Gjafir handa körlum

blómIðulega gerist það að einhver kemur inn í búð til mín í örvæntingu og er að leita að gjöf handa karlmanni.

Það er auðvelt að finna gjöf handa konu. Konur eru einatt ákaflega hrifnar af því að fá eitthvað lítið og sætt svo ef manni dettur ekkert frumlegt í hug er alltaf hægt að redda sér með blómum, súkkulaði, krúttlegum mokkabolla eða skartgrip.

Karlar eru allajafna sagði einfaldari verur en konur og auðveldara að gera þeim til hæfis en það á sko ekki við þegar maður þarf að velja gjöf. Það er þannig séð ekkert erfitt að finna eitthvað sem myndi gleðja þá, ég þekki t.d. margan manninn sem yrði frávita af gleði ef hann fengi glussalyftu í afmælisgjöf, en þær eru bara svo dýrar.(Auk þess sem maður væri þar með búinn að baka sér ævilanga óvild konunnar hans ef hann á ekki þeim mun stærri bílskúr.) Ef gjöfin á að kosta innan við þrjúþúsund kall, ég tala nú ekki um ef maður er bara að leita að einhverju algeru smotteríi, þá enda ég a.m.k. alltaf í bókum, tónlist eða kvikmyndum. Sem er ekki auðvelt ef maður þekkir viðkomandi ekki vel og er ekki mjög persónulegt, ég man t.d. ekkert hver gaf mér hvaða bók en ég er alveg með það á hreinu hver gaf mér hvaða skartgrip.

Þetta er eiginlega rassgat. Ég þekki fullt af karlmönnum sem ættu það alveg skilið að ég sýndi þeim einhver elskulegheit en ef ég ætlaði að finna ponkulitla smágjöf handa t.d. Uppfinningamanninum eða Málaranum, (eitthvað sem hitti í mark en ekki einhverja skítareddingu eins og merkt handklæði eða annað sem myndi gleðja konu) þá yrði það líklega nýr skábítur eða eitthvað svoleiðis sem þeir myndu hvort sem er kaupa sjálfir. Mín reynsla er allavega sú að það sé fjandanum erfiðara að finna persónulega gjöf sem gleður karlmann. Dæmi:

-Skartgripir: þeir sem á annað borð nota þá eiga eitt hálsmen eða einn hring sem þeir eru alltaf með. Annað skraut yrði bara fyrir þeim.

-Fatnaður, ilmvatn, listmunir: þá þarf að vera algerlega á hreinu að hann hafi smekk fyrir það sem maður velur, annars er maður bara að gera honum óleik.

-Eitthvað fallegt fyrir heimilið: Fummmmbbl, sætir hlutir eru ekkert fyrir þeim en þeir smjúga ekki inn í hjörtu þeirra sem tákn um ævarandi hollustu þína. Einu sinni færði vinur minn mér bremsuborða að gjöf, geislandi af umhyggju. Mig vantaði þá svo það var alveg kærkomið þannig lagað, en hjartað í mér tók ekki neinn kipp. Ég held að einmitt það sama gerist ef maður gefur karlmanni eitthvað sætt.

-Blóm: Sama.

-Konfekt: Þeim finnst það alveg gott þannig séð en þeir upplifa ekki súkkulaði á sama hátt og við. Þú gætir alveg eins gefið honum vænt steinbítsflak.

-Vín. Já, ef hann á annað borð er mikið fyrir það. Gallinn er sá að allir hinir koma líka með áfengi. Glætan að pabbi gæti rifjað það upp í dag hver gaf honum hvaða koníaksflösku á sextugsafmælinu.

Það er samt hátíð að finna afmælisgjöf handa einhverjum sem er manni ekki mjög náinn, við hliðina á því að finna ástargjöf. Ekki svo að skilja að ég sé að leita að ástargjöf en ég hef lent í því nokkrum sinnum á síðustu 25 árum og það er agalegt. Mestu mistök mín í gjafakaupum voru þau að gefa karlmanni rándýran skartgrip. Þá var ég líka ung og vitlaus. Næst þegar ég kaupi dýra gjöf handa karlmanni verður það glussatjakkur eða eitthvað annað sem hann hefur raunverulega gaman af.