Brú

Auðvitað hlaut að koma að því að við hittumst á götu. Nánar tiltekið rétt fyrir utan Nornabúðina -sem er reyndar rökrétt.
-Nú er ég „hið óumflýjanlega“, hugsaði ég kampakát, kastaði á hann kveðju, bauð honum ekki inn með orðum en skildi dyrnar eftir opnar, bara svona til að kanna viðbrögðin. Hann fylgdi mér inn. Halda áfram að lesa

Skýrsla

Klukkan að ganga þrjú og ég ennþá vakandi. Öðruvísi mér áður brá.

-Ég fæ íbúðina mína afhenta í fyrramálið en er alls ekki viss um að ég komist í að flytja fyrr en um helgina.
-Sem er eiginlega ekki frábært því Elías kemur um helgina og ég fer út þann 9. svo við náum varla að hittast almennilega ef ég þarf að standa í flutningum allan sunnudaginn.
-Tukthússlimurinn losnar úr haldi á miðnætti á morgun.
-Búðin mín verður líklega lokuð á afmælisdaginn sinn 2. ágúst, af pólitískum ástæðum.

Ammli

Vaknaði tvisvar við símann í nótt. Get svosem alveg fyrirgefið þeim sem hringja á næturnar þegar tilgangurinn er að syngja afmælissöng, úr partýi sem ég hefði kannski mætt í ef mér þætti ekki skemmtilega að sofa. Já og Elías er á sérsamningi. Vaknaði svo fertug í morgun. Gömul og vitur kona í stelpulíkama. Ætla samt ekki að fagna fyrr en í haust þegar ég er flutt inn í fallegu, fallegu íbúðina mína og vinir og vandamann komnir úr sumarfríi.

Ég er samkvæmt hefð að vinna á ammlisdaginn minn. Notaði morguninn til að útbúa kræsingar ofan í 16 manns (jamm, nornafundur í kvöld) og á eftir að útbúa smágaldra fyrir hópinn og nokkrar pantanir.

Fæ samt pönnukökur hjá pabba og Rögnu í dag.

 

Leiðindi

Byltingin er að vinna á Sólheimum, Jarðfræðingurinn að undirbúa ráðstefnu, Pysjan í Danaveldi, Lærlingurinn á Ítalíu, Anna á Spáni, Elías – það er nú eins og það er og Ljúflingur farinn heim að fóðra tíkina.

Ég hef andskotans yfirdrifið nóg að gera en nenni engu af því.

Mér leiðist.

Ég fann síðast fyrir þessari tilfinningu í ágúst árið 2000. Þá var ég fangavörður á Litla Hrauni. Leiðindin komust á alvarlegt stig en ég læknaði sjálfa mig af þeim með því að stofna til ástarsambands við einn fanganna. Það var ekki gott mál að leiðast of lengi.