Fyrsta kynjakrísan

Mér þótti vænt um Pétur og Alla og Guðgeir frænda minn. Það var hægt að kubba og púsla með þeim ef maður hitti aðeins einn í einu og ég ætlaði að giftast Pétri. EN, þeir voru strákar. Sem var sko ekki það sama og að vera stelpa.

Það var mér mjög mikilvægt að vera stelpa því stelpur fengu að hafa slaufur í hárinu og vera í kjól á sunnudögum. Svo lékum við okkur líka að brúðum og öðru almennilegu dóti og bökuðum drullukökur sem við skreyttum með fíflahausum á meðan strákarnir veltust um í byssuleik og viðlíka bjánaskap. Strákar gátu alveg verið vænir en það var dannaðra að vera stelpa, það var ekki vafamál. Fínast af öllu var samt að vera fjögurra ára eins og Rósa. Hún var næstum fullorðin og átti þríhjól með skúffu og vissi fullt. Ég var líka frekar stór. Nýbúin að eiga afmæli og allt. En fjögurra ára var samt stærra en þriggja.

Það var Rósa sem sagði mér að rauður væri stelpulitur en blár strákalitur. Það olli mér talsverðu hugarangri því ég átti bláan kjól sem ég var ákaflega hrifin af og hann var augljóslega ekki strákaflík, svo mikið vissi ég. Rósa taldi að önnur lögmál gætu gilt um kjóla en auk þess var kjóllinn minn ljósblár og það gat nú kannski gengið.

Ég tók þessu með strákaliti og stelpuliti mjög alvarlega. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það var samdægurs eða nokkrum dögum síðar sem ég fékk nýja litabók en ég man að ég litaði sjóinn rauðan. „Já en er sjórinn ekki blár?“ sagði pabbi, og ég sem vissi vel að sjórinn var blár og vildi gera rétt, vissi líka að blátt var strákalitur og að ég vildi enga áhættu taka á því að tilheyra þeirri illskiljanlegu dýrategund.

Ég brást við klemmunni með þeirri einu aðferð sem ég réði við; ég henti mér í gólfið og orgaði. Ég efast um að pabbi hafi haft minnstu hugmynd um hvað gekk á í kollinum á mér.