… sjúkir en fagrir

lauf

Jæja, loksins hefur meintur feministi gert heiðarlega tilraun til að svara gagnrýni minni, þ.e.a.s. því sem ég hef sagt en ekki einhverju allt öðru.

Með vísu Steingríms Thorsteinssonar sem Gísli Ásgeirsson notar sem inngang að pistli sínum, lýsir hann þeirri afstöðu sinni að umfjöllun mín um ofstæki feminista sé ekkert nema „rógur“. Rógur er samkvæmt orðabókarskilgreiningu „ósönn illmæli“. Gísli tekur í pistli sínum fjögur af dæmum mínum um ofstæki feminista, sem hann flokkar samkvæmt þessu sem ósönn illmæli. Við Gísli  verðum víst seint sammála um það hvort dæmin sem ég tek eru ósönn eða ekki og því er best að láta lesendum eftir að dæma.

Dæmin sem Gísli flokkar sem rógburð

Félag um foreldrajafnrétti hefur barist fyrir dómaraheimild til að dæma foreldrum sameiginlegt forræði við skilnað. Halla Gunnarsdóttir lagðist á móti dómaraheimild. Meðal þeirra raka sem hún færði fyrir afstöðu sinni voru þau að dómaraheimild bjóði heim hættu á að ofbeldisfullir foreldrar fái of mikinn aðgang að börnum sínum. Í þessum pistli flettir Heiða B Heiðars ofan af nokkrum rangfærslum Höllu um málið og hvet ég lesendur til að kynna sér greinina. Sá sem sér dómaraheimild sem jafnréttismál hlýtur um leið að sjá frumvarp Höllu gegn henni sem markvissa baráttu gegn foreldrajafnrétti. Hvort dómaraheimild er jafnréttismál verður hver að gera upp við sjálfan sig.

Ég tel ekki að Þráinn Bertelsson sé kvenhatari þótt hann flokki það sem ærumeiðingar að setja ósmekkleg skrif til ungar stúlku í sama flokk og barnanauðgun. Fólk þarf ekkert að vera sammála Þráni um að orðið „heimilisböl“ sé viðeigandi um atburði sem Jón Baldvin var einn ábyrgur fyrir en mér finnst ofstækisfullt að kalla það „kvenhatur“. Gísli lítur á þá afstöðu mína sem rógburð í garð feminista. Dæmi nú hver fyrir sig.

Tískubloggið er að mati Gísli ekki til þess ætlað að hæðast að stúlkum sem hafa útlit og tísku að áhugamáli (heldur bara því sem þær gera, segja og lesa.)  Ég er ekki ein um að hafa misskilið þetta svona hrapalega því ein af pjattrófunum svaraði fyrir sig og gerði það vel. Í pistlinum er einnig komið inn á það hvernig jafnréttisbaráttan var yfirtekin með pólitískum rétttrúnaði og konur sem uppfylltu ekki ákveðna staðalmynd flæmdar burt. Reyndar hefði ég ekki átt að flokka tískubloggið sem dæmi um ofstæki, heldur tvískinnung, en lesendur dæma sjálfir um það hvort tískubloggarinn er að hæðast að þeim sem hafa áhuga á útliti og tísku eða hvort það er bara rógburður af minni hálfu.

Í pistlinum sem Gísli vísar til, nefndi ég útúrsnúning á umfjöllun minni um hættuna á viðsnúningi á sönnunarbyrði og tengdi á þessa steinsmugugrein sem dæmi. Gísli telur þetta dæmi um rógburð minn gagnvart feministum þar sem þetta sé aðeins eitt nafnlaust blogg og steinsmugan sé ekki fulltrúi feministahreyfingarinnar. Kommon Gísli. Þetta er varla svaravert, það vita allir sem eitthvað hafa fylgst með umræðunni að ég er iðulega afgreidd með fullyrðingum um að ég sé að verja nauðgara eða gera lítið úr þolendum.

 

Er krafan um öfuga sönnunarbyrði fölnað laufblað?

Og hversu mikil innistæða er svo fyrir því áliti mínu að markmiðið sé að snúa sönnunarbyrðinni við? Gísli flokkar þá umfjöllun einnig sem róg en ég get nefnt mörg dæmi:

Þetta fölnaða laufblað skrifar nafnlaust og segir hlutina umbúðalaust.  Nú finnst Gísla lítið vera að marka nafnlaust blogg en hvað segir hann um þessi orð sem Guðrún hjá Stígamótum lét eitt sinn falla? (Myndin er tekin héðan.)

guðrún

Ég hef áður bent á skrif Önnu Bentínu Hermansen og Maríu Lilju Þrastardóttur um karllægni réttarkerfisins (sem er ekki nærri eins kvenfjandsamlegt og þær staðhæfa). Þær stöllur segja m.a:

Sú skoðun er því ríkjandi að fórnarlambi nauðgunar eru settar þær takmarkanir við ákæru að sanna beri fyrir lögum, ásetning þess sem brýtur, framar því að meintur nauðgari skuli þurfa að sýna fram á sakleysi sitt.

