Andfemínismi og nafnbirtingar

Screenshot-from-2014-08-26-211640

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um réttmæti þess að fjölmiðlar birti nöfn grunaðra glæpamanna og myndir af þeim. Eins eru skiptar skoðanir um það hvort beri að nota orðalagið „meint kynferðisbrot“ frekar en að slá því föstu að brot hafi verið framið.

Mál Karls Vignis

Fyrir liggur að barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson hefur, auk þess að játa á sig hálfrar aldar raðnauðgaraferil, bæði verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot og staðinn að verki við brot sem aldrei voru kærð. Fáir draga í efa réttmæti þess að nafngreina hann. Mál Karls Vignis er því vatn á myllu þeirra sem vilja auka siðferðilegt frelsi fjölmiðla til að græða á runkfréttum; málum sem vekja mikla vandlætingu og seljast því betur sem fleiri smáatriði og nákvæmari persónuupplýsingar koma fram.

Þrátt fyrir undantekningar á borð við mál Karls Vignis ætti meginregla fjölmiðla að vera sú að forðast að birta persónuupplýsingar um fólk sem ekki hefur verið sakfellt. Mörg dæmi eru um að opinber umfjöllun hafi valdið saklausu fólki óbætanlegum skaða en ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi að sinni.

Ekki meintur heldur morðingi

Í maí 2011 lést íslensk kona, Hallgerður Valsdóttir, eftir stutta banalegu. Hún var með áverka á hálsi og í fyrstu var talið að maðurinn hennar væri valdur að þeim. Síðar kom í ljós að hann var saklaus, áverkarnir gátu ekki verið af mannavöldum.

Maðurinn var nafngreindur í fjölmiðum og amk einn fjölmiðill; DV, fjallaði um málið eins og  sekt mannsins væri hafin yfir vafa. Í þessum pistli er staðhæft án nokkurs fyrirvara að maðurinn sé sekur:

Hér á Íslandi liggur kona þungt haldin í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. Eiginmaður hennar réðst á hana tveimur vikum eftir brúðkaupið og réði henni nánast bana. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi vegna tilraunar til manndráps.

Hér er því svo slegið upp í stórri fyrirsögn að Hallgerður hafi látist af völdum eiginmanns síns.

Þessi maður hét Ólafur Donald Helgason. Hann átti engan ofbeldisferil að baki en blaðamenn bentu samviskusamlega á að hann hefði fengið dóm fyrir aðild að fíkniefnasmygli án þess að gera neina tilraun til að útskýra hvað það kæmi málinu eiginlega við.

Fjölskylda Ólafs fór fram á að mannorð hans yrði hreinsað. Það var í sjálfu sér gert með viðurkenningu á því að áverkarnir væru ekki af mannavöldum en það var ekki nóg. Ólafur Donald og fólkið hans þurftu á því að halda að samfélagið fengi betri staðfestingu á sakleysi hans. Kannski hefði opinber afsökunarbeiðni af hálfu lögreglu hjálpað til en það þarf mikið til þess að yfirvaldið biðjist afsökunar á mistökum sínum. Ég hef heldur ekki fundið neina afsökunarbeiðni frá blaðamönnum DV sem fullyrtu að hann hefði banað konunni eða frá ritstjórninni sem er ábyrg fyrir umfjöllun þeirra. Það var bróðir Ólafs sem tók sjálfur að sér að hreinsa hann með því að segja söguna alla.

Maðurinn, sem reyndist ekki morðingi, lést stuttu síðar. Ekki er vitað hvert banamein hans var. Það sem við vitum er að hann hafði orðið fyrir þungum áföllum. Að meðan konan hans lá fyrir dauðanum var hann ekki í faðmi fjölskyldunnar, heldur í einangrun, grunaður um að bera ábyrgð á því ástandi sem skömmu síðar dró hana til dauða. Við vitum líka að hann var ekki bara nafngreindur í fjölmiðlum; hann fékk ekki einu sinni að vera „meintur“. Hugsanlega hefur röð áfalla flýtt fyrir dauða hans eins og bróðir hans telur.

Hver er meðvirkur með hverjum?

Samfélag sem hefur áhyggjur af þeirri meðvirkni með ofbeldismönnum sem felst í því að forðast nafnbirtingar og slá varnagla við fréttum af alvarlegustu tegund glæpa, (t.d. með því að nota orðið „meintur“ af örlæti) ætti kannski að íhuga hvort felist pínulítil meðvirkni í því að samþykkja að menn eins og Karl Vignir Þorsteinsson eða Andreas Breivik verði að réttlætingu fyrir vinnubrögðum sem eyðileggja mannslíf.

Við andfeministar, sem (vegna meðvirkni með ofbeldismönnum, kvenhaturs og ástar á „feðraveldinu“) efumst um þann heilaga rétt meintra þolenda að fjölmiðlar leggi mannorð meintra gerenda í rúst með ónærgætinni fréttamennsku, hugsum stundum til þeirra sem hafa hlotið álíka örlög og Ólafur Donald Helgason. Við hugsum sem svo; eitthvað svipað gæti komið fyrir mig, eða bróður minn. Við hugsum líka; hvaða blaðamaður mun þá taka að sér að bera nágrönnum mínum tíðindin? Einhver sem er mikið í mun að selja fréttina sína? Einhver sem langar mikið til þess að sem flestir trúi því að fólk af mínu þjóðerni, minni stéttarstöðu eða mínu kyni, sé einfaldlega ógeð?

Það þjónar ekki hagsmunum fjölmiðla að láta þann sem grunaður er um glæp njóta vafans. Ég trúi því samt að flestir blaðamenn taki mannhelgi fram yfir stundarhagsmuni fjölmiðilsins. Ég hef meiri áhyggjur af femninisku rétttrúnaðarkirkjunni, því þar eru það ekki stundarhagsmunir sem ráða för, heldur hugsjónir. Stríð gegn kynbundnu ofbeldi, stríð gegn þeim sem vinna börnunum okkar mein. Hugsjónin er góð en bagalegt er að í hugsjónastríði eru engir stríðsglæpir skilgreindir.