Lit

Ljúflingur. Huldumaðurinn minn.

Þegar ég ætlaði að ýta þér til hliðar svaraðir þú með því að segja tíkinni þinni allt af létta og herja út formlegt leyfi til að gista hjá mér. Ég orti þér ljóð í tilefni af þeim undarlega gjörningi. Hélt áfram að leita að frambærilegum kærasta en tók samt nokkrar óafturkræfar ákvarðanir. Fannst ég næstum elskuð um tíma.

Krísaðist við það næstu mánuði að sætta mig við þá staðreynd að þótt Elías úskrifaðist úr líffræðinni, myndi hann samt ekki flytja heim en þú varst til staðar svo ég fann ekki mikið fyrir söknuði. Ákvað svo að dæmið gengi ekki upp og það gladdi Drenginn sem hatar þig jafnvel meira en hann hatar Elías ákaflega mikið. Samt hélt ég áfram að hitta þig.

Sumarið kom og ég tók sömu ávörðunina einu sinni enn. Samt hélt ég áfram að hitta þig og þegar hér var komið sögu var ég bara þó nokkuð sátt. Eða allavega fannst mér ég vera það. Enda þótt það hafi óneitanlega sína ókosti að þurfa samþykki þriðja aðila til að elska einhvern. Var sátt í bili en hefði líklega ekki orðið það til lengdar. Enda var ég svosem alltaf að búa mig undir að syrgja þig. Hafði syrgt þig í marga mánuði þegar þú loksins tókst af mér ómakið og bast endahnútinn á samband sem var gott en því miður bara búið.

Ég hef ekki saknað þín að ráði og býst ekki við að gera það héðan af. En ég var búin að gleyma þessu ljóði sem ég orti til þín á sínum tíma og verandi það sem ég, hlýt ég að leggja merkingu í það þegar einhver sem ég þekki ekki neitt vekur athygli mína á því upp úr þurru.

Fljótlega mun ég leggjast yfir söguna af Hlini (eða Hlina?) aftur og finna merkinguna en í dag má ég ekkert vera að því. Pegasus er á leiðinni heim og í augnablikinu er ekkert mikilvægara en að hitta hann.