Mikið ofboðslega var gaman í gær. Uppskriftin að vel heppnuðu fylliríi er alltaf á sömu leið:
-Byrja snemma
-Borða vel
-Hundsa leiðinlegt fólk og illa drukkið
-Drekka hóflega
-Syngja óhóflega
-Borða kleinur eða eitthvað álíka feitt fyrir svefninn
-Koma sér í bælið fljótlega upp úr miðnætti.
Ég hef ekki sungið svona mikið í mörg ár. Það hvarflaði ekki að mér þegar ég söng fyrir drengina mína og kenndi þeim vísur að ég væri þar með að koma mér upp framtíðar drykkjufélögum en það er fín aukaverkun. Darri fæst að vísu ekki til að syngja fremur en tala en hann kann öll lögin og það þarf aldrei að ganga á eftir honum til að taka upp gítarinn. Reyndar mætti hann ekki fyrr en undir miðnætti, góðu heilli því hann var þá að koma úr öðru partýi. Fyrir ári var ekki einusinni hægt að ýta honum á árshátíð hjá björgunarsveitinni. Líklega er það að henda honum út það besta sem ég hef gert fyrir hann.
Hulla systir mín kvartaði einhverntíma undan því að það væri ekki hægt að syngja með mér því þegar lagið væri búið, héldi ég alltaf áfram og syngi líka hin 50 erindin sem enginn kynni. Í gær hitti skrattinn ömmu sína. Vésteinn kann fleiri þjóðkvæði en ég. Öll 52 erindin. Og rútukvæðin og skátakvæðin. Og írsku söngvana líka. Og að sjálfsögðu kommúnistasöngvana. Í nokkra klukkutíma fannst mér ég næstum því trúa á Gvuð.
Og svo fékk ég gjöf. Diskinn með Sóleyjarkvæði. Það er ekki oft sem gjafir hitta svona beint í mark. Og þá mundi ég eftir miklum sannleik; sá sem kann kveðskap Jóhannesar úr Kötlum utan að þarf enga gvuði til að komast til himnaríkis.
—————————————————-
takk fyrir síðast 🙂
Posted by: inga hanna | 17.05.2008 | 23:17:02
—————————————————-
Sömuleiðis 🙂 Ég væri til í samkvæmi með samskonar veitingum (bragðlaukarnir í mér fengu raðfullnægingu) og samskonar tónlist en kannski heldur færra fólki og í heimahúsi í stað hótels.
Posted by: Eva | 18.05.2008 | 1:16:35
—————————————————-
Takk fyrir síðast. Þetta kvöld var alveg óvenjulega skemmtilegt. Svo skemmtilegt að ég er ennþá að skríða saman..
Posted by: Vésteinn | 18.05.2008 | 13:34:43