgal vann ég með nokkrum konum sem höfðu verið tældar til Evrópu. Þær voru stórskuldugar og bjuggu að meira eða minna leyti við kynlífsánauð. Engin þeirra fékk neina aðstoð á grundvelli gildandi laga og ekki hjálpuðu ríkjandi viðhorf og þessi andstyggilega tilhneiging samfélagsis til að stimpla fullorðnar konur sem viljalaus fórnarlömb.

Samtök kynlífsþjóna hafa verið gagnrýnd fyrir að halda á lofti ímynd af hamingjusömu hórunni, hvað finnst þér um þá gagnrýni?
Sumir kynlífsþjónar hafa valið sitt starf af áhuga og eru ánægðir í því en það skiptir bara ekki máli í þessu samhengi. Ef atvinnuréttindi ættu að ráðast af starfsánægju fólks, gætum við allt eins ályktað að t.d. þegar fyrirtæki á borð við McDonalds og Lidl eru gagnrýnd fyrir meðferðina á starfsfólki sínu þá sé óþarfi að taka á málinu því það sé hvort sem er ekki við því að búast að neinum þyki skemmtilegt að vinna þau störf.

Getur þú mælt með þessu starfi fyrir dætur þínar eða aðrar ungar konur?
Ég er orðin óskaplega þreytt á þessari spurningu. Hvaða andskotans þörf er eiginlega á því að ég ræði framtíð ímyndaðra dætra minna? Fær fólk í einhverri annarri stétt spurningar af þessu tagi? Það er varla svo brjálæðislega skemmtilegt að vera sorphirðumaður að ruslakallinn óski þess sérstaklega að sonur hans leggi sorphirðu fyrir sig. Eða slökkviliðsmenn? Það er augljóslega hættulegra að vera slökkviliðsmaður en kynlífsþjónn, er einhver að velta fyrir sér hvort börn slökkviliðsmanna muni vinna áhættusöm störf? Ef ég ætti börn, burtséð frá kyni, myndi ég vilja að þau lifðu því lífi sem þau sjálf kysu, ynnu þau störf sem þau sjálf veldu og að þau byggju við eins mikið öryggi og mögulegt er, hvert sem val þeirra yrði.

Gerirðu þér vonir um að einhverntíma verði litið á kynlífsþjónustu sem venjuleg störf?
Við gerum enga kröfu um að aðrir líti á kynlífsþjónustu sem venjuleg störf, við erum fullkomlega meðvituð um að þau er það ekki, rétt eins og hjartaskurðlæknirinn veit að vinnudagurinn hans er ekki beinlínis venjulegur. Persónulega er mér slétt sama hvort þessi störf eru almennt viðurkennd. Hinsvegar reiði ég af hendi þjónustu gegn endurgjaldi og það er nokkuð sem venjulega er kallað atvinna. Ég nota tekjur mínar til að greiða leiguna, kaupa mat og borga skatta, rétt eins og flest fólk. Ég vil einfaldlega fá sömu vernd og réttindi og allir aðrir.

Ósátt við vinnubrögð RÚV

Þegar þetta viðtal er tekið hafa ríkisfjölmiðar ekki gert bréfinu til utanríkisráðuneytisins nein skil. Hefur RÚV óskað eftir viðtali við þig eða nánari upplýsingum um efnið?
Það stóð til að ég kæmi fram í þætti í Ríkisútvarpinu [Speglinum] en blaðamaðurinn virtist hafa allt annað í huga en að fjalla um efni opna bréfsins til utanríkisráðuneytisins. Hún virtist ekki hafa lesið bréfið og hafði engan áhuga á því heldur ætlaði hún að setja í brennidepil gamla grein úr Kvinnofronten (veftímarit sem fámennur hópur kvenna stendur að), þar sem ég er ásökuð um ýmislegt misjafnt, og taldi sig greinilega hafa komist í feitt.

Ég svaraði fyrstu fimm spurningunum af mestu þolinmæði en þegar ég sá fram á að þetta ætti að verða meginefni viðtalsins sagði ég henni að fyrst viðtalið ætti að snúast um mig og þessar ásakanir þá hefði ég ekki áhuga á að halda því viðtali áfram. Ég sagði henni einnig að ég gæfi ekki samþykki mitt fyrir því að það yrði sent út þar sem ég treysti henni ekki til að klippa viðtalið án þess að taka orð mín úr samhengi. Þetta er í fyrsta sinn sem ég geng út úr viðtali og ég hef mætt í hundruð viðtala.

Ertu til í að segja okkur um hvað þessar ásakanir snerust?
Aktívistar verða iðulega fyrir því að reynt er að gera lítið úr málstað þeirra með því að sverta mannorð þeirra og það á við um talsmenn fólks í kynlífsþjónustu rétt eins og aðra. Venjulega erum við ásökuð um að hafa stundað hórmang í einhverju formi. Fyrir nokkum árum ásakaði blaðamaður mig um að hafa haft milligöngu um þjónustu kvenna á nektardansstað. Það sem raunverulega hafði gerst var það að ég sá um vaktaplönin, í klúbbi þar sem ég vann sjálf sem dansari og tók enga aukaþóknun fyrir það. Ég tók þetta mér með það fyrir augum að koma til móts við óskir starfsfólks um vaktir og vinnufélaga.

