Blár 2

Eva: Nei það er ekkert sérstakt að frétta, ekkert fram yfir það sem ég set í vefbókina mína.
Elías: Ok, þú skrifar helling en maður veit samt ekkert hvað er að gerast í hausnum á þér. Þú ert ekki sama manneskja á blogginu og í raunveruleikanum.
Eva: Jæja, og hvor okkar heldurðu að sé raunverulegri?
Elías: Ég veit það ekki. Ég er heldur ekkert sá sami á blogginu þínu og í raunveruleikanum og ég veit ekki hvor okkar er raunverulegri.

Elskan. Hefurðu virkilega ekki tekið eftir því að þú ert ekkert á blogginu mínu lengur? Og heldurðu í alvöru að raunveruleiki sápuóperunnar gæti þrifist annarsstaðar en þar?

Þögn

Finnst þér ennþá skrýtið að blár skuli tákna einsemd og frelsi í senn? Mér finnst það fullkomlega rökrétt.

Blár

Er munur á einsemd og frelsi? spurði Elías.
Já, mikill munur, jafn mikill munur og offitu og marengstertu, sagði ég.

Ég hef verið ein og einmana og ég hef verið í sambúð og einmana, mér líkar það fyrrnefnda betur. Ég hef verið einhleyp og frjáls og ég hef verið elskuð og frjáls, mér líkar það síðara betur.

Að vísu getur of mikið frelsi gert mann einmana en einsemdin gerir mann ekki frjálsan.
En jú, ég sé tengslin og það veit ég af eigin raun að sannleikurinn mun gjöra yður einmana; á tíðum ákaflega einmana en ekki samt endilega frjálsa.

Lit

Ljúflingur. Huldumaðurinn minn.

Þegar ég ætlaði að ýta þér til hliðar svaraðir þú með því að segja tíkinni þinni allt af létta og herja út formlegt leyfi til að gista hjá mér. Ég orti þér ljóð í tilefni af þeim undarlega gjörningi. Hélt áfram að leita að frambærilegum kærasta en tók samt nokkrar óafturkræfar ákvarðanir. Fannst ég næstum elskuð um tíma. Halda áfram að lesa

Kenndin

Mér finnst ég ekki veikbyggð en þótt hendur hans séu ekki stórgerðar nær hann utan um báða úlnliði mína með annarri þeirra. Rennir fingurgómum yfir kviðinn á mér og horfir á mig, mosamjúkum augum. Kyssir eins og á að kyssa. Elskar eins og á að elska. Fullkomið samspil hörku og blíðu, hann les mig rétt og ég finn að hann hefur það í sér, í alvöru. Leysir böndin á silkitoppnum mínum, sem er blágrænn eins og Pegasus. Og Kenndin rís úr djúpi aldanna; þykk, svört og voldug, hellist yfir mig, gagntekur mig.
-Já, hvísla ég þótt hann hefi ekki orðað neina spurningu.
-Ertu viss?
-Já.

Skrattinn steinsofandi í sauðarleggnum uppi við Rauðhóla og bærir ekki á sér. Það er fullkomnað.

Ligg í hálfmóki einhversstaðar milli ljóðs og vímu. „Maður fær ekki allt“ hef ég svo oft sagt. Hvílk della. Maður fær einmitt allt. Stundum meira að segja eitthvað betra en það sem maður biður um. Ég hefði orðið hæst ánægð með Elías en mér datt aldrei í hug að ég fengi Pegasus í staðinn.

-Ég treysti þér Pegasus,
segi ég.
-Já, það er greinilegt, svarar hann og brosir kankvíslega eins og hann er vanur. Líklega kemur það mér meira á óvart en honum.

Það er fullkomnað.
Eftir öll þessi ár er það fullkomnað.

 

Tákn

Fyrir norðan kom dálítill Elías yfir mig. Og ég sem hef reynt það á eigin skinni að flugferðir enda jafnan með brotlendingu, sé tákn þar sem aðrir sjá tilviljun og leyfi mér ögn meiri blágrænu en efni standa til. Halda áfram að lesa