Myndir af orðum

Ég á erfitt með að móta frumlega mynd í huganum. Ég sé t.d. sjaldan fyrir mér persónur og atburði í skáldsögum nema leggja mig fram um það og þá set ég andlit þekktra leikara (eða bara fólks sem ég kannast við) á persónurnar. Ég verð sjaldan fyrir vonbrigðum með val leikara í kvikmyndir gerðar eftir skáldsögum, finnst bara frábært að hafa loksins fengið að sjá hvernig fólkið lítur út. Ég skynja atburði sem ég les og heyri um sem útlínur og skugga, ef ég skynja þá sjónrænt á annað borð.

Mörgum finnst þetta óskiljanlegt, eiga jafnvel erfitt með að trúa því að þetta sé hægt. Samt hlýtur fólk sem er blint frá fæðingu að skynja veröldina á annan hátt en sjónrænt svo varla er þetta bara geðbilun í mér.

Þegar ég var lítil, áður en ég varð læs, sá ég fyrir mér myndir af óhlutstæðum fyrirbærum. Það voru sjaldan myndir af fólki og atburðum. Ég man að mér fannst laugardagur líkjast útlínum Íslandskortsins og júlí leit út eins og innakstur bannaður skiltið. Hamingjan var blá snjóþota.

Þegar ég var í 2. bekk áttum við að teikna mynd af sumardeginum fyrsta. Ég vissi ekki að skrúðgöngur, blöðrur og fánar tilheyrðu þessum degi. Ég og mínir félagar fengum heldur ekki sumargjafir. Heima hjá mér var fyrsta degi sumars ekki fagnað með neinum látum, kannski steiktar lummur og sett slaufa í hárið eins og á sunnudögum. Ég teiknaði þessvegna mynd af orðunum „sumardagurinn fyrsti“. Það var mynstur sem mig minnir að hafi átt að vera merki ríkissjónvarpsins (hversu vel það tókst er annað mál). Kannski hef ég tengt sumardaginn fyrsta við eitthvað sem ég heyrði (en sá ekki) í sjónvarpinu.

Kennarinn sýndi ekki beinlínis vanþóknun, sagði bara dálítið hissa að ég hefði „ekki gert þetta rétt“. Ég var hlýðið barn og fyrirferðarlítið og ólíklegt að ég hefði gert annað eins af óþekkt. Ég var heldur ekki heimsk og hlaut að hafa skilið út á hvað verkefnið gekk. Hún spurði hvort mér þætti ekkert gaman á sumardaginn fyrsta. Ég sá að hinir krakkarnir höfðu teiknað myndir af 17. júní og krökkum í boltaleik. Ég skildi ekki af hverju þeim fannst sumardagurinn fyrsti líta út eins og fáni eða bolti en ég áttaði mig á því að þau höfðu rétt fyrir sér. Ég vissi líka að ég hafði samt ekki beinlínis rangt fyrir mér, það var eitthvað annað sem hafði gerst.

Og þá skildi ég að ég var öðruvísi.