Gall

Ég kastaði sauðarleggnum af alelfi í kirsuberjatréð, fór svo inn og prófaði að hvolfa vélinni. Það virkaði ekki en ég sá út um gluggann að leggurinn bærði á sér. Stuttu síðar reis hann upp og stakkst á endum inn um eldhússdyrnar. Halda áfram að lesa

Gleðilegan 16. júní

Skrattinn er ekki ennþá laus. Ekki ennþá.

Við fáum gamla jaxla úr samtökum herstöðvarandstæðinga í mat í kvöld. Ég reikna með að fagna þjóðhátíðardeginum með bylingarelexír og ættjarðarsöngvum fram eftir nóttu.

Hvort það losar tappann úr sauðarleggnum eða kýlir hann inn, það verður bara að koma í ljós.

 

Andvaka

Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum.
Birta: Andskotakornið. Ég var að vona að tappinn væri að losna úr Þvagleggnum.
Eva: Í alvöru, það er eitthvað í aðsigi, ég er með verk í hjartanu.
Birta: Kannski er það bara líkamlegt. Of mikið kaffi?
Eva: Nei, það er Skrattinn.
Birta: Við þurfum að sofa.
Eva: Við þurfum að troða tappanum í legginn.
Birta: Á morgun kannski. Við getum ekki tekið áhættuna á að hreyfa við honum núna.

Eva: Af hverju er ég í rusli? Af hverju núna?
Birta: Skiptir það nokkru máli? Geturðu ekki bara hætt að vera í rusli og þar með hætt að pæla í því?
Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum. Ég held það í alvöru.

Þar var herligt þar var smúkt

Mikið ofboðslega var gaman í gær. Uppskriftin að vel heppnuðu fylliríi er alltaf á sömu leið:
-Byrja snemma
-Borða vel
-Hundsa leiðinlegt fólk og illa drukkið
-Drekka hóflega
-Syngja óhóflega
-Borða kleinur eða eitthvað álíka feitt fyrir svefninn
-Koma sér í bælið fljótlega upp úr miðnætti. Halda áfram að lesa

Bísam

Eva: Hvort þætti þér verra; að vera utangarðs út á það sem þú ert eða að njóta viðurkenningar út á eitthvað sem þú ert ekki?
Ljúflingur: Ég held að gagnvart hópnum vilji flestir vera inni, jafnvel út á falska ímynd. Ekki kannski þú en flestir eru háðir félagslegri viðurkenningu.
Eva: Ég held að þú hafir rétt fyrir þér en gildir annað gagnvart nánum samböndum en hópnum?
Ljúflingur: Jaaaaá, viljum við ekki geta tekið niður grímurnar í nokkuð góðri vissu um að við séum elskuð þrátt fyrir að vera eins og við erum?
Halda áfram að lesa

Kenndin

Mér finnst ég ekki veikbyggð en þótt hendur hans séu ekki stórgerðar nær hann utan um báða úlnliði mína með annarri þeirra. Rennir fingurgómum yfir kviðinn á mér og horfir á mig, mosamjúkum augum. Kyssir eins og á að kyssa. Elskar eins og á að elska. Fullkomið samspil hörku og blíðu, hann les mig rétt og ég finn að hann hefur það í sér, í alvöru. Leysir böndin á silkitoppnum mínum, sem er blágrænn eins og Pegasus. Og Kenndin rís úr djúpi aldanna; þykk, svört og voldug, hellist yfir mig, gagntekur mig.
-Já, hvísla ég þótt hann hefi ekki orðað neina spurningu.
-Ertu viss?
-Já.

Skrattinn steinsofandi í sauðarleggnum uppi við Rauðhóla og bærir ekki á sér. Það er fullkomnað.

Ligg í hálfmóki einhversstaðar milli ljóðs og vímu. „Maður fær ekki allt“ hef ég svo oft sagt. Hvílk della. Maður fær einmitt allt. Stundum meira að segja eitthvað betra en það sem maður biður um. Ég hefði orðið hæst ánægð með Elías en mér datt aldrei í hug að ég fengi Pegasus í staðinn.

-Ég treysti þér Pegasus,
segi ég.
-Já, það er greinilegt, svarar hann og brosir kankvíslega eins og hann er vanur. Líklega kemur það mér meira á óvart en honum.

Það er fullkomnað.
Eftir öll þessi ár er það fullkomnað.

 

Mara

Skrattinn steig niður af veggnum og tróð sér undir sængina.
-Hvað varð um líkið sem þú geymdir í kjallaranum? spurði hann og rak kaldar klaufirnar í vinstri sköflunginn á mér.
-Ég gróf það, svaraði ég og breiddi betur úr mér í von um að hann yrði fljótt leiður á þrengslunum.
-Meeeehhh. Hversvegna varstu að grafa þetta fallega lík? spurði hann og lét ekki á sér finna að plássleysið færi neitt fyrir brjóstið á sér. Halda áfram að lesa