Horfir fjarrænn fram hjá mér, þambar kaffið. Ósköp fer honum illa að vera edrú.
-Eitthvað að frétta?
Hitti hann síðast fyrir tveimur og hálfu ári, fyrir ca 1000 vefbókarfærslum síðan. Hefur eitthvað gerst á þeim tíma? Opnaði Nornabúð, gekk í gegnum vinslit, endurheimti vináttu sem ég hélt að ég hefði klúðrað. Lærði magadans, eyddi frístundum með manni sem elskar mig en getur ekki sofið hjá mér og öðrum sem getur sofið hjá mér en ekki elskað mig. Sótti prinsessuna til Danmerkur og slóst við kerfið sem hafnaði henni. Kynntist Elíasi og missti hann. Kynntist Rósinni, Málaranum, Lærlingnum og litla Leikaranum, Dándikonum og Dindilhosum og þó fyrst og fremst Önnu. Horfði á eftir syni mínum í svaðilför og fékk hann heilan heim, eignaðist draumaíbúð, missti Drenginn sem fyllti æðar mínar af Endorfíni til útlandsins …
-Nei það er allt við það sama, segi ég.
-Þú hefur allavega opnað þessa búð.
-Já. En þú?
-Nei, ekkert að frétta af mér.
-Allt í sama fari? Ekur á daginn og drekkur á kvöldin, hittir börnin á sunnudögum?
-Já.
-Hvernig er hægt að drekka svona mikið en vera samt alltaf jafn fallegur?
-Það er ekki brennivínið sem gerir menn gamla heldur kerlingarnar sem eru alltaf að nöldra yfir því. Halda sig frá kvenfólki, það er málið.
-Það hlýtur að vera gott líf.
-Og þitt?
-Kannski ekki alveg jafn einfalt en samt harla gott.
-Ég þarf að fara, sagði hann, stóð upp og faðmaði mig. Kyssti mig. Á varirnar. Jú ég hef kysst hann. Allavega einu sinni. Hönd á hnakka.
-Ekki snerta mig svona Haffi minn.
-Þig langar.
-Jájá en það er bara líkamlegt.
-Ríðum.
-Nei, ég vil það ekki. Búðin er líka opin.
-Ég læsi bara.
-Nei. Alexander getur komið á hverri stundu. Auk þess vil ég ekkert rugl. Nenni því bara ekki.
-Við höfum getað riðið hingað til án þess að það fari út í rugl.
-Ég vil það samt ekki.
Auðvitað vildi ég það alveg. Hversvegna ekki? Ég hef aldrei lagst í neina taugadrullu yfir honum og svosem engin hætta á því. En ég sagði samt nei og svo hallærislegt sem það er, þá var það bara vegna þess að mig langaði að vinna, hafa betur, kannski jafnvel að særa einhvern.
Það er ljótt að vera manneskja. Stundum mjög ljótt.