Matarboð hjá Ingu Hönnu

Í gær bjó ég til nýtt blótsyrði. Geitillinn. Það spratt af samræðum í matarboði hjá Ingu Hönnu. Frábær vegan-matur og miiiiiikið vín. Bloggarar. Horfi á þau og velti því fyrir mér hvort þau séu sögupersónur eins og ég eða alvöru fólk. Munurinn sést ekki svo auðveldlega.

Á tímabili tók ég það dálítið nærri mér að vera ekki til. Fannst eins og veruleikinn hlyti að vera eitthvað óskaplega merkilegur. Jafnvel þótt fólk tali gjarnan um það með glýgju í augum að eitthvað sem það upplifði hafi verið „eins og í sögu“. Veruleikafólkið vill komast inn í söguna, sögufólkið langar að vera raunverulegt. The grass is always greener…

Um daginn sagði Haukur við mig:
-Það er kjaftæði að lífið sé ævintýri. Lífið ER ekkert ævintýri og maður getur vel farið í gegnum það án þess að upplifa neitt sem er þess virði að muna það. Það býður hinsvegar upp á tækifæri til ævintýra.

Það er rétt hjá honum en augljósasta og aðgengilegasta tækifærið er samt sápuóperan. Og munurinn á sápuóperu og ævintýri er sá að persónur sápuóperunnar eru ekkert sérstakar hetjur og sagan heldur áfram þótt þær falli frá eða gifti sig, það koma bara nýjar persónur í staðinn. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta fólk sem situr hér á þægilegu stólunum hennar Ingu Hönnu og gæðir sér á ólívubrauði með heimalöguðu tómatapestói, lifir raunveruleika, sápuóperu eða ævintýri og þótt umræðuefnið hafi stundum verið á mörkum þess að vera menningarlegt (ýmis geitlegheit komust t.d. á dagskrá) þætti mér dónalegt að spyrja einhvern hvort hann sé alvöru eða feik.

Hver er þá munurinn á alvöru persónu og sögupersónu, spurði Elías mig í einni af tilraunum sínum til að skilja mig.
-Sögupersónan veit að hún skiptir engu máli nema rétt á meðan lesandinn er upptekinn af henni og að hver sá sem tengist henni mun með góðri samvisku leggja bókina frá sér og reikna með að hún verði þar áfram þegar honum hentar að opna hana aftur. Alvöru fólk heldur hinsvegar að það sem það hugsar og gerir þegar það er eitt með sjálfu sér hafi merkingu og rithöfundurinn heldur að það sé skylda hans að koma þeirri merkingu á framfæri. Sögupersónan er að því leyti siðlaus að hún álítur allt í lagi að klóra sér í klofinu eða fremja morð svo framarlega sem enginn veit það. Hinsvegar myndi hún sennilega hvorugt gera af því að það hefði hvort sem er enga merkingu.
-Ertu ekki bara að tala um nihilisma?
spurði Elías.
-Nei, sagði ég, því níhilistinn álítur að ekkert hafi merkingu. Ég álít að allt hafi merkingu en þó aðeins að einhver bæði viti af því og skilji það sama skilningi og ég sjálf. Sem er auðvitað ekki raunhæft enda er ég ekki til.

Ég býst við að flestir myndu kalla þessa hugmynd póstmódernisma, sem er, sakir ofnotkunar, jafn ónýtt hugtak og feminismi. Ég kalla það sýndarveruleikaraunsæi en munurinn á því og póstmódernisma er sá að póstmódernistinn álítur að táknmyndin endurspegli veruleikann en sá sem aðhyllist sýndarveruleikaraunsæi telur að veruleikinn verði til í táknmyndinni.

Nei, hvur geitillinn, þarna plataði ég ykkur aldeilis. Vefbókin er nefnilega af sama toga og ævisagan. Sá sem les hana er ekki að sækjast eftir bókmenntalegu gildi, heldur að leita að sjálfum sér og fólki sem hann þekkir. Þessvegna munu þessir 6 matgæðingar sem hittust heima hjá Ingu Hönnu í gær og hugsanlega einhverjir vinir þeirra eða ættingjar, lesa þessa færslu til að gá hvort ég hafi skrifað eitthvað um þau (auk mín, sem er sennilega minn dyggasti lesandi enda kem ég gjarnan við sögu í þessari bók) . Þess í stað er ég núna búin að tæla ykkur til að lesa bókmenntafræðipistil sem litlar líkur eru á að þið hefðuð annars lesið.

Það er ekki gott að segja hvort hefur minni merkingu, að skrifa eitthvað sem ekki verður lesið eða að skrifa eitthvað sem fólk les af öðrum hvötum en áhuga á efninu. Ég held að Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni sé búinn að átta sig á því að ég er ekki til. Ég segi svosem ekki geitillinn en mér finnst alltaf dálítið rassgat þegar það gerist.

 

One thought on “Matarboð hjá Ingu Hönnu

 1. ———————————————

  er til próf – svona „er ég alvöru fólk eða sögupersóna“-próf?

  Posted by: baun | 18.08.2007 | 10:45:39

  ———————————————

  Ef fólk elskar þig út af lífinu í fullri alvöru en á samt ekkert erfitt með að yfirgefa þig, þá ertu sögupersóna.

  Posted by: Eva | 18.08.2007 | 10:58:33

  ——————————————————–

  Takk fyrir síðast:-) Skemmtilegt boð og góður matur. Ég lofaði þér slóð á Kiva.org – þar með er hún komin. Mér finnst þetta snildardæmi.

  Posted by: Simmi | 18.08.2007 | 13:26:17

  ——————————————————–

  Takk Simmi. Ég kíki á þetta, ekki spurning.

  Posted by: Eva | 18.08.2007 | 16:02:06

  ——————————————————–

  takk fyrir síðast 🙂
  gaman að fá ykkur í heimsókn!

  Posted by: inga hanna | 18.08.2007 | 16:13:43

Lokað er á athugasemdir.