Kannski er fattarinn í mér lengri en gengur og gerist.
Eða þá að ég hef ekki fylgst nógu vel með þróuninni í auglýsingargerð síðustu árin.
Allavega lendi ég stundum í túlkunarvanda.
Ég á semsagt að kaupa bindi með stærri vængjum og ganga í guðdómlegum silkinærbuxum þótt ég sé með blæðingar. Ok. ég næ því. En hvað svo? Henda gömlu túrbrókunum út um gluggann??? Ég verð að játa að mér finnst það ekki mjög dannað.
Eða eru það fínu brækurnar sem ekkert blóð hefur komist í tæri við sem svífa yfir borginni? Sennilega á vængjum hins fullkomna dömubindis. Og eiga þá að tákna heimboð? Hey gæjs, ég er ekki á túr (með lygaramerki á tánum)og brókinni fleygt út sem fölsku sönnunargagni?
Mér finnst það líka ódannað.
Þegar ég er orðin stór ætla ég að skrifa metsölubókina Á vængjum túrtappans. Semsagt söguna af falli Framsóknarflokksins.