Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Dagbók frá 7. bekk 26

Það er allt í steik heima. Þau rifust fram á nætur alla helgina og hún er búin að vera með leggja sig veikina (1) á hverjum einasta degi segir Didda. Svo þegar hún loksins kemur fram gerir hún ekkert nema naglalakka sig, hanga í símanum og garga á okkur. Allt í drullu og ógeði og krakkinn bleyjulaus, mígandi og skítandi í gólfteppin og fer ekki að sofa fyrr en löngu eftir miðnætti og svo er hann líka taugaveiklaður þótt hún viðurkenni það ekki. Þegar ég kom heim á föstudaginn voru allir pottar fullir af mygluðum matarleifum. Didda er svo ábyrgðarlaus. Segir bara “ég er ekki mamman hérna” og lætur sem hún sjái ekki neitt. Og Ómar flýr bara í vinnuna og kemur ekki heim fyrr en 9 á kvöldin eða seinna og hangir þá bara yfir orgelinu. Ég skil ekki af hverju enginn gerir neitt. Fólk hlýtur að sjá að þetta getur ekki gengið svona. Ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera heima nema um helgar en ég er bara hrædd um að hún hugsi ekkert um krakkana. Ég gleymdi að þvo og á eiginlega ekkert hreint til að vera í. Ég er að skrópa í útitíma núna. Ég skrópaði líka í sundi (maður getur ekki verið á túr í hverri viku) og Friðrik sagði ekkert við því. Mér er alveg sama þótt ég fái núll, ég ætla ekkert að mæta næst heldur.

1. Á þessum tíma var þunglyndi ekki eins mikið í umræðunni og í dag. Það þótti aumingjaskapur að þjást af þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum og oftar en ekki var fólk orðið mjög veikt áður en það leitaði sér hjálpar. Ég skildi að það var eitthvað sjúklegt við ástand móður minnar en tengdi orðið “þunglyndi” fyrst og fremst við svartsýni og depurð sem átti ekki sérstaklega við í þessu tilfelli.

 

Dagbók frá 7. bekk 24

Ég hata Helga. Í kvöld rennblotnaði ég í vatnsslag og fór niður til að skipta um föt. Þar sem ég stóð á brókinni heyrði ég einhvern hneggja undir rúminu hennar Freyju. Það var Helgi sem lá þar og góndi beint á mig. Ég hef aldrei verið jafn fljót að klæða mig. Hann komst næstum út en ég gat samt hárreitt hann aðeins. Ég er mjög reið og ég hata hann. Hann er ljótur og heimskur og hefur augu eins og kamelljón. Ég er líka svekkt út í Rósu. Hún er alltaf að gera grín að brjóstunum á mér. Mér finnst einhvernveginn miklu meira svekkjandi þegar hún gerir það heldur en þegar strákarnir eru að stríða mér. Ég er mjög leið núna en mig langar samt ekki heim.

Dagbók frá 7. bekk 23

Ég hata mömmu. Hún er snuðrandi í öllu sem henni kemur ekki einu sinni rassgat við. Guðný kom í heimsókn um helgina og fór að hrósa mér fyrir eitthvað ljóð og þá fattaði ég að hún hefur fundið ljóð eftir mig, ofan í minni eigin skúffu og sýnt kerlingum sem koma í kaffi til hennar. Eldgamalt ljóð en mér er alveg sama, hún átti ekkert með þetta. Ég held að hún hafi samt skammast sín smá því þetta er allavega í eina skiptið í lífi mínu sem hún hefur ekki gargað á mig fyrir að skella hurðum. En hún sagði samt ekki fyrirgefðu. Ég hef líka aldrei heyrt hana nota það orð þótt hún ætlist til að aðrir geri það. Ég held hún sé ekki búin að finna ástarljóðin sem ég samdi þegar ég var hrifin af Magga í fyrra. Ég fór með þau inn á bað og brenndi þau.