Hér má sjá annað dæmi um það hvernig þetta viðhorf birtist; það er einfaldlega ekki inni í myndinni að kona geti borið rangar sakir á mann, þrátt fyrir mýmörg dæmi um það frá nágrannalöndnunum að meinsæri hafi sannast.

Untitled

Daður við þá hugmynd að slaka á sönnunarkröfum, eða jafnvel að snúa sönnunarbyrðinni við, birtist afar vel í umræðunni um mál Egils Einarssonar en ég nefndi einmitt nokkur dæmi um það a(titli greinarinnar var síðar breytt en hann sést enn í vefslóðinni) af hálfu þekktra feminsta í pistlinum sem Gísli er að gagnrýna. Ég get nefnt mörg fleiri um sama mál.

Lagafrumvarpið margrædda, (sem Gísli telur ýmist að sé ekki dæmi um sjónarmið feminista eða þá að boði alls ekki viðsnúning á sönnunarbyrði) varð ekki til af einskærri tilviljun í höfði Atla Gíslasonar. Frumvarpið hefði ekki orðið til nema vegna þess að þessi hugmynd hefur verið rædd í samfélaginu áratugum saman. Sú umræða varð fyrst áberandi með stofnun Stígamóta og það eru feministar sem hafa haldið þeirri umræðu uppi. Sem betur fer hefur frumvarpið enn ekki verið samþykkt.

 

Má þá aldrei viðurkenna sekt?

Þessi klausa í niðurlaginu á pistli Gísla er í meira lagi undarleg:

Nafngreindur maður var og er sakaður um barnaníð. Þar voru og eru engar sannanir fyrir hendi, aðeins orð þolenda og hugsanlega sálfræðilegt mat á andlegri líðan/áföllum, sem pistilshöfundur hefur hingað til gefið lítið fyrir, enda ekki byggt á vísindalegum staðreyndum, heldur svonefndri „upplifunarforsendu.“ Til að gæta hlutleysis verður að segja „meintir þolendur.

Um er að ræða mann sem hefur játað afdráttarlaust, fyrir framan myndavél, kynferðisbrot gegn miklum fjölda barna. Maðurinn hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, verið rekinn úr vinnu vegna kynferðisbrota, vitni hafa beinlínis staðið hann að verki og fjölda þolenda ber saman í lýsingum sínum á aðförum hans. Það er fráleitt að bera slíkar sannanir saman við þau dæmigerðu mál sem vísað hefur verið dómi frá vegna skorts á sönnunum. Að sjálfsögðu eiga fjölmiðlar að veita yfirvöldum aðhald með rannsóknarblaðamennsku og þótt grundvallarregla fjölmiðla ætti að vera sú að líta á fólk sem saklaust uns sekt er sönnuð, væri það vont dæmi um pólitískan rétttrúnað, að halda svo fast við þá meginreglu að ekki megi greina frá himinhrópandi sönnunum. Frásögn einnar manneskju eða vottorð um áfallastreituröskun er ekki slík sönnun.

 

Hvar er laufskógurinn þá?

Kæri Gísli

Ef málflutningur kvenna á borð við Höllu Gunnarsdóttir, Guðrúnu hjá Stígamótum, Hildi Lilliendahl, Sóleyju Tómasdóttur, Önnu Bentínu Hermansen, Maríu Lilju Þrastardóttur, Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, Launsátursbloggarann og Drífu Snædal, er „fölnuð laufblöð“ feministahreyfingarinnar, hvar er þá gróandinn? Hverjir eru hinir breiðu stofnar sem án þess að útmála konur sem fórnarlömb og karla sem skúrka, bera uppi baráttu fyrir kynjajafnrétti og stuðla að gagnkvæmum skilningi milli karla og kvenna?

Ég hef ekki orðið vör við laufþykkni uppbyggilegrar jafnréttisumræðu en ef þú veist hvar það leynist máttu gjarnan benda á nokkur laufblöð sem benda til sæmilega heilbrigðra viðhorfa. Eða er kvenhyggjan kannski lítið annað en hrungjörn lauf í haustskógi? Fögur orð og ímyndir, sem þegar betur að er gáð, benda til helsjúkra viðhorfa? Ég held það og þessvegna vona ég að hennar síðustu dagar séu í nánd.

Deildu færslunni

Share to Facebook