… þá gætirðu lagt hvern einasta karlmann

Ég var orðljótur unglingur.

Margir höfðu orð á því en mér var slétt sama. Reyndar hélt ég aftur af subbuskapnum í návist pabba, án þess að vita almennilega hversvegna. Á þessum árum var enginn annar í lífi mínu sem ég tók mark á og líklega hefur hann aldrei heyrt nema brotabrot af þeirri hroðalegu gnótt blóts- og klúryrða sem ég tvinnaði saman ef mér rann í skap, og því ekki séð ástæðu til að setja ofan í við mig.

Svo varð ég 16 ára. Einhverju sinni var ég stödd á skemmtistað (á þeim tíma var börnum fúslega hleypt inn á vínveitingastaði)og hitti þar kennara minn úr grunnskóla sem ég hafði ekki séð í tvö ár. Hann var sauðdrukkinn en það dró ekkert úr áhrifamætti orðanna. Hann greip andann á lofti þegar hann sá mig og það var engin hugsun á bak við það sem hann sagði, það kom beint frá hjartanu:

-Drottinn minn dýri hvað þú ert orðin sexý. Ef það væri ekki fyrir sóðatrantinn á þér gætirðu lagt hvern einasta karlmann hér inni, mig meðtalinn.

Mér leið eins og ég hefði verið slegin í andlitið en samt ekki nógu fast til að reiðast. Það var eiginlega ekki nokkur leið að leggja trúnað á bara hluta af staðhæfingunni, annað hvort var hún rétt eða röng. Mig langaði ekki baun að leggja nokkurn einasta karlmann á staðnum, hvað þá kennarann, sem mér þótti annars vænt um, en mig langaði sannarlega að GETA það.

Það hefur örugglega ekki hvarflað að þessum fyrrum kennara mínum, hvorki þá né síðar hversu mikil áhrif hann hafði á bæði framkomu mína og sjálfsmynd, bara með þessari einu athugasemd. Það varð heilagt missjón hjá mér að geta lagt hvern einasta karlmann á staðnum og ég gerði mér jafnvel ferðir á skemmtistaði (sem ég annars hafði enga ánægju af) bara til þess að kanna gengi mitt í þeim efnum og æfa mig í táldráttartækni. Ég steinhætti að tvinna blótsyrðum inn í hverja málsgrein og setti töluverðan sköpunarkraft í það verkefni í að koma mér upp lista af eilítið dömulegri móðgunum til að nota í neyð.

Í dag nota ég fúkyrði meðvitað. Ég vel þau af stakri smekkvísi og eingöngu þegar tilefnið er gott. Ég hef samt tekið eftir því að ef ég lendi í pirrandi aðstæðum, (kem t.d. að vegatálma þegar ég er í tímaþröng eða uppgötva að ég á ekki pipar eftir að ég er byrjuð að elda), á ég til að segja „rassgat“ stundarhátt um leið og ég set hnykk á höfuðið eða stappa fæti í gólfið. Þetta eru ekki sérlega dömuleg viðbrögð en ég held að ég gæti samt lagt hvern einasta kjaft á einhverju öldurhúsanna ef ég nennti að standa í því að tæla fyllibyttur. Ég velti því hinsvegar stundum fyrir mér hvort ég verði átómatískt orðljót ef ég fæ Alsheimer. Orðljótt gamalmenni með Alsheimer er ekki beinlínis heillandi hugmynd.