Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Nammidagar

nammiAmma vann í lúgusjoppunni á Langholtsvegi. Ég var þriggja eða fjörurra ára og stöku sinnum var ég hjá henni í vinnunni, kannski einn eða tvo tíma. Ég veit ekki hvernig það kom til en finnst líklegast að þetta hafi verið ráðstöfun til að brúa bilið milli leikskóla og vinnutíma móður minnar eða eitthvað í þá veru. Halda áfram að lesa

Myndir af orðum

Ég á erfitt með að móta frumlega mynd í huganum. Ég sé t.d. sjaldan fyrir mér persónur og atburði í skáldsögum nema leggja mig fram um það og þá set ég andlit þekktra leikara (eða bara fólks sem ég kannast við) á persónurnar. Ég verð sjaldan fyrir vonbrigðum með val leikara í kvikmyndir gerðar eftir skáldsögum, finnst bara frábært að hafa loksins fengið að sjá hvernig fólkið lítur út. Ég skynja atburði sem ég les og heyri um sem útlínur og skugga, ef ég skynja þá sjónrænt á annað borð. Halda áfram að lesa

… þá gætirðu lagt hvern einasta karlmann

Ég var orðljótur unglingur.

Margir höfðu orð á því en mér var slétt sama. Reyndar hélt ég aftur af subbuskapnum í návist pabba, án þess að vita almennilega hversvegna. Á þessum árum var enginn annar í lífi mínu sem ég tók mark á og líklega hefur hann aldrei heyrt nema brotabrot af þeirri hroðalegu gnótt blóts- og klúryrða sem ég tvinnaði saman ef mér rann í skap, og því ekki séð ástæðu til að setja ofan í við mig. Halda áfram að lesa

Á vængum túrtappans

Tampon 2Kannski er fattarinn í mér lengri en gengur og gerist.
Eða þá að ég hef ekki fylgst nógu vel með þróuninni í auglýsingargerð síðustu árin.
Allavega lendi ég stundum í túlkunarvanda.

Ég á semsagt að kaupa bindi með stærri vængjum og ganga í guðdómlegum silkinærbuxum þótt ég sé með blæðingar. Ok. ég næ því. En hvað svo? Henda gömlu túrbrókunum út um gluggann??? Ég verð að játa að mér finnst það ekki mjög dannað.

Eða eru það fínu brækurnar sem ekkert blóð hefur komist í tæri við sem svífa yfir borginni? Sennilega á vængjum hins fullkomna dömubindis. Og eiga þá að tákna heimboð? Hey gæjs, ég er ekki á túr (með lygaramerki á tánum)og brókinni fleygt út sem fölsku sönnunargagni?

Mér finnst það líka ódannað.

Þegar ég er orðin stór ætla ég að skrifa metsölubókina Á vængjum túrtappans. Semsagt söguna af falli Framsóknarflokksins.