Þessi blaðamaður skrifaði fjölda greina sem áttu að vera „afhjúpandi“ en voru að miklu leyti ærumeiðandi ósannindi sem réttast hefði verið að kæra til lögreglu. Róttækur feministi, Gerda Christenson, sem ritstýrir Kvinnofronten (eða öllu heldur er Kvinnofronten) birti svo grein sem fjallaði aðallega um mig, þar sem öll þvælan var étin upp. Þar er því haldið fram að ég sé að sveipa kynlífsiðnaðinn dýrðarljóma – það er þeirra útlegging á gagnrýni minni á að sú pólitíska stefna sem rekin er í dag gagnist ekki því farandverkafólki í kynlífsþjónustu sem er þvingað, tælt eða misnotað. Við erum ásökuð um að hjálpa ekki konum í kynlífsgeiranum en við höfum aldrei gefið okkur út fyrir að þjónusta einstaklinga, þetta er pólitísk réttindahreyfing sem nýtur ekki opinberra styrkja. Það á líka að vera eitthvað gruggugt við að póstfang samtakanna sé heimilisfang mitt en skýringin er nú bara sú að lengst af höfðum við ekki efni á húsnæði fyrir starfsemina.

Mér finnst mjög ófaglegt af ríkisrekinni útvarpsstöð að umbera það að blaðamaður byggi viðtal á rógburði. Ef afstaða mín til afglæpavæðingar kynlífsþjónustu og réttinda starfsfólks í þeim geira er röng eða ámælisverð þá ættu þeir sem eru mér ósammála að geta sýnt fram á það með rökum í stað rógburðar.

pye2-1024x576

Sænska leiðin

Hvað finnst þér um þá leið sem hefur verið farin í Svíþjóð og fleiri löndum að gera kynlífskaup refsiverð en söluna refsilausa?
Sænska leiðin byggir á sjónarmiðum róttæks femínisma þar sem litið er á kynlífsþjónustu sem eina birtingarmynd ofbeldis karla gegn konum. Hún er einnig byggð á þeirri hugmynd að allir kynlífsþjónar séu fórnarlömb. Þetta viðhorf felur í sér afmennskun þeirra sem vinna þessi störf, það er niðrandi í garð kynlífsþjóna og til þess fallið að þagga niður í þeim.

Í Svíþjóð hefur þetta haft viðvarandi, neikvæðar afleiðingar því þetta viðhorf brennimerkir okkur enn frekar.

Því hefur verið haldið fram að sænska leiðin hafi gefist vel, telur þú að það sé rangt mat?
Þeir einu sem álíta að sænska leiðin hafi gefist vel eru þau ríki sem hafa innleitt hana. Allar helstu mannréttindahreyfingar heims gagnýna hana en sænsk yfirvöld láta sig þá gagnrýni engu varða.

Amnesty birti núna í dag skýrslu sem byggð er á rannsókn sem gerð var í Noregi og staðfestir allt sem við höfum sagt um sænska módelið og það kemur skýrt fram í skýrslunni að Amnesty telur að Norðmönnum hafi ekki tekist nógu vel að tryggja kynlífsþjónum sömu mannréttindi og öðrum. Sænska módelið er handónýtt og talsmönnum þess er ekki nógu umhugað um þau áhrif sem það hefur á fólk sem starfar í kynlífsiðnaði.

Hvernig er starfsumhverfi fólks sem er ekki ólöglegt en samt ólöglegt að eiga viðskipti við það, borgið þið skatta?
Starfsumhverfi margra svipar til þess sem gerist hjá öðrum einkafyrirtækjum. Það er mikilvægt að gera fjárhagsáætlanir því innkoma er óstöðug og löng tímabil þar sem tekjur eru óöruggar geta leitt til þess að maður lætur óþolandi framkomu yfir sig ganga. Sumir borga skatta og það eigum við að gera en skattayfirvöld eiga ekkert auðvelt með að fylgja því eftir.

Við erum samt ekki í sömu stöðu og einkahlutafélög almennt því allt annað en salan sjálf er enn ólöglegt. Við megum ekki eiga neitt samstarf, við megum ekki auglýsa, við megum ekki leita aðstoðar við að setja upp vefsíðu. Öll þjónusta af því tagi er flokkuð sem milliganga um vændi. Ef við leigjum húsnæði fyrir starfsemina er leigusalanum skylt að segja upp leigunni ef hann veit af því. Einu leiðirnar til að vinna löglega eru götuvændi eða að fara heim til viðskiptavinarins en það eru áhættumestu aðstæðurnar.

Og hvernig heldurðu svo að lögreglan finni kúnnana? Með því að elta karlmenn sem valdir eru af handahófi?  Ónei, þeir sitja fyrir kynlífsþjónum. Þeir vakta starfsstöðvar þeirra, brjótast inn á heimili þeirra, koma svo fram í fjölmiðlum og slá sig til riddara. Einn bjáninn skrifaði meira að segja bók um þessi löggæslustörf sín. Við vitum hinsvegar vel hversu ósiðlega hann hefur hegðað sér í starfi; það er hneysa að hann skuli geta haft tekjur af því að skapa þá ímynd að hann sé að sinna mikilvægu verkefni því framganga hans er miklu frekar dæmi um það hvernig níðst er á fólki í kynlífsgeiranum.

