Í þessum pistli talaði ég m.a. um kröfu feminista um öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Sannleikurinn er sá að krafan um öfuga sönnunarbyrði er ekki fölnað laufblað heldur gróskumikið illgresi sem hefur haft áhrif út í samfélagið og skulu hér nefnd tvö dæmi:
Ákærur gefnar út þótt engar vísbendingar um brot liggi fyrir nema upplifun meints þolanda
Í fyrradag féll sýknudómur í nauðgunarmáli.
Á einum stað í yfirheyrslu sagði sá kærði að hann hefði gert eitthvað sem hann hefði ekki átt að gera. Í dómnum kemur þó fram hvernig að þessari „játningu“ var staðið og í dómsorðinu segir:
Að þessu virtu og þegar litið er til þess hvernig skýrslutakan fór fram, en hann sat beinlínis undir ámælum frá yfirheyranda, verður sakfelling ekki byggð á þessum ummælum ákærða.
Atburðarásin sem lýst er í dómnum er á þessa leið:
Kona og karl daðra á netinu. Hún býður honum heim. Þau liggja hálfnakin í faðmlögum en hún frábiður sér að ganga lengra að sinni. Hún býður honum samt gistingu og leggst hálfnakin til svefns við hlið hans. Þau kela áður en hún sofnar.
Enda þótt komi fram að hún sé vön skyndikynnum skilur hún ekki hvað er að gerast þegar hún vaknar og finnur að hann er að snerta hana. Hún biður hann ekki að hætta eða fara heldur fer fram á bað og sendir sms um að sér hafi verið nauðgað. Hún klæðir sig svo úr bol og brjóstahaldara og leggst upp í rúm hjá manninum aftur. Þegar hann fer aftur að snerta hana þykist hún vera sofandi. Hrýtur m.a.s. Hún rís svo skyndilega upp og rekur hann út. Hann fer.
Sms-ið verður til þess að lögreglan er send á staðinn. Þá er maðurinn farinn en konan ber öll merki áfalls. Hún fær geðsjúkdóm í kjölfarið og fer að misnota áfengi og fíkniefni.
Var um nauðgun að ræða? Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að svo hafi ekki verið. Engu að síður er það áhyggjuefni að embætti ríkissaksóknara skuli bera slíka virðingu fyrir „upplifun þolanda“ að gefin er út ákæra í máli þar sem kona segir sjálf frá því að hún hafi brugðist við kynferðislegri snertingu með því að afklæðast og leggjast upp í rúm hjá nauðgaranum.
Stóri dómur
Í Speglinum í gær tók Kári Gylfason fréttamaður (og fyrrverandi kærasti Höllu Gunnarsdóttur) að sér að auglýsa hugmyndafræði femínistahóps sem ég kýs að kalla Stóra dóm. (Kynning hér) Lýsing Kára á meintu „ábyrgðarferli“ hljómar afskaplega vel en í raun er um að ræða neðanjarðarhreyfingu sem hefur lagt mannslíf í rúst með ósanngjörnum ásökunum og óvönduðum vinnubrögðum. Þessi hreyfing byggir einmitt á hugmyndinni um að upplifun „þolanda“ sé í sjálfu sér sönnun fyrir því að kynferðisbrot hafi átt sér stað. Menn sem e.t.v. hafa sýnt tillitsleysi en ekki gert af sér neitt það sem flokka má sem kynferðisbrot hafa verið þvingaðir til að undirgangast meint „ábyrgðarferli“ með hryllilegum afleiðingum.
Hugmyndir Stóra dóms eru þarna kynntar í fréttaskýringaþætti ríkisútvarpsins, án nokkurrar gagnrýni, og á þann hátt að þeir sem ekkert vita um bakgrunn málsins geta hæglega trúað því að um sé að ræða teymi fagfólks eða aðferðir sem viðurkenndar eru innan sálfræðinnar.
Þetta eru bara tvö dæmi um ömurlegar afleiðingarnar af kröfunni um öfuga sönnunarbyrði en ég gæti nefnt miklu fleiri dæmi, bæði um áhrifin innan réttarkerfisins og í samfélaginu.