Hagkvæmt

Einu sinni hitti ég hund sem kenndi mér mikla speki.
Ef þú getur ekki étið það, mígðu þá á það.
Og það get ég sagt þér að þótt tíkin þín mígi utan í húsið þitt, fjallajeppann eða skóna þína er það ekkert sérstaklega persónulegt, það er bara það sem hundar gera.

Mig skortir þetta hundslega eðli. Ég er ekki undirgefin, ekki húsbóndaholl, ekki einu sinni trygglynd. En ég myndi ekki míga á þig heldur og þessvegna hefði verið skynsamlegt af þér að elska mig.

I never promised you a rosegarden. Ég hefði gert góðlátlegt grín að snobbinu í þér en stundum gengið of langt og sært þig. Ég hefði sett lykkju á leið mína til að spara undarlegum puttalingum nokkurra kílómetra göngu, án þess að spyrja þig álits. Ég hefði ekki hætt ósiðum eins og að bíta í gaffalinn og henda mikilvægum pappírum í kassa með úreltu heimilsbókhaldi og gömlum glósum. Ég hefði áfram reynt að gera við biluð heimilstæki með því að sparka duglega í þau og ég hefði straujað skyrturnar þínar í 2 mánuði en hætt því um leið og þú færir að reikna með því. Ég hefði spurt mömmu þína óþægilegra spurninga og neytt þig til að horfast í augu við hluti sem þú kærir þig ekki um að vita.

Kannski er ég eina manneskjan sem þú munt nokkurntíma kynnast sem trúir því að maður þurfi ekki að sofa hjá öllum sem maður giftist og það hefði hentað þér. Ég hefði að vísu tekið ýmsar ákvarðanir sem í þínum huga eru undarlegar. Ég hefði ekki slitið vináttunni við Ljúfling tilveru minnar og ég hefði sofið hjá Elíasi þá sjaldan að hans nyti við. Ég hefði heldur ekki sett mig á móti því þótt þú vildir hitta einhverja Gandálfa af og til, bara beðið þig að skola af þér hlandið áður en þú kæmir upp í rúm til mín. Ég hefði gert einmitt það sem þessi töframaður þinn hafði ekki úthald í, ég hefði nefnilega verið góð við þig. Af því að ég hefði kosið návist þína, ekki þrátt fyrir það sem þú ert heldur vegna þess.

Og ef það er ekki as good as it gets, skal ég hundur heita.