Þú telur ekki að sænska leiðin vinni gegn fordómum?
Nei, síður en svo. Á áttunda áratugnum vorum við útmáluð sem félagsleg frávik, síðar átti starfsval okkar að skýrast af kynferðisofbeldi, vondum mæðrum, slæmum bakgrunni o.sfrv. o.s.frv. Núna á það að vera merki um sálrænan skaða og því haldið fram að við skiljum ekki sjálf hvað við séum illa haldin.

Þegar því er stöðugt haldið fram að tiltekinn hópur fólks hafi ekki vit á því hvað sé því fyrir bestu, það sé niðurbrotnir vesalingar sem hafi engan sjálfstæðan vilja, þá hefur það áhrif á viðhorf samfélagsins. Okkur er iðulega lýst sem andlega vanheilum – hvaða áhrif heldurðu að það hafi í samfélagi sem stendur sig ekki sérlega vel gagnvart þeim sem eiga í raun og veru við geðræn vandamál að stríða?

Hafa yfirvöld í Svíþjóð brugðist við kröfum ykkar um að hafa fólk sem stafar í klám- og kynlífsiðnaði með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni þess?
Sænsk yfirvöld hafa einu sinni sýnt viðleitni til að ljá skoðunum okkar vægi. Gerð var svokölluð rannsókn þar sem allir sem leyfðu sér að gagnýna lögin fengu stimpilinn „fólk sem enn er misnotað í vændi“ þrátt fyrir að tveir umræddra viðmælenda hefðu látið af störfum við kynlífsþjónustu þegar rannsóknin var gerð. Þannig er gengið út frá því að eingöngu þeir sem vinna í kynlífsgeiranum geti haft eitthvað við lögin að athuga og að þar sem við áttum okkur ekki á eigin hlutdrægni sé hægt að hundsa okkur.

Hefur þú einhverja skýringu á því hversvegna er svona erfitt að fá yfirvöld til að hlusta á ykkur?
Í Svíþjóð var tekin ákvörðun um þá löggjöf sem hefur verið kölluð sænska módelið án þess að hún væri rædd til hlítar. Stjórnmálamenn hafa byggt feril sinn á þessum lögum samtímis því sem þeir hafa hegðað sér eins og strengjabrúður fámenns hóps sem verðskuldar enganveginn að skilgreina sig sem femínista. Karlhatur gerir mann nefnilega ekki að femínista. Afleiðingin er sú að margir eiga hagsmuni sína undir því að ekki verði hlustað á okkur. En til allrar hamingju hlusta mannréttindasamtök á okkur.

Hefur refsistefna gagnvart viðskiptavinum hrakið þá frá og/eða haft áhrif á tekjumöguleika?
Kúnnarnir eru ekkert horfnir og við verðleggjum okkur almennt frekar hátt en fordómar samfélagsins haldast í hendur við þá mismunun sem við búum við. Það er ekki bara troðið á rétti okkar, heldur er okkur beinlínis neitað um réttindi. Það skiptir sáralitlu máli hversu mikið maður þénar í samfélagi sem væntir þess að maður gangist við þeirri hugmynd að maður sé undirokað fórnarlamb og lítur að öðrum kosti á mann sem aðskotadýr.

Nú átti sænska módelið að bæta stöðu kynlífsþjóna því þegar þið þurfið ekki að óttast að verða sjálfar ákærðar þá ætti að vera auðveldara að tilkynna ofbeldi og misneytingu af hálfu viðskiptavina til lögreglu; hvernig finnst þér það hafa tekist?
Ef við verðum fyrir ofbeldi þá getum við fræðilega séð kært það. Raunveruleikinn er hinsvegar sá að ef lögreglan kemst að því að við erum að bjóða upp á þjónustu þá er hættan sú að þeir fari að sitja um okkur til þess að hafa hendur í hári kúnnanna. Ef kúnni er handtekinn nálægt starfsstöð eða heimili konunnar þá berast þær fréttir um internetið eins og eldur í sinu og hún missir viðskiptavinina.

Við verðum fyrir meira ofbeldi af hálfu ríkisins en kúnnanna. Þau geta ekki lengur þvingað okkur til að undirgangast ófrjósemisaðgerðir en börn eru ennþá tekin af okkur með valdi og löggjöfin vinnur markvisst gegn sjálfsákvörðunarrétti okkar þar sem okkur er neitað um atvinnuréttindi og getum ekki ráðið okkur umboðsmenn. Og þetta konsept er svo selt öðrum ríkjum blygðunarlaust. Eftir 100 ár mun fólk hafa megna óbeit á sænska módelinu og talsmönnum þess og líta á það sem þátt í gerræðislegum tilraunum til þess að stjórna viðhorfum samfélagsins ofan frá.