Reykjavíkurdrama

Í hvert sinn sem mér dettur í hug að fara út með stelpunum, rek ég mig á sannleika sem er annars frekar sjaldgæfur í öðrum sápuóperum. Nefnilega þann að ég tilheyri engum svona vinahóp. Ég á eina vinkonu hér og aðra þar og þær þekkjast ekki.
Lausnin er nokkuð augljós og það að ég skuli ekki hafa farið þá leið fyrr segir meira um selskapsþörf mína en hugmyndaflug. Ég lét þó verða af því í gær að kynna tvær þeirra kvenna sem eru mér kærastar og um leið að hitta þá þriðju sem ég kannaðist aðeins lauslega við fyrir. Við fórum út að borða og mér leið eins þetta gæti alveg verið sápa á borð við sex and the city nema hvað við erum miklu áhugaverðari karakterar.
Persónur (nöfn leikara ekki uppgefin að svo stöddu):
-Sú vel gifta með börn og bú, allt á hreinu og hefur líklega prýðilega stjórn á sínum heittelskaða.
-Karríerkonan sem þrátt fyrir að þekkja sæg fávita finnst karlmaðurinn að mörgu leyti forvitnilegt dýr, en hefur bara ekki tíma fyrir neitt rugl.
-Menntabrautin sem getur alveg haft gaman af að horfa á álitlega karlmenn úr fjarlægð en þarf svosem ekkert á þeim að halda.
-Og svo þessi rómantíska sem þrátt fyrir þrotlausa leit mun sennilega aldrei finna húfu sem hæfir derinu.Ég man ekki alveg hvað við vorum að tala um allt kvöldið. Ekki svo mikið um karlmenn allavega. Sem bendir eindregið til þess að ástalíf okkar sé ekki beinlínis áhugavert þessa dagana. Sem er aftur á móti nokkuð harkalegt olnbogaskot í síðu handritshöfundar enda vonlaust að halda úti sápuóperu án dramatískra ástarsambambanda.Ég held að ég neyðist til að fara að lenda í einhverju rugli fljótlega. Allavega er ekkert sem bendir til þess að hinar séu á leið með það og einhvern efnivið þarf maður að hafa til að halda úti almennilegri sápuóperu.Hér með tilkynnist: ég ætla að byrja í ruglinu um miðja næstu viku (hef bara ekki tíma til þess fyrr). Áhugasamir rugludallar gefi sig fram við afgreiðslu.