Nammidagar

nammiAmma vann í lúgusjoppunni á Langholtsvegi. Ég var þriggja eða fjörurra ára og stöku sinnum var ég hjá henni í vinnunni, kannski einn eða tvo tíma. Ég veit ekki hvernig það kom til en finnst líklegast að þetta hafi verið ráðstöfun til að brúa bilið milli leikskóla og vinnutíma móður minnar eða eitthvað í þá veru.

Sjoppan var ævintýraland. Innaf afgreiðslurýminu var kassi með litabók, púsluspili og fleira dóti sem ég mátti dunda við og svo fékk ég að sitja uppi á borði og velja mér sælgætismola úr stórum krukkum með rauðum lokum.

Ég fékk alltaf að velja þrjá mola. Einn skömmu eftir að ég kom. Einn þegar ég var bæði orðin leið á öllum leikföngunum og því að skipuleggja frekara sælgætisát. Og einn „í nesti“ þegar ég var sótt.

Amma kom líka alltaf með nammi með sér þegar hún kom í heimsókn. Oftast kom hún með þrjá mola í vindlahylki. Það var alltaf jafn spennandi að opna hylkið og sjá hvort samsetningin að þessu sinni væri súkkulaðikúla, lakkrísbiti og mandla, eða kannski karamella og tvær súkkulaðikúlur. Stundum kom hún ekki með hylkið, heldur einn súkkulaðifrosk eða síríuslengju.

Amma þótti alveg ferleg. Aðrar ömmur tróðu að vísu gjarnan sælgæti í barnabörnin en ekki í viðlíka mæli og amma mín. Það var alveg sama hve oft móðir mín bað hana að draga nú úr þessum sætindaaustri, amma bara sneri upp á sig og spurði hvort ég ætti ekki ágætis tannbursta.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar kona kom inn í búðina og keypti karamellur handa börnunum sínum en bara eina á mann af því að það er ekki nammidagur.

Líklega hefur amma verið á undan sinni samtíð.