Það var samt eitt gott en það er sko ekki ………… (1) að þakka. Gunni (2) talaði við mig og sagði mér frá vitleysu sem ég geri stundum en vissi ekki um. Ég hef einmitt verið óánægð með sumar vísurnar mínar þótt ég noti stuðla og allt. En það er bara af því að stuðlarnir þurfa að vera uppi en ég hef þá stundum niðri. (3) Djöfull sem maður getur verið fattlaus, þetta er svo augljóst þegar maður veit af því. Allavega þarf ég aldrei framar að búa til vonda vísu en ég er samt reið við mömmu og ætla bara að vera það áfram.

1. Hér var orð sem ekki er prenthæft og segir meira um mitt sálarástand þessa stundina en innræti móður minnar.

2. Gunni var stjúpfaðir minn. Hagmæltur mjög.

3. Væntanlega á ég hér við að stuðlar þurfi að standa í áherslu eða hákveðu.

 

Dagbók frá 7. bekk 22

Ég er búin að fatta hvað fróa sér þýðir. Það heitir samt að runka sér hjá strákum. Ásgeir í 9. segir að allir geri það. Og ég sem hélt að ég hefði fattað upp á þessu. Ég ætlaði m.a.s. að skrifa bók um það. Undir dulnefni auðvitað. En ég trúi samt ekki að nokkur manneskja geri svoleiðis með kerti eða gulrót. Ojbara. Ásgeir segir að snípurinn sé eiginlega pínulítið tippi en það er ekki rétt. Ég er búin að gá og ég hef allavega ekkert sem líkist tippi en það er samt eitthvað þarna sem ég held að sé snípur. En það er ógeðslegt orð svo ég kalla það fiðrildi. En ég segi það samt ekki upphátt enda talar maður ekki um svoleiðis. Það er allavega líkara fiðrildi en tippi en kannski er ég bara vansköpuð. Ég meina, aldrei hef ég séð klof. Ef ég er vansköpuð vona ég að ég giftist hreinum sveini svo hann fatti það ekki.

 

Dagbók frá 7. bekk 21

Ég er ekki með námsleiða en ég er samt ekki kennarasleikja. Ég er búin að lesa alla dönskubókina, hún var skemmtileg og ég skildi næstum allt. Ég ætla samt ekki að segja neinum frá því. Ég á fullt af leyndarmálum um kynlíf og guðdóminn og allskonar en þetta er asnalegasta leyndarmál sem ég hef átt.

Dagbók frá 7. bekk 20

Þórunn segir að strákar hugsi bara um eitt. Það geri ég reyndar líka. Stundum finnst mér ég vera meiri strákur en stelpa. En samt finnst mér gaman að vera dömuleg og vera í flottum náttkjólum. Mamma gaf mér ljósbláa siffonnáttkjólinn sinn af því að hún er orðin of feit í hann en hún vill ekki að ég noti hann í skólanum. Hann er æðislegur og ég fór samt með hann í skólann. Ég vona að mamma haldi áfram að fitna. Hún er alltaf með leggja sig veikina og þá þarf ég að passa svo mikið. Stundum þoli ég hana ekki en samt er hún svo fyndin þegar hún er ekki í fýlu að maður fer alltaf að hlæja og þá þoli ég hana alveg en ég vona samt að hún verði mjög feit ef hún heldur áfram að vera svona leiðinleg.

 

Dagbók frá 7. bekk 19

Gredda, gredda, gredda. Maður hættir að vera feimin við orð ef maður segir þau nógu oft. Rósa segir að ég sé með greddu á heilanum. Ég reyndi að segja henni að það væri orðið gredda en ekki greddan sjálf sem ég væri með á heilanum en hún fattaði ekki hvað ég meinti. Reyndar er ég líka með greddu á heilanum en ekki bara orðið sjálft. Maðurinn er ekki það sem hann borðar, (því þá væri ég súkkulaðikex) maðurinn er það sem hann segir.